12.03.1974
Sameinað þing: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2701 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

416. mál, landshlutaáætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hlýt að harma það, hvaða seinagangur hefur orðið á því, að þessari sérstöku landshlutaáætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu sé komið á það stig, að hægt sé að hefja framkvæmdir samkv. henni. Mér er ekki kunnugt um, að þessar frumskýrslur liggi fyrir, sem hæstv. forsrh. talaði um áðan. Síðast í morgun reyndi ég að afla mér upplýsinga um, hvort nokkur slík plögg væru til, sem alþm. mættu rýna í, og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að málið er ekki komið á það stig enn þá.

Það var alltaf hugsað svo — eða ég tók það þannig, að það yrði reynt að haga þessari landshlutaáætlun þannig, að unnt yrði að byrja að vinna samkv. henni, áður en hún yrði endanlega tilbúin. Nú er það svo í Norður-Þingeyjarsýslu, að heimamenn þar eru orðnir býsna óþolinmóðir eftir, að eitthvað fari að sjást, og mig langar af því tilefni til að spyrja hæstv. forsrh., hvort nokkuð liggi fyrir um það nú eða hvort um það hafi verið rætt, hversu mikið fjármagn yrði veitt til þessarar landshlutaáætlunar nú á þessu ári, og jafnframt um það, hvað hugsað sé, að þessi landshlutaáætlun nái til margra ára. Það var minnst á það í fjhn. beggja þd. í gær eða fyrradag, hvort eitthvað lægi fyrir um það, hvernig fjármagni Framkvæmdastofnunar ríkisins yrði varið á þessu ári, og okkur skildist, að enn hafi ekki verið gerð áætlun um það. Þess vegna er þessi fsp. til hæstv. forsrh. fram borin.