15.03.1974
Efri deild: 80. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2896 í B-deild Alþingistíðinda. (2583)

259. mál, skattkerfisbreyting

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér hafa farið fram allmiklar umr. nú þegar um frv. það, sem hér liggur fyrir, og ég ætla, að það sé nokkuð almennur áhugi á því, að þessum umr. ljúki sem fyrst. Með tilliti til þess og svo með sérstöku tilliti til hinnar yfirgripsmiklu ræðu frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn., hv. þm. Halldórs Blöndals, mun ég aðeins víkja hér að vissum atriðum þessa máls, sem mér þykir ástæða til. Það væri að vísu freistandi að fara nokkrum orðum um ræðu hv. frsm. meiri hl. fjh: og viðskn., hv. þm. Ragnars Arnalds, sem hann flutti hér í dag, en ég ætla ekki að gera það. Ég kýs frekar að halda mér að aðalforsvarsmanni ríkisstj. í þessu máli, hæstv. fjmrh.

Hæstv. fjmrh. flutti hér ræðu í gær fyrir frv. þessu. Það kom þar fram, að ráðh. var að afsaka ríkisstj. eða bera af henni sakir fyrir að hafa samið um skattlagabreyt. í frv. því, sem hér liggur fyrir, í sambandi við lausn kaupgjaldsdeilu. Hann sagði, að þessari ríkisstj, væri ekki vandara um en öðrum ríkisstj. Það er rétt hjá hæstv. fjmrh., ekki verða gerðar meiri kröfur til núv. ríkisstj. en annarra ríkisstj. Sú hugsun hlýtur að vera svo fjarri, að engum kemur slíkt til hugar. Hæstv. ráðh. minnti á í þessu sambandi, að Atvinnuleysistryggingasjóði hefði verið komið á fót árið 1955 í sambandi við lausn kaupgjaldsdeilu. Þáv. ríkisstj. hefði heitið því við gerð kaupgjaldssamninga þá, að sett skyldi löggjöf um atvinnuleysistryggingar. Hæstv. ráðh. nefndi líka framkvæmdir ríkisins vegna íbúðabygginga í Breiðholtinu. Hann minnti á, að þáv. ríkisstj. hefði skuldbundið sig til þess að stofna til þessara framkvæmda til lausnar kaupgjaldsdeilu 1985. Hæstv. ráðh. lét hins vegar undir höfuð leggjast að minna líka á það, að með júní-samkomulaginu 1964 lofaði þáv. ríkisstj. að gera ýmsar ráðstafanir til lausnar í húsnæðismálunum. Þetta gerði ríkisstj. þá til lausnar kaupgjaldsdeilu. Ég hygg, að það megi finna ýmis önnur dæmi þess, að ríkisstj. beiti sér fyrir lausn kjaradeilu og verkfalla með því að lofa tilteknum ráðstöfunum, sem atbeina Alþ. þarf til að koma í framkvæmd, þ.e.a.s. ráðstöfunum, sem eru löggjafaratriði. Mér er ekki kunnugt um, að þetta hafi í sjálfu sér verið nokkurt ádeiluefni. Þvert á móti hefur það verið fagnaðarefni deiluaðilum og raunar þjóðinni í heild, ef ríkisstj., hver sem hún hefur verið, hefur verið þess umkomin að stuðla að lausn kaupgjaldsdeilna og verkfalla og efla vinnufriðinn í landinu með þeim hætti.

Hvað er þá hæstv. fjmrh. að fara í þessu sambandi? Hann er að gera því skóna, að það sé ádeiluefni á núv. ríkisstj., að hún skuli nú hafa lofað tilteknum atriðum í skatta- og húsnæðismálum til lausnar kaupgjaldsdeilum. Hér er um herfilegan misskilning að ræða. Það er ekkert nema gott um það að segja, ef ríkisstj. getur sett niður alvarlegar deilur í þjóðfélaginu. Þetta á jafnt við, hvort sem um er að ræða hæstv. núv. ríkisstj. eða einhver,ja aðra ríkisstj. Það breytir engu. Við erum ekki að deila um þetta. Hvers vegna þá, hæstv. fjmrh., að vera að rugla málið með því að þusa um það, að hæstv. núv. ríkisstj. geri ekki annað en gert var 1955, 1964 eða 1965 af þáv. ríkisstj., þ.e.a.s. að leggja fyrir Alþ. ráðstafanir, sem hefur verið lofað til lausnar kaupgjaldsdeilum?

Það er ekki deilt á núv. hæstv. ríkisstj. fyrir það, að hún skuli hafa aðhafst í málinu, heldur hvernig hún hefur farið að í málinu. Það er það, sem við deilum um. Ég skal ekki fara að rekja hér söguna af afskiptum hæstv. ríkisstj, af síðustu kaupgjaldsdeilum. Undanslátturinn og úrræðaleysið þekkjum við. Tregðulögmálið, sem réð viðbrögðum hæstv. ríkisstj., verður hins vegar ekki skýrt, nema haft sé í huga, hvað hér er á ferðinni. Það voru skattamál og húsnæðismál, sem um var að tefla. Verkalýðurinn og aðrir launþegar í landinu gátu ekki lengur unað aðgerðum hæstv. ríkisstj. í skattamálunum og aðgerðarleysi hennar í húsnæðismálunum. En hvort tveggja var hæstv. ríkisstj. jafnkært, skattaáþjánin og úrræðaleysið í húsnæðismálunum.

Við verðum að hafa í huga, að eitt af skrautblómum hæstv. ríkisstj. hefur verið skattalagabreyt., sem komið var á árið 1972. Á máli ríkisstj. búum við nú við bestu skattalög, sem við þekkjum og höfum kynnst. Réttlætinu var fullnægt með því að ná til breiðu bakanna í skattheimtunni, erfiðisvinnufólks og aldraðra. Þetta er sá boðskapur, sem fólki hefur verið boðaður úr herbúðum stjórnarflokkanna á undanförnum misserum. Það kemur því eins og holskefla yfir ríkisstj., þegar fólkið rís áþreifanlega upp gegn skattaáþjáninni og öllum blekkingavef ríkisstj. í þessu efni. Þetta var það, sem gerðist s.l. sumar, þegar verkalýðssamtökin settu það efst á blað í væntanlegum kjarasamningum, að leiðréttingar yrði að gera í skattamálunum. Það var mat verkalýðshreyfingarinnar, að ekki stoðaði að gera kröfur um almennar kauphækkanir né semja um þær, nema til kæmu breyt. á skattalöggjöfinni. Þessi löggjöf, sem var yndi og eftirlæti hæstv. ríkisstj., var að dómi verkalýðsins og raunar alls almennings í landinu þröskuldur í vegi kjarabóta og bættra lífskjara í landinu. Aldrei fyrr hefur það skeð, að verkalýðssamtökin hafi sett fram slíka afdráttarlausa kröfu í kjaradeilu um breyt. á skattalögum. Og hafa ber í huga, að þessar kröfur verkalýðssamtakanna gengu þvert á stefnu stjórnarinnar í skattamálunum. Verkalýðssamtökin voru ekki að taka undir dýrðaróð ríkisstj. um skattalagabreyt. frá 1972. Verkalýðssamtökin heimtuðu fráhvarf frá ríkjandi skattamálastefnu. Þau gerðu kröfur, sem fóru saman við stefnu Sjálfstfl. í skattamálum og raunar allrar stjórnarandstöðunnar, eins og síðar hefur komið í ljós. Verkalýðssamtökin heimtuðu lækkun skatta og breytingu frá beinum sköttum til óbeinna skatta. Halda nú menn, að ríkisstj. hafi fagnað þessari afstöðu verkalýðshreyfingarinnar til skattamálanna? Hverjum kemur slíkt í hug? Það var ekkert fagnaðarefni fyrir hæstv. ríkisstj. að þurfa að kyngja öllu skrumi og glamri um skattalagabreyt. frá árinu 1972. En ríkisstj. treysti sér ekki til að gera það, sem huga hennar stóð næst, að snúast gegn skattalagabreyt. þeim, sem krafist var. Raunar átti hún ekki annars úrkosta en láta undan kröfum verkalýðshreyfingarinnar og þrýstingi almenningsálitsins. En þegar hugur fylgir ekki máli, er ekki við góðu að búast. í því ljósi verður skiljanleg sú ólund og óhöndugleiki, sem ríkisstj. hefur sýnt af sér í þessu máli. Seinlæti og aðgerðaleysi ríkisstj. olli töfum og erfiðleikum í samningagerðum verkalýðssamtakanna og vinnuveitenda með þeim afleiðingum, að til allsherjarverkfalls kom að óþörfu, áður en samningar komust á. Loforðið, sem hæstv. ríkisstj. gaf eftir dúk og disk um skattalagabreytingu er þess eðlis, að nú stöndum við hér á hv. Alþ. í þeim vanda, sem raun ber vitni um.

Ég skal þá víkja að hinum þætti ríkisstj. í þessu máli, húsnæðismálunum. Um þann þátt málanna er ekki síður um lærdómsríka sögu að ræða. En ég ætla í þetta skipti að neita mér um að fara ítarlega út í þá sálma.

Verkalýðssamtökin settu fram kröfur til ríkisstj. um raunhæfar aðgerðir í húsnæðismálunum. Það var ekki að ófyrirsynju. Frá því að núv. hæstv. ríkisstj. kom til valda, hefur ferill hennar í húsnæðismálunum verið ömurlegur og hraksmánarlegur. Það hefur ekki skort á fögur loforð og fyrirheit. Það hefur verið lofað heildarendurskoðun á húsnæðislöggjöfinni. Það hefur verið lofað eflingu veðlánakerfisins. Það hefur verið lofað nýjum tekjustofnum til fjármögnunar í íbúðarhúsabyggingum í landinu. Það hefur verið lofað aukinni opinberri aðstoð til húsbygginga. En hvað hefur skeð? Það litla, sem hefur verið gert, hefur að miklu leyti verið skrum. Það stóra, sem lofað var, hefur verið látið ógert. Afleiðingin hefur verið afturför í þessum málum í fyrsta sinn í tæpa tvo áratugi eða síðan lög um húsnæðismálastjórn voru sett árið 1955. Frá þeim tíma vorum við að sækja fram í þessum efnum. Við vorum að hækka íbúðalánin. Við vorum að bæta lánskjörin. Við vorum að lengja lánstímann. Við vorum að verja meira fjármagni til íbúðarhúsabygginga. Við vorum að verja meira af þjóðartekjunum til þessara þarfa. Með tilkomu núv. hæstv. ríkisstj. var bundinn endi á þessa þróun. Hatrömmust er sú staðreynd í dag, að hin almennu lán Byggingarsjóðs ríkisins eru nú ekki nema brot af notagildi því, sem þau höfðu í tíð fyrrv. ríkisstj. Lánin eru langtum minni hluti af byggingarkostnaði en áður var. Við erum ekki einungis stöðvaðir á framfaraveginum, okkur miðar nú aftur á bak.

Það er kannske einkennandi fyrir stjórnarfarið, sem við búum við, að því hefur verið haldið fram, af hæstv. ríkisstj., að aldrei hafi verið betra ástand í búsnæðismálunum en einmitt nú, aldrei hafi verið gert meira í þessum efnum en á síðustu árum. Og auðvitað hefur það verið hlutskipti þess, sem höfuðábyrgðina ber á ófremdinni, að lofsyngja dýrðina. Það hefur verið hlutverk hæstv. fyrrv. félmrh., Hannibals Valdimarssonar.

En það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Ríkisstj. hefur þrátt fyrir allt ekki verið alls varnað í húsnæðismálunum. Hinir greindari og gætnari menn sáu auðvitað, að þetta gat ekki gengið lengur. Hannibal var látinn fara. Það var það besta, sem hæstv. ríkisstj. hefur fram til þessa gert í húsnæðismálunum. Það hefur hvílt nokkur leynd yfir ástæðum þess, að ráðherradómur Hannibals leið undir lok. En hinn óttalegi leyndardómur blasir við öllum þeim, sem sjá vilja.

En verkalýðssamtökunum var ekki nægilegt, að nýr ráðh. tæki við húsnæðismálunum. Aðalatriðið var að stemma stigu við hinni óheillavænlegu þróun, sækja fram á nýjan leik, gera raunhæfari ráðstafanir í því skyni. Það var þetta, sem verkalýðssamtökin kröfðust. Á s.l. sumri töldu verkalýðssamtökin ástand húsnæðismálanna svo óþolandi, að þau kröfðust úrlausnar í sambandi við væntanlega kjarasamninga. Árangurinn af þessu er að finna í yfirlýsingu ríkisstj. um húsnæðismál. sem fylgir í grg. þessa frv., sem hér er til umr. Ég ætla ekki að ræða hér einstaka liði þessarar yfirlýsingar um húsnæðismálin eða yfirlýsinguna í heild. Undirstaða þess, að eitthvað raunhæft sé gert í þessum málum, er aukið fjármagn til þessara þarfa.

Í yfirlýsingunni segir, að 1% aukning launaskatts, sem frv. gerir ráð fyrir í Byggingarsjóð ríkisins, gefi um 600 millj. kr. á ársgrundvelli, en að líkindum mundi þetta auka ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs á þessu ári um 300 millj. kr. Þetta er góðra gjalda vert, en segir lítið til lausnar þeim mikla vanda, sem nú er við að glíma. Mikið atriði er því, hvað fleira kemur til greina til lausnar þessum vanda. Segir í yfirlýsingu þessari um húsnæðismálin, með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirlýsing þessi er gefin í trausti þess, að þátttaka lífeyrissjóða stéttarfélaga í fjármögnun þessara félagslegu bygginga verði 20% af árlegu ráðstöfunarfé þeirra frá og með þessu ári. Þátttaka lífeyrissjóða í fjármögnun Húsnæðismálastofnunar ríkisins er miðuð við kaupverðtryggðra skuldabréfa með ríkisábyrgð, og skulu verðtrygging og vextir jafngilda hagstæðustu ávöxtunarkjörum, sem í gildi verða á hverjum tíma á veðskuldabréfum, sem út eru gefin á vegum ríkisins.“

Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh., eða e.t.v. ætti ég að spyrja hæstv. félmrh. um nánari skýringar á þessari yfirlýsingu. Ég spyr um, hvort það hafi verið gerðir samningar við lífeyrissjóði stéttarfélaga, sem tryggi efndir þessarar yfirlýsingar. Ég vænti þess að fá skýr og ákveðin svör við þessari sjálfsögðu spurningu.

Ég sagði áðan, að ekkert væri í sjálfu sér athugavert við það, að hæstv. ríkisstj. hefði lagt fyrir Alþ. ráðstafanir, sem hún hefði lofað til lausnar kaupgjaldsdeilu. Hins vegar er athugavert og raunar ámælisvert, hvernig ríkisstj. hefur farið að í þessu efni. Það verður ekki að ríkisstj. fundið, að hún hafi verið spör á loforðin. Hún hefur vissulega gefið loforðin af örlæti og raunar léttúð. Hún hefur komist upp á það lagið gagnvart hinum almenna kjósanda í landinu að efna ekki loforð sín. Þetta er alvarlegt almennt séð, en sérstaklega er þetta varhugavert í því tilviki, sem við hér ræðum um. Það er fullkomið ábyrgðarleysi að gefa loforð um tilteknar ráðstafanir til lausnar kaupgjaldsdeilu án þess að hafa tryggt, að við loforð þessi yrði staðið. Hæstv. ríkisstj. er staðin að þessu framferði, og þess vegna er hún sjálf völd að þeim vanda, sem hún stendur frammi fyrir í dag. Þessu framferði ríkisstj. má jafna við það, þegar maður gefur út ávísun á innistæðu, sem ekki er fyrir hendi. Allir vita, hvernig fer fyrir þeim manni, sem gerir sig sekan um slíkt athæfi. Hann gerist brotlegur við lög og á þá á hættu að verða sviptur réttinum til að gefa út ávísanir. Hæstv. ríkisstj. ætti að taka afleiðingum gerða sinna. En ríkisstj. er ekki á þeim buxunum að segja af sér, ef hún kemur ekki fram hér á Alþ. því, sem hún telur efndir á loforðum sínum gagnvart verkalýðnum í landinu. Það verður því að svipta ríkisstj. aðstöðunni til að gefa út falskar ávísanir. Og það munu kjósendur gera í næstu kosningum, ef Alþ. verður ekki búið að vinna það þarfa verk, áður en til kosninga kemur.

Hvað má nú verða ríkisstj. til halds í þessum hrellingum hennar? Hæstv. ríkisstj. biðlar nú til stjórnarandstöðunnar, biður stjórnarandstöðuna um að bjarga sér út úr vandanum, bjarga lífi sínu. Það er ekki farið fram á lítið í þessu efni. Og hvernig á stjórnarandstaðan að fara að í þessu efni? Sjálfstfl. getur ekki greitt atkv. með frv. því, sem hér liggur fyrir, eins og ríkisstj. lagði það fram. Það gengi í berhögg við þá stefnu flokksins, að létta beri skattbyrðina, en ekki auka.

Það hlýtur að vakna sú spurning við meðferð þessa máls, hvað hæstv. ríkisstj. sé mikil,alvara að koma í gegn skattalagabreyt. til efnda á loforðum sínum gagnvart verkalýðshreyfingunni. Í fyrsta lagi sýnir það lítinn áhuga á framgangi málsins, að ríkisstj. skyldi fyrir fram ekkert samráð hafa við stjórnarandstöðuna til að tryggja framgang málsins á Alþ. Ríkisstj. lætur undir höfuð leggjast að tryggja sér meiri hl. á Alþ. fyrir máli þessu, svo að hún geti staðið við gefin loforð. Í öðru lagi hefur það ekki farið fram hjá mönnum, hve léttilega hæstv. ríkisstj. virðist taka því, þó að skattalagafrv. hennar nái ekki fram að ganga. Hæstv. fjmrh. talar um það eins og ekki sé mikill skaði skeður. Ef þetta frv. fellur, standa gildandi lög, segir hann, bestu skattalögin, sem við höfum kynnst, eins og ríkisstj. metur skattalagabreyt. sína frá 1972.

Það er þessi málsmeðferð og afstaða hæstv. ríkisstj., sem vekur spurninguna um það, hvað ríkisstj. sé mikil alvara með frv. sínu. Þeim mun frekar verður þessi spurning þrálát, þegar það er haft í huga, að afstöðu sína um að vera ekki til viðtals við stjórnarandstöðuna um neinar leiðréttingar, hyggir ríkisstj. eingöngu á útreikningum um tekjutap ríkissjóðs af lækkun tekjuskatts og tekjuaukningu af hækkun söluskatts.

Stjórnarandstaðan viðurkennir ekki, að þessir útreikningar ríkisstj. séu réttir. Stjórnarandstaðan telur till. ríkisstj. fela í sér mikla aukningu skattbyrðarinnar á almenning í landinu. Ríkisstj. segir, að skattbyrðin sé ekki aukin eða jafnvel minnki, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds sagði hér í ræðu sinni í dag. Nú leyfi ég mér að spyrja hæstv. fjmrh.: Ef hann er jafnsannfærður um sína útreikninga og hann lætur, telur hann ekki rétt að láta kanna, hvort stjórn og stjórnarandstaða geti komið sér saman um að sannprófa í sameiningu, hvort ekki sé hægt að reikna dæmið rétt? Er nú svo komið fyrir okkur hér á hv. Alþ., að við getum ekki komið okkur saman um, hver er rétt reikningsleg niðurstaða af tölulegu dæmi? Hefur hæstv. fjmrh, ekki komið til hugar, að í þessu efni gæti verið rétta leiðin að hlíta mati hlutlausra manna, sem stjórn og stjórnarandstaða kæmi sér saman um? — Ég spyr því hæstv. fjmrh., hvort hann geti ekki hugsað sér þessa leið út úr ágreiningi þeim, sem risinn er um þýðingu till. ríkisstj. fyrir hag ríkissjóðs? Ef hæstv. fjmrh. vill ekki hlíta slíku mati, sýnist mér augljóst, að ráðh. hafi ekki sjálfur trú á þeim útreikningum, sem hann byggir á í málflutningi sínum hér á Alþ.