26.03.1974
Sameinað þing: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3129 í B-deild Alþingistíðinda. (2792)

258. mál, búseta á Hólsfjöllum og á Efra-Fjalli

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins um einn ákveðinn þátt þessa máls, sem ég ætla að segja nokkur orð, og tek það fram, að það er ekki vegna þess, að þessu hafi ekki verið gerð full og góð skil í framsöguræðu þeirri, sem hér hefur verið flutt, heldur vildi ég aðeins til skýringar ræða þennan eina þátt málsins.

Ég vil þá greina frá því í upphafi, að svo hagar til nú á Hólsfjöllum, að tveir ungir menn, sem þar eru uppaldir, hafa hug á því að setjast þar að, stofna heimili og byggja sér íbúðarhús og reisa þar bú. Þessir menn eiga báðir jarðir, sem nú eru í eyði. Þeir eru uppaldir á Hólsfjöllum og þekkja þar lífið, eru heimilisfastir á Grímsstöðum, en eiga jarðirnar Grundarhóla og Víðihól. Þeir hyggjast byggja íbúðarhús sin í landi Grímsstaða sem næst Grímsstaðabæjunum af ástæðum, sem eru mjög auðsæjar, því að þannig yrði byggðin miklu sterkari og auðveldara að veita henni þjónustu. Þessir ungu menn hafa haft samband við þm. kjördæmisins og lagt fram þessar spurningar: Við hvaða skilyrði getum við vænst að búa þarna, ef við reisum okkar íbúðarhús og reisum okkar bú þarna á Grímsstöðum? Það, sem þeir nefna kannske fyrst og fremst, er, hvaða möguleika þeir hafi til þess að fá rafmagn jafngilt og aðrir landsmenn og á svipuðum kjörum, í öðru lagi, hvaða möguleika börn þeirra gætu haft til skólagöngu, og í þriðja lagi kannske, hvaða samgöngumöguleika þeir hefðu í framtíðinni.

Í sambandi við það fyrsta af þessum málum, þ.e.a.s. rafmagnið, skrifaði ég orkustofnun um þetta mál, eins og reyndar kemur fram í fskj. með þáltill. Ég fékk svar frá Orkustofnun, en ekki nema við hluta af því erindi, sem farið var fram á. Svarið var einfaldlega það, að Orkustofnun mundi veita sömu fyrirgreiðslu og öðrum aðilum, sem kæmu upp einkarafstöðvum. Lengra náði það ekki. En út af fyrir sig má segja, að málinu hafi verið sæmilega eða vel tekið.

Í öðru lagi skrifaði ég samgrn. um þetta sama mál og sendi því afrit af bréfi Orkustofnunar. En frá því hefur ekki heyrst neitt, og má þó telja, að þetta sé mál, sem er mjög snertandi samgrn., því að eins og bent hefur verið á, er hvergi um lengri fjallveg á þjóðvegum Íslands að ræða en þarna, og er geysilegt öryggisatriði að halda við byggðinni.

Í þriðja lagi var fjvn, skrifað um málið, en það bar ekki sýnilegan árangur.

Í fjórða lagi hef ég skrifað Rafmagnsveitum ríkisins um þetta og beðið þær að gera um það áætlun, enda sama erindi og farið var fram á við Orkustofnunina, þ.e. það mun vera í athugun það mál.

Þessi þáltill. er svo hér fram komin til að undirstrika þá þörf, sem er á því að viðhalda þarna byggð og gera eitthvað í þessu máli nú sem allra fyrst. Það má ekki bíða eftir því, að það sé hægt að leysa þetta eftir þeim venjulegu leiðum, t.d. rafmagnsmálin eftir venjulegum leiðum, sem það mundi geta farið. Þarna verður að taka á málinu með sérstökum hætti, það er alveg ljóst. Og það, sem verður að stefna að, er, að þeir, sem þarna búa og vilja búa geti fengið fullgilt rafmagn og með svipuðustum kjörum og aðrir landsmenn. Þetta mætti leysa á mismunandi máta, t.d. með því að veita þeim ríflegan styrk til rekstrar á sameiginlegum dísilstöðvum, sennilega tveimur stöðvum, annarri stærri og hinni minni, og ætti það ekki að vera ofverk þjóðfélagsins að gera þetta.

Ég vil aðeins að lokum segja það, að það er svo einstætt, að þessi byggð skuli vera þarna enn þá. Þarna eru 5 bæir sem afmörkuð byggð, þar sem hvergi er skemmra til annarra byggða en 40–50 km. Þó er þessi byggð í sjálfu sér blómleg. Þarna er ungt fólk, eins og kemur fram. Það vill setjast þarna að, en það spyr eðlilega, og þeir segja ungu mennirnir: Við teljum ekki rétt af okkur, þó að við vildum það, að byggja þarna ný hús og stofna heimili, nema það sé tryggt, að við getum notið þessarar ákveðnu þjónustu, sem er rafmagn og skólaganga og annað því um líkt.

Það er alveg ljóst, að lykilorðið að þessu er það, að þessum bæjum verði gert kleift að fá fullgilt rafmagn, og það ríður á, að þetta verði afgreitt svo skjótt, að þessir ungu menn, sem hyggjast byggja sín nýju íbúðarhús þegar á næsta sumri, geti gert ráðstafanir í samræmi við það. Það væri ævarandi hneisa, ef þessi byggð, þessi útvörður byggða þyrfti að leggjast í eyði vegna þess, að skrifstofukerfi er seinvirkt og það eru ekki fyrir hendi þær reglur, sem heimila að gera þetta sérstaka átak, sem þarna þarf að gera. En það leysist vonandi með samþykkt þessarar þáltill.