14.03.1974
Neðri deild: 83. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2851 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

24. mál, kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég hef út af fyrir sig ekkert að athuga við þetta frv., sem hér liggur fyrir nema það, að ég hélt, að þetta mál þyrfti að skoðast allt í heild. Er það rétt munað hjá mér, að Eskifjörður, Dalvík, Bolungarvík, Grindavík og enn fleiri kauptún hafi sótt um þessi réttindi? Aðalatriðið og málafylgjan hjá hv. 11. landsk. var sú, að það væri búið að flytja lögregluvaldið til Reykjavíkur. Þá er spurning, hvort það væri ekki athugandi að gera þessa hosu á Reykjavík að bæjarlandi þar, sem hún á landfræðilega séð eðlilegan hlut að. Ég vil benda á, að ef það eru rök fyrir því að gera Seltjarnarnes að sérstöku bæjarfélagi, að það sparist löggjafarvald og ekki þurfi að skipa sérstakan bæjarfógeta, þá vill svo til og það mál er að vísu fyrir Ed., að Eskifjörður er þannig staðsettur, að hann hefur sýslumann búsettan þar, þannig að þar þarf engu að breyta né heldur að auka kostnað í neinu falli.

Ég endurtek það, að því fer fjarri, að ég hafi neitt á móti því, að Seltjarnarnes verði gert að kaupstað. En ég veit, að þetta er mjög vandasamt mál í heild tekið, og ég verð að segja, að ég er ofurlítið undrandi yfir því, að þetta skuli skyndilega vera slitið úr því samhengi, sem það hlýtur að vera í við þau önnur sveitarfélög, sem um þetta sækja. Ég fæ ekki séð, að Seltjarnarnes hafi neina brýnni nauðsyn fyrir þessi réttindi heldur en þau önnur byggðarlög, sem um það hafa sótt. Fyrir því er það, að ég er ekki reiðubúinn til þess að ljá þessu máli fylgi mitt.

Ég þóttist heyra það í fyrri umr., að þetta mál ætti að skoða í heild, og ég vænti þess, að fundin verði niðurstaða, áður en slík fyrirmynd verður gerð eins og lagt er til með þessum hætti. Og ég vil nú spyrja hv. frsm., hv. 11. landsk.: Voru ekki fleiri mál fyrir Nd. um kaupstaðarréttindi, og hvað er í fréttum af þeim? Hvað á að þýða að taka allt í einu þetta mál sérstaklega út úr, þar sem þetta er stórvandamál, sem við þurfum að rannsaka í heild? Er þetta að skáskjóta máli í gegn?