25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3074 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

Varamaður tekur þingsæti

Forseti (Gils Guðmundsson):

Mér hefur borist svohljóðandi bréf:

„Reykjavík, 22. mars 1974.

Samkv. beiðni Lárusar Jónssonar, 5. þm. Norðurl. e., sem nú er á förum til útlanda, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis að óska þess, að 2. varamaður hans, Jón G. Sólnes bankastjóri, taki á meðan sæti hans á Alþingi.

Virðingarfyllst,

Þorv. Garðar Kristjánsson.

Til forseta Nd. Alþingis.“

Jón G. Sólnes hefur áður tekið sæti á þingi á þessu kjörtímabili, og býð ég hann nú velkominn til starfa.

Áður en gengið er til dagskrár, vil ég taka eftirfarandi fram: Hv. þdm. mega gera ráð fyrir því, að tvo næstu föstudaga verði fundarhöld hér á þingi og sömuleiðis tvo næstu laugardaga, ef þurfa þykir. Sömuleiðis er ekki ólíklegt, að komi til kvöldfunda einhvern daginn eða einhverja daga í vikunni. Æskilegt væri, að hv. þdm. sæju sér fært að haga sínum fyrirætlunum í samræmi við þetta.

Í öðru lagi vil ég taka það fram, áður en gengið er til dagskrár, að þrír hv. þdm. hafa óskað þess að taka hér til máls utan dagskrár, og verður að sjálfsögðu orðið við þeim tilmælum. En með hliðsjón af því, að við höfum hér fyrir okkur dagskrá með 14 málum, þar sem mér sýnist, að um það bil helmingurinn séu mál af því tagi, að ekki taki langan tíma að afgreiða þau og ekki kosti mjög miklar umr., þá mun ég nú freista þess að þoka þeim málum áfram, en mun hins vegar nokkru síðar á þessum fundi gefa þeim hv. þm. kost á að taka til máls utan dagskrár, sem fram á það hafa farið, og vænti ég, að þeir sætti sig við það fyrirkomulag, sem ég hygg, að sé til bóta fyrir störf hv. þd., þar sem allir eru á einu máli um ýmis af þeim málum, sem nú eru á dagskrá.