05.04.1974
Sameinað þing: 74. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3582 í B-deild Alþingistíðinda. (3191)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég hef aldrei gert tilkall til neinnar viðurkenningar í sambandi við landhelgismálin. En hæstv. ráðh. er í allt annarri stöðu, og hann ætti því ekki að reyna að bjarga sér með því að gera samanburð við mig.

Hæstv. ráðh. sagði, eins og hann raunar hafði gert áður í þessum umr., að þetta leyfi væri veitt aðeins í þetta skipti. Ég vona, hæstv. forseti, að ég fari ekki út fyrir mörk velsæmisins, þó að ég segi, að þetta minni mig á söguna um strákinn, sem var að gera hosur sínar grænar fyrir stúlku, en hún sagði: Heyrðu, vinur, — þrisvar sinnum og svo aldrei meir.

Hæstv. ráðh. segir, að öll gagnrýni í þessu sé út í bláinn. En ég vil aðeins biðja hann að íhuga, hvað hann ætlar að gera, þegar það kemur umsókn frá Japan um, að Japanir fái að skipta um áhafnir á verksmiðjuskipum og verksmiðjuflotum á Íslandi. Eru þeir ekki mikil og góð viðskiptaþjóð? Viljum við sleppa þeim útflutningi, sem við höfum til þeirra, og þeim innflutningi, sem við höfum frá þeim? Hver ætlar að segja nei við slíka vinaþjóð? Og hverjir eru líklegri til að sækja á? Þeir eru komnir hálfa leið norður eftir Atlantshafinu, með öllum Afríkuströndum, og bíða eftir möguleikum til þess að senda sína skipaflota lengra.

Hæstv. ráðh. segir, að útlendingar, þ. á m. Austur-Þjóðverjar, fái í Kanada miklu meiri fyrirgreiðslu en þeir fá hér. Af hverju báðu þeir þá ekki um leyfi til að lenda í Kanada með flugvélar sínar? Svo sagði hæstv. ráðh. athyglisverða setningu, hann sagði: Ef Austur-Þjóðverjar hefðu leitað til Kanada, þá hefðu þeir vafalaust fengið jáyrði. — Hvernig veit sjútvrh. Íslands, að Austur-Þjóðverjar hafa ekki leitað til Kanada? Hvernig veit hann það? Ætli það hafi ekki eitthvað gerst, áður en umsóknin var send til okkar og áður en hún fékk þennan sterka stuðning hjá hans exellence í sjútvrn.

Það er talað um almenna stefnu okkar, það getur vel verið, að það sé ástæða til að íhuga hana. En hvað sem við hugsum um almenna stefnu, þá hlýtur þetta að vera skref í ranga átt. Það er þess vegna, sem þetta mál hefur verið vakið hér upp. Þetta er fyrsta atvikið. Við höfum talið það almenna stefnu að reyna að hleypa ekki nýju verksmiðjutogaraveldunum, — sem eru fyrst og fremst Austur-Þýskaland, Pólland og Sovétríkin, öll ný fiskveiðistórveldi, sem ekki voru til áður, — að hleypa þeim ekki að miðum okkar, reyna að forðast að gefa þeim tilefni til að óska eftir samningum við okkur, og það hefur tekist hingað til. Það er nóg fyrir okkur að glíma við gömlu fiskveiðistórveldin. Og ég held, að það hefði verið betra, ef ríkisstj, hefði haft forsjálni til þess að gera ekki þessa skyssu á því sviði.