19.04.1974
Efri deild: 104. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3753 í B-deild Alþingistíðinda. (3300)

8. mál, skólakerfi

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þessi frv., sem hér eru til umr., um skólakerfi og um grunnskóla, hafa verið lengi á leiðinni hingað til Ed., eins og minnst hefur verið á hér í d., ein 3 ár, að ég ætla. Ástæðan fyrir þessu er að sjálfsögðu sú, að frv. um grunnskóla, eins og það er sett fram, og þetta nýja skólakerfi, sem gert er ráð fyrir að taka hér upp, hafa mætti mikilli andstöðu, bæði meðal almennings einkum í strjálbýli, einnig meðal kennarastéttarinnar, einkum hjá framhaldsskólakennurum, og einnig hér á hinu háa Alþ. Það, sem þetta frv. byggir á, er það, að í stað þeirrar unglinga- og barnafræðslu, sem átt hefur sér stað nú í barnaskólum, unglinga- og gagnfræðaskólum og hefur lokið með gagnfræðaprófi eða landsprófi, á að taka upp einn skóla, svokallaðan grunnskóla, og er við það miðað, að grunnskólanum ljúki á landsprófi eða gagnfræðaprófi og skólaskyldan sé jafnlöng grunnskólanum.

Við fyrstu sýn má vera, að mönnum hafi ekki þótt þetta óeðlilegt né vond hugmynd. Ástæðan fyrir því er m.a. sú, að ýmsir, sem lokið hafa unglingaprófi, hafa rekið sig á það síðar, að þeim hafa verið lokaðar ýmsar leiðir í framhaldsskóla, þar sem þeir hafa ekki landspróf eða gagnfræðapróf. Tilgangurinn með þessum grunnskóla var sá að setja undir þann leka. Nú hafa hins vegar fræðslumálin þróast með þeim hætti, að jafnvel þótt þessi breyt. nái fram að ganga, mun grunnskólaprófið ekki gefa rétt til allra framhaldsskóla, eins og meiningin var fyrst í stað, þannig að ekki er hægt lengur að ná þessu markmiði, eins og þessi frv. liggja fyrir.

Þessi kjarni þessara frv., lenging skólaskyldunnar um eitt ár, hefur verið rökstuddur með því, að með því sé verið að koma til móts við strjálbýlið. Ég mun koma að því síðar, að þetta er nú alls ekki rétt hugsun og að sjálfsögðu fyrst og fremst vegna þess, að grunnskólafrv. er byggt upp með það fyrir augum að gera sem flesta unglinga að langskólamönnum í bóklegum greinum, og þar með gengið út frá þeirri forsendu, — þeir, sem sömdu þetta frv., hafa sýnilega gefið sér þá forsendu, — að bóklega námið eigi að ganga fyrir öllu, það sé æðra en annað nám og þroskavænlegra fyrir unglingana, hvernig svo sem þeir eru af guði gerðir. Að því mun ég einnig koma nánar síðar.

En áður en við tölum um það, að við ætlum að lengja skólaskylduna, væri nauðsynlegt að fá upplýsingar um það, hvernig tekist hefur að framkvæma þá skólaskyldu, sem við erum nú með. Það væri t.d. fróðlegt að fá upplýsingar um það, hversu margir unglingar það eru, sem setjast í 2. bekk gagnfræðaskóla, síðasta bekk skólaskyldunnar, og hrökklast svo frá námi í þessari síðustu deild, án þess að fræðsluyfirvöld né barnaverndarnefnd né nokkur aðili hafi þar nein afskipti af. Í öllum þeim töflum, sem eru með grunnskólafrv., er ekkert yfirlit yfir þetta, og mér er ekki ljóst heldur af þeim samanburði, sem hér er gerður, hvort þar er átt við þá unglinga, sem hafa lokið unglingaprófi, eða hvort átt er við þá unglinga, sem setjast í unglingabekkinn strax að hausti. Um þetta er að sjálfsögðu nauðsynlegt að fá upplýsingar, og það er að sjálfsögðu einnig íhugunarefni fyrir hv. alþm., hvernig fræðsluyfirvöld hafa komið fram og komið til móts við þá unglinga, sem ekki hafa lokið skólaskyldunni nú. Það er eftirtektarvert.

Þessi lenging skólaskyldunnar byggist á því, að börnin eða unglingarnir hafi gott af að koma í skólana, — það hlýtur að vera kjarni málsins, að unglingarnir sæki eitthvað í skólana. Ég er sannfærður um það og hef borið það undir menn, sem eru menntaðir í sálfræðilegum og uppeldisfræðilegum greinum og hafa haft með þessi mál að gera, að skólarnir, eins og þeir eru nú úr garði gerðir, bjóða ekki þá námsskrá og þær námsgreinar, að þær verki sem hvatning á unglingana. Ég hef sagt það áður hér í hinu háa Alþ., að það er svo um marga nemendur, að þeir eru þegar farnir að heltast úr lestinni, jafnvel snemma á barnaskólaaldri, síðan er reynt að láta þá tosast áfram bekk úr bekk, án þess þó að þeir hafi sýnt nokkurn námsárangur. Ég get nefnt dæmi um það, að börn hafa ekki náð barnaskólaprófi, foreldrar hafa beðið um það, að börnin fengju að sitja eftir í barnaskólanum, til þess að þau gætu náð einhverjum tökum á því námsefni, sem kennt var í efsta bekk barnaskólans, en því hefur verið hafnað og börnunum kastað inn í fyrsta bekk gagnfræðaskólans og þar lagt fyrir þau námsefni, sem þau hefðu engin tök á að ráða við, þegar alla undirstöðu vantar. Þessi börn og þessir unglingar verða að sitja á hverjum degi, alla virka daga vikunnar, frá kl. 8 að morgni fram að kaffi í kennslustundum, tíma eftir tíma, og fást við viðfangsefni, sem fyrirfram er vitað, að þau ráða ekki við. Við getum tekið þau börn, sem verst eru undirbúin, og rétt ímyndað okkur, hvernig gengur að kenna þeim, t.d. skildagatíð, afbrigðilega germynd og þar fram eftir götunum. Það þarf ekki lengi að velta vöngum yfir því. Kennarar gera sér að sjálfsögðu grein fyrir því, að þetta er ekki hægt. Samt sem áður ber þeim skylda til þess samkv. námsskrá að reyna að komast yfir það námsefni, sem tilskilið er, en árangurinn verður að sjálfsögðu enginn. Afleiðingin af öllu þessu verður svo sú, að unglingarnir komast í andstöðu við skólann. Þeir líta á skólann og kennarana sem sína höfuðóvini, og smátt og smátt komast þeir í andstöðu við þjóðfélagið, vegna þess að skólinn og kennararnir eru í þeirra augum fulltrúar þjóðfélagsins, ríkiskerfisins, þeirrar skepnu.

Ég hef sett fram þá kenningu og er þeirrar skoðunar, — það hefur ugglaust verið gert af öðrum mönnum einnig, — að við getum rakið að nokkrum hluta glæpafaraldur meðal unglinga einmitt til þessa, að þau hafa ekkert viðfangsefni við hæfi, ekkert þroskandi nám, enga hvatningu, enga uppörvun. Þessi börn eru ekki upplitsdjörf, þegar þau fá einkunnabækur að vorinu og þegar baráttan stendur um það, hvort þau nái 4 á unglingaprófi. Og svo hefur farið og fór m.a. s.l. vor, að það varð að nema úr gildi lágmarkseinkunnir í stærðfræði og íslensku, svo að ekki féllu of mörg börn á unglingaprófinu, sem sýndi náttúrlega, að námsskráin og prófverkefnið, sem lagt var fyrir, var engan veginn á færi þessara nemenda.

Ég er þeirrar skoðunar, að á meðan við getum ekki ráðið við þá annmarka, sem eru á skólaskyldu upp að 15 ára aldri, og meðan við getum ekki komið til móts við þau börn og unglinga, sem verst verða úti á þessum aldri, eigum við ekki að lengja skólaskylduna. — Ég vil taka fram, að til allrar hamingju er það náttúrlega tiltölulega mjög lítill hópur, sem verst fer út úr þessu í skólanum. Það er líka tiltölulega lítill hópur, sem ekki menntar sig neitt eftir unglingapróf.

Ég vil í þessu sambandi einnig minna á það, að sú skoðun hefur komið fram hjá námsstjórum ýmsum, m.a. í Noregi, að það sé rétt að gefa unglingum kost á að velja á milli vinnu og frekari skólagöngu eftir fermingu, og tel ég, að slík vinna eigi að vera undir eftirliti fræðsluyfirvalda, til þess að með því sé fylgst, að unglingarnir séu ekki að slæpast, séu ekki í iðjuleysi, og til þess að reynt sé að greiða fyrir því, að þeir fái einhverja vinnu. En því miður hefur það verið svo með ýmsa, sem hrökklast hafa úr 2. bekk gagnfræðaskólans, að þeir hafa ekki tollað í vinnu og hafa verið svo skemmdir, að það hefur reynst erfitt að koma þeim áleiðis.

Ég vil nú segja þetta almennt fyrst um lengingu skólaskyldunnar og vil í því sambandi aðeins svara því, sem hv. þm. Helgi Seljan sagði um það efni, þar sem hann gerði athugasemd við það, að notað væri orðið námsleiði, — þótti það heldur vont orð og slæmt og vildi í þess stað nota orðið leti. Nú þekki ég dæmi þess, að ýmsir þeir nemendur, sem einna verst hefur gengið í sjálfu skólakerfinu og kannske ekki staðið sig vel. hafa lagt sig mjög mikið fram og lagt á síg langan vinnudag, en uppskorið lítið, og þetta hefur náttúrlega fyrr eða síðar leitt til uppgjafar. Það er svo, að þegar einhver er sleginn niður hvað eftir annað, þá kemur að því, að hann gefst upp, og námsleiðinn er náttúrlega afleiðingin af því. Ef menn eru ekki leiðir á einhverju og ef mönnum finnst eitthvað skemmtilegt, þá eru þeir venjulega duglegir við það. Það má auðvitað segja, að í sumum tilfellum fari þetta saman, námsleiði og leti. Auðvitað er fullt af unglingum og börnum í skólunum, sem geta lært meira en þau gera, þó að það sé fullmikið af því góða, eins og sá hv. þm. sagði, að börnin vinni allt að 60–80 klst. á einni viku, sem mér finnst vera all hátt.

Í 2. gr. grunnskólafrv. segir svo í 2. mgr.: „Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.“

Í 3. mgr. heldur áfram:

„Grunnskólinn skal veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð, sem stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal því leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra“.

Þetta eru auðvitað afskaplega falleg markmið, og að sjálfsögðu eru þetta hin sömu markmið og við höfum haft í okkar skólastarfi nú, og þarf engin ný lög um það efni. Í þessu atríði er spurningin sú, hvernig okkur tekst að ná þessum markmiðum, og það kom fram hjá hv. 6. landsk. þm., að hann taldi, að okkur hefði að ýmsu leyti mistekist það, — kenndi þar um m.a. kennurum, sem að sjálfsögðu eru misjafnir, námsskránni og einnig foreldrunum. Ég álít, að ein höfuðástæðan fyrir því, að okkur hefur ekki tekist að ná þessum markmiðum, sé sú, að við höfum bundið skólakerfið of mikið saman. Við ætlum okkur að láta alla nemendur læra allt það sama í of ríkum mæli. Ég hef kennt, — svo ég vitni til þess, — bæði í 1. bekk, 2. bekk, 3. bekk og 4. bekk gagnfræðaskóla, jafnframt hef ég kennt í svonefndri framhaldsdeild gagnfræðaskóla hér í Reykjavík, en í þeirri deild eru unglingar, sem ekki hafa náð unglingaprófi og hafa þess vegna setið eftir. Í þessari framhaldsdeild kenndum við með allt öðrum hætti en kennt var í hinum venjulegu unglingadeildum, hinum venjulega 2. bekk. Við höguðum prófkröfum og námsefni öðruvísi, og ýmsir þeir nemendur, sem náðu því prófi, sem við lögðum fyrir þá um vorið, — þeir þurftu að ná tilskilinni lágmarkseinkunn, — héldu síðan áfram í 3. bekk og reyndust sumir miklu betur á vegi staddir. Það, sem þarna kemur til. er annars vegar það, að nemendurnir eru orðnir ári eldri, þannig að það er að mörgu leyti auðveldara að kenna þeim, en einnig kemur hitt til, að það námsefni, sem fyrir þá var lagt, var allt öðruvísi byggt upp heldur en í hinum almenna gagnfræðaskóla, og það hefur að sjálfsögðu mikið að segja, fyrir svo utan það, að til þess að þroska og þjálfa nemendur til samstarfs við aðra, þá ætla ég, að nauðsynlegt sé að leggja miklu meiri áherslu á verklega námið en gert hefur verið, og sakna þess, að ekki skuli hafa verið gerð nein tilraun til þess, að Gagnfræðaskóli verknáms, sem einu sinni var, yxi upp og reyndi að verða sú stofnun, sem yrði hlutverki sínu vaxin, eins og til hennar var stofnað, en því miður hefur sá draumur ekki ræst.

Hér er talað um það í 3. gr., að grunnskóli sé 9 ára skóli. Nú kemur það ekki beint fram í þessu grunnskólafrv., við hvaða prófkröfur er miðað. Mér hefur þó skilist á því, sem sagt hefur verið, að meiningin sé að kenna nemendum á 9 árum það, sem þeir læra nú á 10 árum, lélegri helmingurinn af þeim, og þessu markmiði á að ná með þeim hætti, að það á að lengja hið árlega skólaár. Nú er þetta náttúrlega algjörlega rangt hugsað. Það er hægt að kenna nemendum allt annað og standa allt öðruvísi að verki í samstarfi við nemendur eftir því, hvort þeir eru 13 ára, 14 ára, 15 ára eða 16 ára. Nemendur eru afskaplega mismunandi þroskaðir á þessum árum. Það er kannske mesti munurinn á manneskjunni einmitt á þessum skólaárum, og það kemur í ljós, t.d. þegar farið er að kenna ögn eldra fólki, eins og 18 ára, þá er hægt á undraverðum tíma að láta það tileinka sér ýmis skilningsatriði, sem hafa verið sem lokuð bók fjórum árum áður, þannig að í raun yrði grunnskólinn náttúrlega, eins og hann er núna, miðað við kröfur, að vera 10 ára skóli fyrir lakari helminginn og 9 ára skóli fyrir þá betri. Það er alveg útilokað, að hægt sé að koma sama námsefni í alla nemendur. Ég get í því sambandi aðeins vitnað til þess könnunarprófs í stærðfræði, sem lagt var fyrir nemendur í landsprófsdeild fyrir jól. Þar var árangur þeirra í kringum 6.6 meðaleinkunnin. Sama próf var svo lagt fyrir hinn almenna 3. bekk um vorið, þegar hinn almenni 3. bekkur hafði farið yfir sama námsefni með sömu kennurum, og þar voru 2 nemendur yfir 4. Þarna var sem sagt um sama námsefni að ræða og sömu kennararnir. Í öðru tilfellinu notuðu nemendur helmingi skemmri tíma til námsins og náðu meðaleinkunn 6, í hinu tilfellinu voru 2 yfir 4 eftir helmingi lengri námstíma. Þetta segir auðvitað fulla sögu um það, sem hér er um að ræða, og þarf ekki frekar um það að ræða.

Hér segir í 6. gr.:

„Forráðamaður skólaskylds barns ber ábyrgð á, að það innritist í skóla, þegar það hefur náð skólaskyldualdri, og að það sæki skóla. Verði verulegur misbrestur á skólasókn skólaskylds barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli, og skólastjóri fær ekki við ráðið, skal hann tilkynna fræðslustjóra um málið. Fræðslustjóri kynnir sér málsatvik og ástæður á heimili og í skóla og beitir sér fyrir úrbótum. Vilji forráðamaður barnsins ekki hlíta ákvörðun fræðslustjóra, getur hvor aðili um sig vísað málinu til barnaverndarnefndar.“

Í grg. frv. segir um þetta atriði m.a.:

„Óviðunandi er því, að skammsýn sjónarmið einstaklings fái því ráðið, að barn eða unglingur fái ekki að neyta þessa réttar síns. Jafnframt er það og skylda nemandans við sjálfan sig og þjóðfélagið, að hann notfæri sér þennan rétt.“

Auðvitað er það alveg rétt, ef hið háa Alþ. samþ. að lengja skólaskylduna, þá er auðvitað einhver ábyrgur fyrir því, ef svo fer, að unglingarnir rækja ekki þessa skyldu. En ég segi nú aftur eins og ég sagði áðan: Meðan við erum ekki einu sinni menn til þess að ráða við þau tilfelli, þegar unglingar mæta ekki í 2. bekk gagnfræðaskóla, á meðan það reynist algjörlega árangurslaust að leita til barnaverndarnefndar eða annarra slíkra aðila um úrlausn þeirra mála, hvaða tilgangi þjónar þá að vera að lengja skólaskylduna um eitt ár í viðbót? Það mun að sjálfsögðu hafa þær afleiðingar, að það verður reynt eftir megni hér í Reykjavík að fullnægja þessu ákvæði, en svo mun reynslan verða sú, að úti í strjálbýlinu mun takast enn verr en nú að uppfylla ákvæðin um skólaskylduna. Ég sé því ekki, að þarna sé neitt verið að rétta hlut strjálbýlisins, ef það er sú hugsun, sem býr þarna á bak við, nema síður sé.

Og svo spyr ég einnig um dreng, sem orðinn er 16 ára gamall eða stúlku, — við skulum hugsa okkur dreng, t.d. sem langar til þess að fara á sjóinn og hann getur farið allt aðra leið til þess að ljúka námi, t.d. í stýrimannaskóla. Af hverju er það eðlilegt, að hið opinbera banni honum þann rétt ungum að stunda þessa atvinnugrein? Reyndir skólamenn hafa oft talað um, að það sé nauðsynlegt, að unglingarnir og börnin kynnist þeim verkum, sem unnin eru í þjóðfélaginu. Þau þroskast af því að standa að verki með fullorðnu fólki, og þau fá hvatningu af því að fást við þau viðfangsefni, sem hugur þeirra stendur til. — En um þetta atriði þarna, þessa 6. gr., þá lít ég á hana bara sem orðin tóm, nema hægt sé að sannfæra mig um það, eins og nú standa sakir á þessu herrans ári 1974 og nú í lok skólaárs, að þá hafi virkilega verið gripið inn í, ef verulegur misbrestur hefur orðið á skólasókn skólaskylds barns. Ég þykist hins vegar vita, að það sé margt um það að segja víðs vegar um landið.

Í 12. gr. frv. hefur hv. Nd. bætt við einu undarlegu atríði undir tölul. 5, en það er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Það (fræðsluráð) skal skipuleggja viðræðufundi fyrir nýja kennara í samráði við Kennaraháskóla Íslands, hafa umsjón með þeim og setja þeim leiðsögukennara að fengnum till. hlutaðeigandi skólastjóra. Rn. setur leiðsögukennurum erindisbréf að höfðu samráði við Kennaraháskóla Íslands.“

Ég segi nú um þetta atriði: Til hvers er verið að breyta gamla kennaraskólanum í kennaraháskóla, ef þeir nemendur, sem þaðan koma, fullmenntuð kennaraefni, þurfa einnig á sérstökum leiðsögukennara að halda eftir allt háskólanámíð? — Þetta er alveg fáránlegt, og ég geri ekki ráð fyrir því, að í þessari hv. d. verði nein mótstaða gegn því að nema þetta aftur brott, enda er þetta ekki í hinu upphaflega frv. (Gripið fram í: Þurfa ekki læknar kandídatsár?) Læknar þurfa ugglaust kandídatsár, ég geri ráð fyrir því. En hvað ætli það útskrifist margir annars frá Kennaraháskóla Íslands á þessu vori? 12 eða 14? Það kemur kannske manni við, hvernig gengur að manna þessa skóla. En ef það er tilgangurinn með þessu að hafa sérstaka leiðsögukennara og auka þannig enn á ríkisbáknið, þá segi ég: Þá fer maður að efast um gildi Kennaraháskólans. — Það getur vel verið, að þetta sé nauðsynlegt, en ég mundi telja skynsamlegri leið að reyna að standa betur að Kennaraháskólanum. Ég held, að það sé svo í kennslu eins og annars staðar, að menn verða að reyna að standa mest á eigin fótum, og það hefur nú reynst svo með reynda kennara, að þeir hafa í mörgum dæmum leiðbeint þeim kennurum, sem eru að byrja. Væri raunar fróðlegt að vita, hvort þessir leiðsögukennarar eiga að hafa nokkra reynslu í kennslu yfirleitt, frekar en þeir sálfræðingar, sem þarna eiga að koma við sögu. Það hefur nokkuð verið um það, að menn, sem aldrei hafa kennt eða gefist upp á að kenna, hafa verið að segja öðrum kennurum til um það, hvernig þeir eigi að haga sér við kennslu.

Ég vil aðeins vekja athygli á því, að það er gert ráð fyrir því fortakslaust, að fulltrúi foreldrafélags og formaður nemendaráðs eigi rétt til setu á fundum skólastjóra og kennararáðs svo og á kennarafundum með málfrelsi og tillögurétti. Hins vegar var samþ. í Nd. till. um það, að ekki megi gefa öðrum upplýsingar um einkunnir nemenda en foreldrum eða nánustu aðstandendum. Það er nú svo á kennarafundum, að þar er stundum fjallað einmitt um nemendur sjálfa, um einkunnir þeirra og annað. Það má vel vera, að þetta séu skynsamlegar till., en þær munu að sjálfsögðu valda því, að kennarar munu breyta sínum kennarafundum og munu ræða mál nemendanna, sem vandasöm eru, í sinn hóp, og þetta mun ekki hafa að því leyti neina truflun á vinnubrögðum skólanna. En mér finnst þetta óeðlilegt ákvæði, að fulltrúar foreldrafélags og einkanlega þó formanni nemendaráðs eigi undir öllum kringumstæðum að vera heimilt að sitja kennarafundi. Það er nú svo með unglinga, að það er mjög hæpið, að þeir séu mjög mikið viðstaddir, þegar verið er að ræða kannske viðkvæm mál skólasystkina þeirra og sé ég ekki, hvaða tilgang þetta hefur fyrir unglinga.

Við erum allir á því núna að opna alla hluti og það sé best að draga sem mest úr því, að hægt sé að stjórna skólum og öðru með gamla laginu, enda er nú komið svo m.a. úti á landi. Mér er kunnugt um það úr skóla fjarlægum Reykjavík, að einn af kennurum skólans gerði reisu á fund Fylkingarinnar hér í Reykjavík með 4 eða 5 nemendur skólans, gagnfræðaskóla, sem að sjálfsögðu skólanefndin gerði athugasemd við, en það er kannske rétt að hafa þetta sem frjálsast o.s.frv.

Mér þykir vænt um að sjá það hér í 27. gr., að vel skuli séð fyrir listskreytingu skólamannvirkja og því sé meiri gaumur gefinn en t.d. verklegu námi.

Í 35. gr. er það athyglisverða ákvæði, að um vinnutíma og kjör starfsmanna grunnskóla fari eftir ákvæðum laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna og kjarasamningum stéttarfélaga, eftir því sem við á. — Nú er þetta svo í ýmsum öðrum greinum frv., að þar eru ákvæði, sem ganga þvert ofan í gildandi kjarasamninga kennarastéttarinnar við ríkisvaldið, og get ég raunar ekki séð, hvaða ástæða er til þess hjá hinu háa Alþ. að taka kennarastéttina svona sérstaklega út úr og setja um hana margvísleg lög, sem brjóta í bága við gildandi kjarasamninga og þau tilboð, sem uppi eru núna hjá ríkisstj. til kennarasamtakanna í þeim samningum, sem nú eru fram undan, eins og t.d. í 36. gr., þar sem stendur, að til þess að öðlast afslátt, þegar kennarinn nær 55 ára aldri og 60 ára aldri, þá var fyrst talað um, að hann þyrfti að hafa 20 ára kennsluferil, en eftir 3. umr. í Nd. er þetta komið í 28 ára kennsluferil. Við sjáum, að það má bara breyta þessu og segja: Eftir 28 ára kennsluferil skal starfsskylda hans minnka um 1/6, — því að hann er þá undir flestum kringumstæðum orðinn 55 ára. Í þeim kjarasamningum, sem nú eru í gildi, og í gömlu lögunum frá 1946, er ekki um neinar slíkar takmarkanir að ræða. Ég fæ alls ekki skilið, hvernig stendur á því, að í grunnskólafrv., sem borið er fram af einum af hæstv. ráðh. þessarar ríkisstj., skuli vera að finna ákvæði, sem gengur þvert ofan í gildandi kjarasamninga við kennarastéttina, — ekki aðeins í þessari einu grein, heldur einnig í því, sem tekur til lengdar árlegs námstíma, en þar segir svo í þessu frv., að miða skuli við 9 mánuði, en í kjarasamningum við kennara er nú gert ráð fyrir 34 virkum vikum, og það væri fróðlegt að fá um það einhverjar upplýsingar, að hve miklu leyti, í hve mörgum frv. og í hve mörgum dæmum þessi hæstv. ríkisstj., sem kennir sig við vinnandi stéttir, reynir með einum og öðrum hætti að pota í sína starfsmenn, taka af þeim þau réttindi, sem þeir hafa náð sér með samningum og hafa haldið um mörg ár. Þetta eru að sjálfsögðu algerlega óþolandi vinnubrögð og til skammar.

Við urðum vitni að því hér áðan, hvernig sá maður, sem var kjörinn forseti Alþýðusambands Íslands á síðasta þingi þess, greiddi atkv. á móti því í sambandi við mat fasteigna, að þeir menn, sem þar væru ráðnir, skyldu hafa sömu starfskjör og gert er ráð fyrir í lögum um réttindi og skyldu opinberra starfsmanna. Þessi hæstv. ráðh., sem þar er talað um, hefur einnig sett sig upp á móti því, að Félagsmálaskóla alþýðu, þar sem gert er ráð fyrir, að mennta og þroska launþega, til þess að þeir geti betur staðið vörð um hagsmuni sína í sambandi við kjarasamninga og annað — hann hefur lagt sig á móti því, að opinberir starfsmenn og Farmanna- og fiskimannasambandið eigi þar aðild að.

Þetta eru ekki einu dæmin. Ég hef áður minnst á það hér, oft t.d. hefur það komið fram á fundum BSRB, að í sjálfu stjórnarráðinu hefur verið kippt í menn og sagt, að ef þeir gegni vissum trúnaðarstörfum fyrir launþegahreyfinguna, þá skuli þeir ekki vænta frekari frama í því rn. Enn eru dæmi um það, að menn hér í Reykjavík hafa verið ráðnir til ríkisstofnana eftir samningum Verslunarmannafélags Reykjavíkur og farið þannig aftan að þeim. Enn eru dæmi um það og sífjölgandi, að menn séu ráðnir með þeim skilmálum í opinbera þjónustu, að þeir fái ekki aðild að lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, þannig að ýmsir menn hafa orðið að hafa milligöngu um það við stjórn BSRB, að hún kippti þeim málum í lag. Hér er svo enn eitt dæmið. Þarna er verið að lauma inn í lög á Alþ. lítilli setningu, sem lítið ber á, en tekur af kennarastéttinni þau réttindi, sem hún hafði þegar áunnið sér með lögum 1946, eru staðfest í gildandi kjarasamningum og eru m.a. staðfest í því tilboði, sem ríkisstj. nú hefur lagt fram til kennarastéttarinnar. En á sama tíma og hún leggur það fram, hugsar hún sér, að bið háa Alþ. kippi öllu til baka með lagasetningu hér á hinu háa Alþ. Þetta eru þokkaleg vinnubrögð og síst þeim til sóma, sem tala um það, að þeir séu sérstakir forsvarsmenn vinnandi stétta, eins og sá hv. þm., sem nú gekk hér í salinn.

Í 41. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því, að fræðsluráð og skólanefnd geti í upphafi skólaárs ákveðið, hvort skólakerfi skuli vera 5 eða 6 daga skólavika. Nú vita það allir menn og er kunnugt, að ég ætla, að það var ekki ósk kennarasamtakanna eða fræðsluyfirvalda, að farið var í 5 daga vinnuviku í skólunum. Sú þróun að miða skólavikuna við 5 daga er að kenna breyttum þjóðfélagsháttum, og það hefur m.a. komið fram í því, að sókn nemenda í skólana á laugardögum hefur verið minni en aðra daga vikunnar, og er því m.a. um að kenna, að foreldrar eru hættir að vinna laugardagana og fara þess vegna oft frá yfir helgar, þannig að börnin fá leyfi til þess að fara með þeim. Einnig veldur það miklu, að börnin verða oft og tíðum eini meðlimur fjölskyldunnar, sem þarf að vakna á laugardagsmorguninn, sá eini, sem fer á fætur, og þetta hefur valdið margvíslegum erfiðleikum. Af þessum sökum hefur komið þrýstingur á skólana um að færa kennsludagana niður í 5 hverja viku. Svo hefur verið haldið á þessum málum, að þrátt fyrir það, að dögunum fækki þannig um einn, hefur vikulegum kennslustundum ekki verið fækkað, heldur hefur laugardagsstundunum verið skipt niður á hina dagana með þeim afleiðingum, að nemendurnir eru í skólunum frá 8 á morgnana oft til 3 og 4 á daginn hvern einasta dag og eiga þá eftir allt heimanám og eru að sjálfsögðu orðin slit- og dauðuppgefnir, þegar þeir loksins sleppa úr skólanum. Reynslan hefur líka orðið sú hjá kennurum, að þeir hafa ekki gert mikla tilraun til þess að fara í ný eða verulega þung atríði í síðustu kennslustundum dagsins, þar sem börnin hafa verið orðin svo uppgefin, að þau hafa ekki getað tekið við meiru.

Það er enginn vafi á því, að ég styð þá fullvissu mína við skoðun margra reyndra skólamanna, að það væri hægt að ná jafnvel meiri árangri, það væri hægt að kenna jafnvel meira á viku hverri með því að fækka vikulegu kennslustundunum, — við getum sagt kannske um þessar fjórar stundir, um 10%, og skipuleggja vinnubrögðin betur á þeim tíma, sem eftir er. Það má breyta námsskrá. Það má lagfæra kennslubækur og á margan hátt auðvelda nýja sókn í þessu efni. Það er undarlegt, að á sama tíma og talað er um aukna framleiðni í öllum þáttum þjóðfélagsins, — það er alls staðar talað um, að það þurfi að bæta vinnubrögðin o.s.frv., þá skuli engin hreyfing í þá átt koma innan sjálfs skólakerfisins, heldur skuli þar alltaf haldið við sömu gömlu reglurnar.

Ég sagði áðan, að þeir 9 mánuðir, sem hér er gert ráð fyrir, stönguðust á við gerða kjarasamninga við kennarastéttina. Ég vil jafnframt benda á það til enn frekari rökstuðnings því, að þarna sé rangt að miða við það, að skólinn skuli byrja 1. sept. og standa yfir til 31. maí, að þegar skólarnir voru lengdir um einn mánuð, frá 7 mánuðum upp í 8 mánuði, þá töldu margir skólamenn og hlökkuðu til þess, að nú gæfist kostur á að kenna verulega miklu meira en áður hafði tekist, þessi eini mánuður mundi nú auðvelda að kenna nemendunum meira en áður.

Skólastjórar ræddu svo um þetta mörgum árum síðar, hvernig þessi lenging skólaársins hefði reynst, og niðurstaða þeirra varð sú, að það væri síður en svo, að meira væri núna kennt á 8 eða 81/2 mánuði en áður var kennt á 7 mánuðum. Ég hef hitt reynda og röska skólamenn, sem eru þeirrar skoðunar, að ef við lengdum enn skólaárið, þá muni það koma fram í minnkandi námsafköstum.

Inn í þetta mál, hvernig í þessu frv. er á allan hátt reynt að skera niður frí og lengja skólana, þá er í 45. gr. ákvæði um að stytta jólaleyfi 7 og 8 ára barna, að þau megi ekki eiga frí fram að þrettándanum, eins og verið hefur, eftir jólin í svartasta skammdeginu. Ég fæ nú ekki séð, að það sé mikið tjón að því, þó að litlu skinnunum sé leyft að eiga jólin sín í friði, og það vinnist mikið með þessu. Í svartasta skammdeginu mundu börnin ella vera innilokuð í skólanum allan þann tíma, sem nokkur birta er og afleiðingin af því yrði náttúrlega sú, að þarna yrði um stöðuga innisetu að ræða. Ég fæ ekki séð, að þetta hafi mikinn tilgang, og er algerlega andvigur því a.m.k. með þau, sem yngst eru, að það sé verið að skera niður fyrir þeim jólaleyfi með þessum hætti. Það getur vel verið, að eftir að börnin verða ögn eldri, geri þetta ekkert til, með þau, sem elst eru, en mér finnst þetta fullmikil smámunasemi með litlu skinnin, og eins finnst mér heldur snemmt að skera niður fyrir þeim páskaleyfið. Ég álít, að það megi vera nokkur önnur regla um yngstu skólaþegnana og sé alveg óþarfi að binda þetta með þessum hætti svona, enda eru barnaskólakennarar mjög andvígir þessari breytingu. En þarna rekum við okkur sem og annars staðar í þessu frv. á þá ómanneskjulegu afstöðu, sem þarna er höfð. Það er ekki litið á börnin og unglingana sem lifandi verur, heldur eru þetta einhvers konar peð, sem hægt er að skáka til, og af því að þetta fellur ekki inn í einhverjar stjórnarráðsdeildir hér í Reykjavík að leyfa börnunum að leika frjálsum þessa fáu daga, sem um er að tefla, leyfa þeim að hvíla sig svolítið á þessari löngu skólavist, þá verður að breyta þessu svona, án þess að það hafi nokkurn tilgang. Þetta er ómanneskjuleg tilhneiging, og ég trúi ekki öðru en það verði samkomulag um það hér í hinni háu deild, að lagfæra þetta atríði gagnvart minnstu þegnunum.

Það er eins og fram kom í mörgum ræðum í Nd., — ég man ekki, hvort það kom fram hér einnig, — að það er margt í þessu frv., sem alls ekki á heima í lögum, miklu frekar í reglugerð og þarf nú ekki mikið um að tala. — En í 44. gr. er enn einu sinni fjallað m.a. um frímínúturnar. Þar er gert ráð fyrir því, að í stundarhléi grunnskóla skuli að jafnaði vera 15 mínútur á móti hverjum 100 mínútum, sem kennt er. Ekki veit ég, hvernig þessi tala er fundin. Ég veit, að þessi tala stangast á við gildandi kjarasamninga við kennarasamtökin, eins og ýmislegt annað í þessu frv., og hefur ekkert verið rætt við kennarasamtökin um það. Ég veit einnig, að þessi tala, 15 mínútur móti hverjum 100 mínútum, er ekki sama tala og viðast er á Norðurlöndum, en þar er miðað við það, að 10 mínútna frímínútur komi eftir hverja kennslustund. Ég fæ ekki skilið, hvaða markmið það getur verið hjá hinu háa Alþ. að vera að skera niður frímínúturnar. Ekki er það sparnaður í ríkisrekstrinum, sem vinnst við það. Það er vísindalega rannsakað og hefur verið sannað með niðurstöðum erlendra rannsókna, að það tekur t.d. nemendur 25 mínútur til þess að ná fullum árangri. Er þeir t.d. læra eitt erlent tungumál í einum tíma, ensku, og eiga svo að læra dönsku í næsta tíma, þá tekur það 25 mínútur fyrir börnin að jafna sig á dönskunni.

Ég veit, að í einum gagnfræðaskóla hér í Reykjavík hefur verið talað um það að stytta frímínúturnar niður í 3 mínútur. Ég er á móti þessu. Ég er þeirrar skoðunar, að sérstaklega börn og unglingar hafi gott af því að hreyfa sig svolítið á milli kennslustunda, og er miklu hlynntari því að lengja heldur frímínútur en stytta. Ég álít, að það sé miklu heilbrigðari og réttari stefna að gera það og í sambandi við það reyna þá að láta þau hreyfa sig meira og koma blóðinu á hreyfingu. En inniseta af þessu tagi er alveg fráleit að mínu mati og heldur hjákátlegt að setja þetta inn í lög til þess eins, að erfiðara sé að breyta því. — Ég hef fyrr rekið mig á það, að frímínútur fara óskaplega í taugarnar á ýmsum stjórnarráðsfulltrúum, og þetta hefur mengast af þeirra skoðunum.

Til allrar hamingju var í 49. gr. bætt inn ákvæðum um það, að heimilt sé fyrir nemanda að hverfa frá grunnskólanámi að loknum 8. bekk í allt að eitt ár vegna þátttöku í atvinnulífinu, og lyki nemandi þá grunnskólanámi þeim mun síðar. Heimilt skal að meta þessa þátttöku nemandans í atvinnulífi til jafns við nám í tilteknum valgreinum 9. bekkjar. Þetta er mjög jákvætt ákvæði. Að vísu skil ég ekki, af hverju þarna er miðað við eitt ár. Það getur vel verið, að það sé rétt. Ég hef alltaf heyrt talað um það, að í sambandi við þá nemendur, sem hverfa frá námi og koma aftur, hefur gjarnan verið miðað við 18 ára aldurinn og talið, að það væri heppilegur tími til að hverfa til baka. En ég hef engar skoðanir á því. Það getur vel verið, að þetta sé eins gott. Ég vildi nú víkka þetta ákvæði og heimila nemanda að hverfa frá grunnskólanámi að loknum 7. eða 8. bekk, þannig að nemendur geti bæði á fermingarárinu og eins á næsta ári á eftir horfið frá námi um stundarsakir og komið svo aftur síðar til náms, ef endilega verður að halda sig við þessa 9 ára skólaskyldu. En ætli það sé ekki búið að sauma svo fast að hv. þm. stjórnarmeirihlutans, að þeir greiði nú flestir atkv. með þeirri lengingu, þótt mér hafi virst á einkaviðtölum við þá suma hverja, einkanlega fyrir einu ári, að þeir væru ekki allt of sannfærðir um, að hér væri rétt stefnt.

Í 52. gr. er fjallað um það, hvernig fara skuli með þau börn sum, sem ekki stunda grunnskóla. Ég er að sjálfsögðu andvigur þessu. Ég hef oft sagt áður, að ég tel, að það eigi að koma þessum börnum í vinnu og sjá, hvaða áhrif það hefur á þau. Ég er ekki allt of trúaður á sálfræðingana og uppeldisfræðingana. Sumir þeirra eru ágætt fólk og hafa reynst vel í sínu starfi, en þeir eru misjafnir, og ég hef meiri trú á því, að hæfilegt starf, þroskavænlegt starf, geti komið mörgum unglingunum jafnvel og vera á einhverjum sérstofnunum eða undir handleiðslu einhverra háskólamenntaðra manna. Það er nú svo, að ýmsir menn, þó að þeir stundi erfiðisvinnu, eru býsna miklir sálfræðingar, og ég veit a.m.k., að margur bóndinn hefur vakið hjá þeim unglingum, sem til hans hafa komið á unga aldri að sumarlagi, mikinn og góðan áhuga á því að standa sig vel og standa vel að verki og kennt þeim ýmislegt. Ég hef meiri trú á því, að t.d. gott sveitaheimili geri börnum gott, en einhver sálfræðiþjónusta við einhverja dauða stofnun, hvar sem hún er sett niður á landinu.

Í 58. gr. er fjallað um samræmd könnunarpróf. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Menntmrn. skal leggja skólunum til samræmd könnunarpróf og stöðluð próf í a. m.k. móðurmáli og stærðfræði, svo fljótt sem við verður komið. Skal einkum við það miðað, að þessi próf veiti glögga vitneskju um árangur skólastarfsins á þeim stigum, þar sem eðlileg skil verði í náminu.“

Mig minnir, að meðaleinkunn í þessu staðlaða prófi eða samræmda prófi í stærðfræði á gagnfræðaprófi hafi verið s.l. vor eitthvað rétt um 4. Það gaf glögga mynd af því, að algerlega hafði verið rangt staðið að þeirri kennslu, og hefur verið svo um nokkurt árabil, eftir að þessi samræmdu próf komu upp, að það hefur sýnt sig, að námskröfur og námsskrá í stærðfræði er algerlega ofvaxin nemendunum. Það hefur einnig komið í ljós í sambandi við þær kröfur, sem gerðar hafa verið í hinum samræmdu könnunarprófum, t.d. í móðurmálinu, að þar eru t.d. gerðar í málfræði minni og lægri kröfur að mörgu leyti heldur en í unglingaprófi um málfræðilega þekkingu. Reynslan hefur sýnt, að unglingar í strjálbýlinu fjarri Reykjavík standa verr að vígi á þessum samræmdu prófum heldur en í öðrum prófum jafnþungum, sem samin eru og lögð fyrir af sjálfum kennurunum eða í samráði við kennarana, og ástæðan fyrir þessu er afskaplega einföld. Hún er hreinlega sú, að t.d. hefur það verið fastur háttur, eða var það meðan ég kenndi hér í Reykjavík, að kennarar hér héldu fundi með þeim mönnum, sem sömdu og samræmdu prófin, og þar var fjallað um það, hvaða kröfur skyldi gera í prófunum og hvernig að þeim skyldi staðið. Hins vegar hafa kennarar úti á landi margir hverjir ekki átt kost á því að sækja þessa fundi og þannig ekki haft nægilega góða vitneskju um það, hvaða kröfur yrðu gerðar, og ekki heldur um það, hvernig yrði staðið að prófunum. Þá hefur það einnig komið í ljós í sambandi við þessi samræmdu próf, að þau eru að mörgu leyti frekar gáfnapróf heldur en að þau séu nokkur mælikvarði á þann námsárangur, sem orðið hefur, — á það, hvort nemandinn hafi tileinkað sér það, sem kennarinn hefur verið að fjalla um um veturinn. Þau hafa þess vegna að verulegu leyti misst marks, og ég er þeirrar skoðunar, að þarna verði að fara aðra leið, og tel líka, að það sé óeðlilegt, að allt skólastarfið í landinu fari eftir einhverri einni hraut, svo að megi hvergi víkja þar út frá.

Ég var svo heppinn að fá að kenna um skeið í gagnfræðadeild Menntaskólans á Akureyri. Þessi gagnfræðadeild var rekin með allt öðrum hætti en allar gagnfræðadeildir aðrar í landinu, og t.d. var hið venjulega unglingapróf ekki lagt fyrir í þeim skóla. Þar var námsskráin að mörgu leyti öðruvísi, og ég er þeirrar skoðunar, að þetta hafi ekki verið nema gott. Það gerir ekkert til, þótt aðeins sé staðið öðruvísi að skólunum á Norðurlandi en Suðurlandi og Austurlandi en Vesturlandi. Það örvar kennara til þess að hafa frumkvæði að nýjungum og breytingum og hlýtur að gera skólastarfið að mörgu leyti skemmtilegra og frjórra. Ég er þess vegna á móti allri þessari samræmingu, sem koma á á fót, og tel. að í móðurmálskennslu og stærðfræði liggi miklu meira á því að semja almennilegar kennslubækur og laga námsskrár þannig, að einhver von sé til þess, að hægt sé að kenna eftir þeim og fara eftir þeim. Svo er þetta kórónað með því að segja, að samræmdu, stöðluðu prófin skuli færð sem sjálfstæðar einkunnir, en einkunnir kennara hafi ekki nein áhrif á þær. Það er nú alveg til að kóróna vitleysuna og misræmið, sem af þessu kann að hljótast.

Í 60. gr. er verið að skera niður eða gefa mjög strangar reglur um það, hvernig standa skuli að prófum. Nú eru afskaplega mismunandi skoðanir um gildi prófa og hvernig að þeim skuli staðið. Ég sé ekki, af hverju verið er að setja það í lagasafnið, hversu mörgum dögum skólaársins megi verja til prófa. Mér finnst það algerlega út í hött. Menntmrn. getur gefið fyrirmæli um, hvernig að þessu skuli staðið.

IX. kafli frv. fjallar um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu,en hlutverk þessarar ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu skal vera, eins og segir svo í 67. gr., með leyfi hæstv, forseta:

„a) að nýta sálfræðilega og uppeldisfræðilega þekkingu í skólastarfi;

b) að vera ráðgefandi um umbætur í skólastarfi, sem verða mættu til að fyrirbyggja geðræn vandkvæði;

c) að annast rannsókn á afbrigðilegum nemendum og þeim, sem ekki nýtast hæfileikar í námi og starfi;

d) að leiðbeina skólastjórum, kennurum og foreldrum um kennslu, uppeldi og meðferð nemenda, sem rannsakaðir eru (sbr. c-lið);

e) að taka til meðferðar nemendur, sem sýna merki geðrænna erfiðleika, og leiðbeina foreldrum og kennurum um meðferð þeirra;

f) að annast hæfniprófanir og ráðgjöf í sambandi við náms- og starfsval unglinga;

g) að annast ýmis rannsóknarstörf og athuganir í sambandi við ráðgjafarþjónustu sálfræðideilda.“

Í 71. gr. er svo fjallað um það, hvaða skilyrði þeir menn skulu uppfylla, sem eiga að annast þetta. Þar er ekkert um það rætt, að viðkomandi menn skuli hafa kennarareynslu, og ekki heldur, að þeir eigi að hafa kennsluskyldu jafnframt þessu starfi. Þetta tel ég vera afskaplega illa farið og algerlega nauðsynlegt. Þetta er afskaplega viðamikið verk, sem þessum mönnum er falið, og sannleikurinn er sá, að til þess að menn geti leiðbeint skólastjórum og kennurum og foreldrum um kennslu, uppeldi og meðferð nemenda, er náttúrlega lágmarkið, að viðkomandi menn séu í kennslunni sjálfir, í einhverri snertingu við það, sem þeir eiga að leiðbeina um, og hafi einhverja kennslureynslu. Að öðrum kosti verður þetta ekkert annað en utanaðbókarsnakk úr kennslubókum, sem viðkomandi hefur lært í einhverjum háskóla og verður auðvitað metið sem slíkt af þeim mönnum, sem við vandkvæðin eru að fást. Ég er hræddur um, að nýútskrifaðir sálfræðingar segi gömlum og reyndum skólastjórum harla lítið um það, hvernig eigi að örva og hvetja nemendur til náms. Ég geri mér ekki alveg ljóst, hvort þetta er allt saman nauðsynlegt. Ég veit ekki, hvað þessir menn eiga að vera margir, sem er fjallað um í þessum kafla, og veit ekki, hvað þeir eiga að kosta ríkissjóð. En það er rétt eftir öðru að velja þetta ár og þennan mánuð, aprílmánuð, 19. apríl, þegar við erum að bíða eftir því, hvort hæstv. ríkisstj. hefur kjark í sér til þess að leggja till. um lausn á vanda efnahagsmálanna fyrir þingið, að þá skuli þeir dagar notaðir til þess að reyna að knýja í gegn frv., sem felur í sér jafnmikla hækkun ríkisútgjaldanna og hér er gert ráð fyrir, og svo algerlega tvísýnt um það, að nokkur árangur náist, og má raunar segja, að það sé táknrænt, að það skuli vera fjallað um heilsuvernd nemenda næst á eftir því, sem fjallað er um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu, og mun áreiðanlega ekki veita af í sumum tilfellum. Mér er a.m.k. kunnugt um það, að í þau skipti, sem ég hef beðið um að fá aðstoð af þessu tagi, hefur hún ekki reynst svo vel, að ég mundi leggja á mig mikið ómak að endurtaka slíka göngu.

Það er svolítið gaman að lesa 42. gr. og fróðlegt fyrir hv. alþm. að bera saman, hvernig í núgildandi lögum er talað um það, sem kenna skuli, og hvernig það er í þessu frv. Í núgildandi lögum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í verknámsdeild skal verja allt að helmingi námstímans til verknáms. Til verknáms telst ýmiss konar handavinna, matreiðsla, þjónustubrögð, teiknun, skrift, vélritun, íþróttir o.fl. Leitast skal við að haga verknámi eftir þörfum og hæfileikum hvers nemanda, að öðru leyti skal námstímanum varið til bóknáms og einkum lögð áhersla á íslensku op íslensk fræði reikning, stærðfræði og náttúruvísindi. Í bóknámsdeild skal 3/4 hlutum námstímans hið minnsta varið til bóknáms, en allt að fjórða hluta til verknáms. Megináhersla skal lögð á íslensku, íslensk fræði, reikning, stærðfræði og erlend tungumál, en auk þess skulu kennd önnur hagnýt og menntandi fræði, eftir því sem ákveðið er í námsskrá.“ Lengra nær þetta ekki. En í þessu nýja plaggi er langur listi yfir allt það, sem á að kenna. Mér skildist svo á hv. 6. landsk. þm. áðan, að það hefði ráðið úrslitum hjá honum um stuðning við þetta frv., að með því væri raunverulega hægt að stytta námíð um eitt ár. En þetta er algjörlega út í bláinn. Ég skal ekki þreyta hv. alþm. á því að lesa þetta allt saman, en ég vil benda á nokkur atríði, sem standa í c-lið og ákvæði skulu sett um. Það stendur barna:

„Þroskun fagurskyns, listhneigðar og hagleika, með kennslu í tónmennt, myndlist og handíðum.“ Það er nú ekkert annað.

f-lið stendur:

„Kennsla um efnisheiminn, um frumatriði líffræði, umhverfisfræði, eðlisfræði og efnafræði.“ Í g-lið stendur:

„Kennsla í erlendum tungumálum, og séu forsendur fyrir vali þeirra annars vegar að varðveita tengslin við uppruna þjóðarinnar og norræna menningu og hins vegar að opna Íslendingum leið til samskipta við sem flestar þjóðir.“

Þetta er bara einhvers konar ritgerð. Þetta er bara snakk. Það er verið að reyna að finna þarna falleg orð til að setja á pappír. En hvað ætli þeir menn, sem skrifuðu þessi orð, hafi ætlað að verja löngum tíma í það t.d. að kenna unglingunum frumatriði líffræði, umhverfisfræði, eðlisfræði og efnafræði? Hvað ætli hafi átt að fara langur námstími í það og á hvaða árum auk alls annars? Það væri gaman að sjá einhverja námsskrá um öll þessi ósköp. Auðvitað verður þessi upptalning þarna aldrei neitt annað en bara punt. Það getur vel verið, að þetta fari vel í einhverjum bæklingum og blöðum um það, hvað við Íslendingar stöndum vel að menntun og menningu unglinganna. En hins vegar, eins og frv. var lagt fram á Alþ., var ekki sérstakur liður um verklegt nám. Það var ekki. Það var varið í alls konar bóklegt nám einum, tveim, þrem, fjórum, fimm, sex, sjö, átta liðum, en undir ýmsum valgreinum átti loksins að koma verklega námið. Því var ekki gert hærra undir höfði en þetta.

Og þá er spurningin: Hversu margir Íslendingar skyldu nú í raun og veru vera bókhneigðir? Hvað skyldu það vera margir Íslendingar, sem sætu með bækur á kvöldin og hefðu yndi af því að kynna sér og lesa um þessi fræði? Og hversu margir menn skyldu hafa meira yndi af og vera hneigðari fyrir alls konar verkleg störf og verklega áreynslu og stunda slík störf? Ætli unglingarnir og börnin séu nokkuð öðruvísi en við hin að þessu leyti?

Hv. þm. Helgi Seljan, hv. 6. landsk. þm., var að slá sér upp á því með viðlíkum hætti og annar hv. þm. hér í vetur, að þeir hafa verið að tala um það, að þm. gerðu aldrei ærlegt handtak. Nú efast ég ekki um, að hann sé duglegur maður, og efast ekki um, að hann hefur gert meira að því um ævina en margur annar hér að gera eitthvað. Ég efast ekki um það. En þetta voru lítil rök í því máli, sem hann var að tala um, þar sem hann var að gera lítið úr því, að unglingar gætu haft gott af því að vinna með fullorðnu fólki, og var að tala um Mao í því sambandi. Það var tilgangurinn með þessu. En auðvitað voru þau orð, sem hann sagði í því efni, afskaplega léttvæg og ekki til að tala mikið um. — En ástæðan fyrir því, að ég er svo langorður um þetta og kem svo oft að þessum þætti um verklega námið, er sú, að þetta frv. er byggt upp með hliðsjón af því, að bóklega námið eigi að vera algjörlega ofan á í grunnskólanum. Það á allt að miðast við bóklega námið. Enda tók hv. 6. landsk, þm. sérstaklega fram í því sambandi, að maður yrði einnig að huga að öðru námi en háskólanáminu, það væri hugsanlegt. Þess vegna er það, að það verður að vísa þessu frv. heim til föðurhúsanna, að forsendan fyrir því er röng.

Menn eru mikið að tala um það, hvernig í ósköpunum standi á því, að fólk í strjálbýli skuli í minna mæli en aðrir ljúka prófum í 3. og 4, bekk gagnfræðaskóla. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. 6. landsk. þm., að allt og oft hefur það komið fyrir, að unglingar utan af landi hafi ekki átt kost á setu í heimavistarskólum, og stundum hefur það meira að segja komið fyrir á skólaskyldualdri, að nemendur hafi ekki átt kost á því að sækja nám, ef þeir hafa verið þannig búsettir. En hitt skiptir þarna líka miklu máli, höfuðmáli, og það er það, að unglingurinn, sem ætlar að leggja fyrir sig búskap, unglingurinn, sem ætlar að leggja fyrir sig sjósókn eins og faðir hans, verða formaður á bát eða eitthvað því um líkt, hann hefur ekkert að sækja í skólann. Skólinn vekur ekki áhuga hjá honum. Skólinn fæst ekki við þau daglegu viðfangsefni, sem verið er að fást við allt í kringum hann, í sjálfu lífinu.

Hún er fræg sú saga, sem sögð er af litla drengnum hans Skúla heitins Thoroddsens augnlæknis, þegar hann var spurður að því, hvað hann ætlaði að verða. Þá sagði hann: „Ætli maður verði ekki læknir, það er hvort sem er það eina, sem maður kann.“ Þannig langaði þennan dreng til að feta þann veg, sem faðir hans hafði gert. Eins er það um þá drengi, sem alast upp víða úti um landið, þá langar til þess að búa áfram á þessum stað og halda áfram þeirri uppbyggingu, sem hafin hefur verið af foreldrum, systkinum og frændum og öðrum héraðsbúum.

Við getum líka horft öðruvísi á þetta mál. Liggur nokkuð fyrir um það, að margur hver, sem sóst hefur eftir bóklega náminu, hafi orðið nokkuð hamingjusamari í þjóðfélaginu, og hefur honum nokkuð vegnað betur en kannske einhverjum öðrum, sem hefur sóst eftir því að fara annað og rækja önnur störf? Sú mikla vantrú, sem hefur verið hér á landi á hinu verklega, þarf að hverfa og það sem allra fyrst. Og þó að svo fari gegn von minni, að þetta frv. nái fram að ganga, þá mun reynslan áreiðanlega verða sú, að það mun koma fram krafa um það, að þessum lögum verði hreytt og það fyrr en síðar og skólarnir og skólastarfið byggt upp með hliðsjón af því fólki og af því lífi, sem er í landinu. Við eigum að geta byggt upp hér á landi miklu manneskjulegra og betra skólakerfi en hægt er í hinum stóru löndum, vegna þess að við erum hér miklu færri. Við þekkjum hvert annað. Þjóðfélagið er miklu viðráðanlegra, og þau mörgu samfélagslegu vandamál, sem stóru borgirnar og stóru löndin hafa við að glíma, eru hér í algjöru lágmarki. Því miður eru þau að byrja hér í Reykjavík, en það er rétt hverfandi hjá því, sem annars staðar er.

Hér segir:

„Við setningu námsskrár og skipulagningu námsefnis fyrir grunnskóla skal þess sérstaklega gætt, í samræmi við markmið skólans, sbr. 2. gr., að öllum nemendum séu gefin sem jöfnust tækifæri til náms, jafnframt því sem skólinn komi til móts við þá og viðurkenni mismunandi persónugerð, þroska og getu og áhugasvið nemenda.“

Við getum ekki komið til móts við þetta markmið nema með því að halda áfram og byrja aftur að reyna að byggja upp meira verklegt nám í skólunum en við höfum gert. Það er eina leiðin til þess að koma til móts við og viðurkenna þær mismunandi persónugerðir, sem eru í skólunum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð miklu fleiri. Ég hef nú talað miklu lengur en ég ætlaði mér, og má segja um þetta margt fleira. Ég harma það, að í Nd. skuli ekki hafa verið fallist á það að stytta nokkuð vinnutíma skólanemenda, sem er orðið mikið áhyggjuefni margra skólamanna, og ég harma einnig, að í grunnskóla og í því, sem hér er fjallað um það efni, skuli ekki vera fjallað sérstaklega um fyrirkomulag fullorðinsfræðslu, sem ég álít, að sé mjög nauðsynleg.