25.03.1974
Efri deild: 88. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3071 í B-deild Alþingistíðinda. (2736)

85. mál, vísindaleg verndun fiskimiða landgrunnsins

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Snemma á þessu þingi fluttum við þm. Sjálfstfl. till, til þál. í Sþ. um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur og var í þeirri till. gert ráð fyrir því, að ríkisstj. yrði falið að undirbúa breyt. á lögum, sem nauðsynleg þætti í þeim tilgangi. Ríkisstj. flutti nokkru síðar frv. til l., sem nú er hér til 1. umr. í Ed., og vil ég lýsa því yfir, að við sjálfstæðismenn munum auðvitað fylgja því.

Í utanrmn., sem hefur til meðferðar till. okkar sjálfstæðismanna um útfærslu í 200 sjómílur fyrir árslok 1974, hefur þetta frv. verið rætt og nokkurt samráð verið haft við sjútvn. Nd. þar að lútandi.

Í þeim umr. hefur komið til orða, hvort rétt væri að sameina landgrunnslögin frá 1948 og hafsbotnslögin frá 1969. Að athuguðu máli þótti það ekki rétt. Hefur verið á það bent, að landgrunnslögin eru einmitt sterk fyrir okkar málstað, af því að þau eru sett þegar á árinu 1948, þannig að við getum bent á það í baráttu okkar fyrir víðáttumeiri auðlindalögsögu eða fiskveiðilögsögu, að við höfum þegar stigið þetta skref á árinu 1948.

Þá hefur það og komið til orða, hvort rétt væri að setja ákveðna sjómílnatölu í hafsbotnslögin, en sömuleiðis að athuguðu máli þótti það ekki rétt á þessu stigi málsins. Í hafsbotnslögunum er miðað við hagnýtingarmörk sem í ákveðnum tilfellum geta náð lengra út en 200 sjómílur, og þótti ástæðulaust á þessu stigi málsins að draga nokkuð í land í þeim efnum. En að svo miklu leyti sem um var að ræða auðlindir á hafsbotni innan við 200 sjómílur, en utan núverandi hagnýtingarmarka, þótti slík breyting ekki hafa þýðingu á þessu stigi, þar sem við gætum hvort eð er ekki hagnýtt þær auðlindir.

Ég vildi láta þessi atriði koma fram, auk þess sem ég legg áherslu á, að nú, þegar þetta frv. er komið til meðferðar í seinni deild, skili utanrmn. áliti um þáltill, okkar sjálfstæðismanna og hún hljóti jákvæða afgreiðslu hér á hv. Alþ.