05.04.1974
Sameinað þing: 74. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3581 í B-deild Alþingistíðinda. (3190)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Hv. 8. landsk. þm., Benedikt Gröndal, sagði, að við værum með þessu að senda Kanadamönnum kveðjur okkar á dálítið sérstakan hátt og við værum að styggja Kanadamenn og aðra, sem hugsanlega vildu standa með okkur í landhelgismálinu. Allt er þetta auðvitað sagt út í bláinn, vegna þess að Kanadamenn hafa eins og nær allar aðrar þjóðir haft allt annan hátt á en við Íslendingar í sambandi við aðstöðu erlendra veiðiskipa. Flestar aðrar þjóðir t.d. Bandaríkjamenn, hafa beinlínis tekið við afla úr erlendum veiðiskipum, sem stundað hafa veiðar á þessum slóðum. Þau hafa landað þar gífurlega miklu magni, og við höfum fengið að kenna á því á mörkuðunum þar. Aldrei hefur komið til neins slíks hjá okkur, að við heimilum það. Skip, sem veiða á þessum slóðum, fá margvíslega fyrirgreiðslu þarna og miklu meiri en þau fá hér hjá okkur. Auk þess er svo það, að Kanadamenn hafa verið fremstir í flokki að ákveða þann kvóta, sem Austur-Þjóðverjum hefur verið ætlað í þessum efnum að veiða á þessum slóðum. Ég tel líka mjög líklegt, að ef Austur-Þjóðverjar hefðu leitað til Kanada eða einhverra annarra, þá hefðu þeir fengið leyfi af þessari tegund þar. Ég tel það mjög sennilegt. Það a.m.k. styngi mjög í stúf við annað, sem þessar þjóðir almennt gera ef þær hefðu neitað slíku. Ég hygg, að það hefði þá hlotið að vera af einhverjum pólitískum ástæðum.

Ég þurfti ekki að halda hér neina varnarræðu fyrir austur-þýska hagsmuni. Ég var hins vegar að sýna fram á, að það var rangt, sem hér var sagt, að við værum að breyta til um okkar almennu stefnu, sem við höfum haldið hér fram, að reyna, eftir því sem við getum, í okkar almennu viðskiptum við aðrar þjóðir að torvelda það, að þær fengju meiri eða betri aðstöðu en þörf er á til þess að stunda veiðar á okkar hagsmunasvæði. Þessi stefna er óbreytt. Við höfum ekki breytt henni með þessu.

Hv. 1. þm. Reykn. heldur, að það sé nauðsynlegt að fara til Austur-Þýskalands til þess að sjá austur-þýska togara. Ég held, að ef hann hefði a.m.k. komið oft að íslenskum höfnum, hefði hann getað séð þá nokkrum sinnum. M.a. hef ég nokkrum sinnum séð þá fara hér í slipp og meiri háttar viðgerðir, og það hefur komið fyrir, að þeir hafi legið hér vikum saman. Þeir hafa fengið þjónustu hér á undanförnum árum, ekki aðeins í tíð þessarar stjórnar, þeir voru hér áður. Hitt er svo vitað, að þeir hafa stundað veiðar hér við land í mörg ár, en sá er munurinn á þeim og ýmsum öðrum, að þeir hafa viðurkennt í framkvæmd okkar 50 mílna fiskveiðilandhelgi. Þeir hafa virt hana, og þeir hafa horfið af Íslandsmiðum fullkomlega nú. Við ættum miklu frekar að sýna þeim vissa viðurkenningu í sambandi við þetta, að þeir skuli hafa viðurkennt á þennan hátt okkar 50 mílna landhelgi, heldur en hrópa þá út á þann hátt, sem hér hefur verið gert.

Það var leitað til sjútvrn., eins og ég greindi frá, og það var spurt um það, hvort það hefði aths. við það að gera, að veitt yrði það leyfi, sem hér var um að ræða. Eftir að við höfðum kynnt okkur málið, töldum við ekkert til fyrirstöðu að veita leyfi í þetta skipti, en við tókum skýrt fram, að það yrði aðeins í þetta skipti. Við vildum hafa það algerlega opið, að hægt væri að neita um leyfisbeiðnir af þessu tagi, ef það kæmi í ljós á nokkurn hátt, það gæti verið til þess að styrkja okkar stöðu, svo að hér er ekki um það að ræða, að það sé búið að taka upp neina slíka stefnu, að við heimilum hverjum sem er eða þessum aðilum áfram að skipta hér um áhafnir á þennan hátt. En ég get ekki séð, að í þessum tilfellum, þar sem var um að ræða veiðar upp í tiltekinn kvóta, geti það haft nokkur minnstu áhrif.

Það hefur ekki mikil áhrif á mig, þó að hv. 8. landsk. þm., — hann hefur gert það nokkrum sinnum hér áður, — blási svolítið í sambandi við landhelgismál. En hann hefur ekki staðið sig þannig í einu eða neinu, að ég telji a.m.k. ástæðu til fyrir mig að hrökkva við út af því, þó að hann þykist vera mikill í þeim efnum. Það hefur því engin áhrif á mig, þó að hann sé nú að gera kröfur um, að ég fari nú loksins að standa mig í landhelgismálum. Ég óttast það ekki, þó að upp verði kveðinn dómur um okkur tvo í þeim efnum og það komi þá í ljós, hver eru hans afrek á því sviði. Hitt er auðvitað augljóslega skýringin á þeim mikla vindgangi, sem hér hefur komið fram, það sem kom greinilega fram hjá formanni Sjálfstfl., að menn eru sérstaklega á móti því, að heimilaðar skyldu lendingar á Keflavíkurflugvelli. Það hefur sennilega komið upp einhver ótti hjá einhverjum ágætum mönnum þar út af því, að leyfisveitingarnar skyldu vera bundnar við Keflavík. Allur gangurinn í þessu stafar af þessu, en ekki af neinni sérstakri fiskveiðipólitík, því að það fær vitanlega ekki staðist á nokkurn hátt.