14.03.1974
Neðri deild: 83. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2846 í B-deild Alþingistíðinda. (2547)

201. mál, kosningar til Alþingis

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta mál er komið á þennan rekspöl. Ég átti þátt í því á síðasta þingi að flytja þáltill. um þetta efni. Annars kom ég ekki upp í ræðustólinn til þess að segja þessi orð, heldur er það eitt atriði í kosningal., sem mig langar til þess að vekja sérstaka athygli á, áður en þetta mál fer til nefndar. Það er í sambandi við kosningu utan kjörfundar einnig. Það er nefnilega þannig, að kosning utan kjörfundar er, að því er kjósandann varðar, töluvert vandmeðfarnari en kosning á kjörstað. Utan kjörfundar þarf kjósandinn að skrifa bókstafinn, en við kosningu á kjörstað nægir að setja kross framan við bókstaf þess lista, sem kjósa skal. Ég hef það fyrir satt, að af ógildum seðlum í Austurlandskjördæmi við talningar á undanförnum árum hafi langflestir ógildu seðlarnir verið úr kosningu utan kjörfundar. Ég hef ekki nákvæmar tölur við þetta, en í mín eyru hefur verið giskað á, að 80 til 90% af ógildum seðlum séu þannig til komnir og þá langoftast af þeirri ástæðu, að stafurinn er ógreinilegur. Það er t. d, erfitt að þekkja sundur B og D á þessum ógreinilegu seðlum. Ég veit, að a.m.k, þar hefur aldrei neitt nálgast, að slíkir vafaseðlar, sem dæmdir hafa verið ógildir, hafi getað skipt sköpum við úrslit. En ef það kynni að koma upp á, sem auðvitað getur vel orðið hvar sem er á landinu, þá kynni málið að vandast og verða alvarlegra en það er, þegar þetta er ekkert nálægt mörkunum og þegar kjörstjórn kemur sér saman um það, gerir það með góðu samkomulagi að ógilda alla þá seðla, sem ekki eru fullkomlega greinilega merktir.

Nú er það svo einmitt með kjósendur, sem kjósa utan kjörfundar, að oft er það aldrað fólk eða sjúkt, væntanlega vex þátttaka þess í utankjörfundaratkvgr. við breyt. Stundum framkvæma menn þessa kosningu í flýti, kannske þegar þeir eru á leið í lengra ferðalag, koma við hjá kjörstjóra o.s.frv.

Ég vil þess vegna leyfa mér að beina því til hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún skoði vandlega 45. gr., sem fjallar um kjörgögn utankjörstaðafundaratkvgr. og hugi að því alveg sérstaklega, hvort ekki væri hægt að breyta formi þessara kjörgagna til hagræðingar fyrir kjósendur, sem kjósa utan kjörfundar. En eins og ég sagði áðan, fjölgar þeim væntanlega töluvert við þá hagræðingu, sem felst í þessu frv., sem væntanlega verður að lögum, og til hagræðis fyrir kjörstjórnir, sem vinna að talningu, því að það er allt annað að sjálfsögðu að meta krossinn heldur en þurfa að meta bókstafinn, misjafnlega greinilega skrifaðan. Ég skal ekkert fullyrða um, að þetta sé framkvæmanlegt, en ég vil biðja hv. n. að taka þetta til sérstakrar athugunar.