05.04.1974
Neðri deild: 102. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3559 í B-deild Alþingistíðinda. (3171)

302. mál, félagsráðgjöf

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð til að leiðrétta misskilning. Ég gerði grein fyrir því í upphafi, að það er álitamál, eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir viðurkenndi, undir hvaða rn. málefni félagsráðgjafa, sem menntun hafa hlotið, eiga að heyra, og fer mjög fjarri því, að mér sé það eitthvert sérstakt kappsmál, að það heyri undir heilbrn. Þetta var kannað af þessum þremur rn. sameiginlega, sem ég ræddi um, og niðurstaðan var sú, að heilbr.- og trmrn. beitti sér fyrir þessu. (RH: Það er verkefni forsrh. að skera úr slíku máli.) Ég hef ekkert á móti, að hæstv. forsrh. geri það, og ég hef ekkert á móti því, að n., sem um þetta fjallar, taki þetta atriði til athugunar. Hér er einvörðungu um það að ræða að verða við beiðni Stéttarfélags ísl. félagsráðgjafa um ráðstafanir til að vernda starfsheiti þeirra og starfsréttindi.

Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. að blanda þessu saman við menntun þessara starfsstétta. Menntunin heyrir að sjálfsögðu undir menntmrn., og það er ekki orð í þessu frv. um menntun félagsráðgjafa. Hér er aðeins um að ræða starfsréttindi, og þau starfsréttindi verður eitthvert rn. að veita að sjálfsögðu. Menntun lækna heyrir t.d. undir menntmrn., hins vegar eru starfsréttindi lækna á vettvangi heilbrrn. Hér er einvörðungu um að ræða ráðstafanir til þess að vernda starfsheiti og starfsréttindi þessara stétta.