28.03.1974
Efri deild: 90. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3183 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

275. mál, dómari í ávana- og fíkniefnamálum

Forsrh. (Ólafar Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. um breyt. á l. nr. 42 frá 13. apríl 1973, um sérstakan dómara við rannsóknadeild í ávana- og fíkniefnamálum, sem hér er lagt fyrir hv. Ed. á þskj. 554, er annað tveggja frv., sem flutt eru í tengslum við frv. til l. um ávana- og fíkniefni, sem hér kemur til umr. á eftir.

Ég hef þegar gert grein fyrir frv. um breyt. á almennum hegningarl., en þetta frv. er fyrst og fremst flutt í því skyni að taka af tvímæli um, að brot gegn þeirri hegningarlagagrein, sem fyrrgreint frv. um breyt. á almennum hegningarl. fjallar um svo og brot á ákvæðum frv. um ávana- og fíkniefni falli undir verksvið dómarans og rannsóknadeildarinnar í ávana- og fíkniefnamálum. Frv. þetta er því án sjálfstæðra efnisatriða að öðru leyti en því, að í 2. gr. þess er lagt til, að tekið verði upp heitið sakadómur í stað dómur í heiti dóms þess, sem lög nr. 52 1973 fjalla um. Frv. þetta er því algerlega háð framangreindum frv. um breyt. á almennum hegningarl. og frv. um ávana- og fíkniefni, sem segja má, eins og ég þegar hef sagt, að sé grundvöllurinn undir þessum frv. tveimur, sem ég hér hef mælt fyrir.

Ég óska þess svo, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.