03.04.1974
Efri deild: 97. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3428 í B-deild Alþingistíðinda. (3076)

294. mál, skemmtanaskattur

(Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Þetta litla og stuttaralega frv. til l. um breyt. á l. um skemmtanaskatt skýrist raunar að fullu í grg., en þó skal að hvoru tveggja víkja að nokkru, ákvæðinu beint einnig að ýmsu, er hér kemur inn í heildarmynd þessara mála. Auðvitað er það meginhlutverkið með skemmtanaskattinum að styrkja Félagsheimilasjóð, og því þykir ef til vill mörgum, að aftan að hlutunum sé farið að leggja til, að í einhverju verði skertar tekjur sjóðsins og það einmitt í þágu félagsheimilanna, svo að vitnað sé til grg. Vissulega má segja, að hér sé misræmi á, sem full þörf er á að skýra.

Í fyrsta lagi skal á það bent, að ef til vill væri næst að breyta lögunum um skemmtanaskatt á þann veg, að aðrar reglur giltu um samkomuhús, sem beinlínis eru rekin í ábataskyni, hús í eigu einstaklinga eða hlutafélaga eingöngu ætluð til skemmtirekstrar, en um félagsheimili gildi sérstakar reglur, þar sem þau eru rekin á mjög öðrum grundvelli og þurfa að sinna margháttuðum verkefnum, sem almenn samkomuhús sinna ekki. Það er að vísu rétt, að af þeim verkefnum er ekki innheimtur skemmtanaskattur, en þessi verkefni, sem ég á hér við, eru þó kostnaðarsöm oft og tíðum, en gefa lítið eða ekkert í aðra hönd. Hins vegar fann ég ekki beinan flöt á þessari skilgreiningu með lagabreytingu, en í þáltill., sem ég flutti fyrir tveimur árum, var m.a. á þetta bent. Þessari till. var vísað til ríkisstj. með jákvæðum meðmælum um, að eitthvað yrði gert, en á því hefur ekki bólað. Þar var reyndar einnig vikið að öðrum þungbærum skatti, söluskattinum, sem ég er á, að félagsheimilin eigi yfirleitt ekki að greiða, en það er önnur saga og um margt óskyld.

Í öðru lagi segir íbúatala staðar ekki alla söguna um réttmæti á innheimtu skemmtanaskatts, svo gífurlega misjafnlega eru félagsheimilin í sveit sett hvað snertir möguleika til tekjuöflunar. Nægir að benda á tvö dæmi því til sönnunar, — eða hver halda menn, að sé munur á aðstöðu Hlégarðs í Mosfellssveit eða Egilsbúðar í Neskaupsstað hvað fjáröflunarmöguleika snertir, svo að tvö dæmi séu tekin. Hingað til hefur ekki verið innheimtur skemmtanaskattur lögum samkv. í Mosfellssveit, en hins vegar í Neskaupsstað.

Í þriðja lagi getur það alls ekki talist eðlilegt, að einstök félagsheimili séu að kikna undan innheimtu þessa skatts, þó að hann renni til félagsheimilasjóðs, en sú er raunin um sum félagsheimili á hinum smærri stöðum, sem lögin ná til. Sú hefur aldrei verið ætlunin með álagningu og innheimtu þessa annars ágæta gjalds, og því hlýtur að teljast réttmætt að endurskoða íbúafjöldamörkin, og er ég þá alls ekki að segja, að talan 2500 sé nein heilög tala í þeim efnum.

Mín aðalmeining með þessu frv. er sú að reyna að finna leið til þess að létta þessu gjaldi af félagsheimilum þeirra staða, sem eiga í sannarlegum örðugleikum með rekstur sinn einmitt vegna þess, að fjáröflunarmöguleikar eru ekki í samræmi við einhverja ákveðna íbúatölu. Ég hef alveg sérstaklega í huga Egilsbúð í Neskaupsstað, af því að þar er ég kunnugastur, og allir vita um einangrun þess staðar og litla möguleika á að njóta tekna annars staðar frá en frá staðarfólki meginhluta ársins. En fleiri munu hér á sama báti, að því mér er tjáð. Íbúatalan á ekki að vera svo gildandi sem hún er, en fyrst hún er aðalviðmiðun l., þótti mér einfaldast að færa þessi mörk ofar og miða við bærri íbúatölu.

Ef rætt er um tekjutap Félagsheimilasjóðs af þessari breyt. eða einhverri annarri, sem mönnum þætti sanngjarnari eða eðlilegri, þá skal ég ekki segja upphæð þess tekjutaps, en ekki yrði hún neitt afgerandi fyrir afkomu sjóðsins. Hér mun um að ræða, að ég held, þrjá eða fjóra kaupstaði og tvö kauptún, sem þarna mundu falla út. Ég vildi þá í allri vinsemd benda t.d. á það, að það mætti að mínu viti fella niður þau 10% til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem um getur í 7. gr. núgildandi laga, þar sem framlög ríkissjóðs til hennar eru á þessu ári 25 millj. á móti 28 millj. til Félagsheimilasjóðs, og sjá held ég allir réttlæti þeirrar skiptingar, þar sem annað er í rauninni nær eingöngu reykvískt fyrirbæri og fyrir Reykvíkinga að mestu leyti, en hitt á að þjóna svo viða sem raun ber vitni. Ekki svo að skilja, að ég sé neitt að mæla gegn framlögum til þessarar göfugu hljómsveitar, en gjarnan hefði fyrr mátt huga að undirstöðunni í almennri tónlistarfræðslu en slíkum toppfyrirbærum, enda ætti hún, þ.e.a.s. sinfóníuhljómsveitin, að njóta fjár annars staðar frá frekar en úr þessum sjóði, sem fyrst og fremst er fyrir félagsheimilin.

Aðalatriði málsins er svo það, að þessi skattheimta gangi ekki út yfir það að stuðla að erfiðleikum einstakra félagsheimila, og við því verður að finna ráð. Til þess að vekja athygli á þessu og reyna að finna þar einhverja skynsamlega lausn, — og þarf hún alls ekki endilega að felast í þeirri breyt., sem hér er lögð til, — í þeim tilgangi er frv. flutt. Félagsheimilin þurfa sérstakrar athugunar og hreinlega virkrar og öflugrar aðstoðar við yfirleitt. Ef sú aðstoð kemur ekki frá ríkisvaldinu sjálfu, þá þarf að reyna að knýja þar rækilega á, og það mun verða reynt að gera.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa hér um fleiri orð, því að svo auðskilið er þetta mál, en ég vil, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr, og hv. menntmn.