19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3794 í B-deild Alþingistíðinda. (3328)

284. mál, innflutningur og eldi sauðnauta

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Stjórn Búnaðarfélags Íslands ritaði landbn. bréf og sendi henni það frv., sem hér liggur fyrir, ásamt grg. og bað n. að flytja. Þetta mál var tekið fyrir á Búnaðarþingi 1972, og var gerð áskorun á löggjafarþingið að samþykkja heimildarlög þess efnis, að það mætti flytja inn sauðnaut til eldis hér á landi.

Þetta er ekkert nýtt mál. Það voru samþykkt lög hér á Alþingi 1929 um þetta efni, og þá voru gerðar tvær tilraunir um innflutning á sauðnautum. Hingað komu í ágústmánuði 1929 7 sauðnautskálfar, sem voru fluttir frá Austur-Grænlandi, og það tókst svo illa til, að 6 af þeim drápust fljótlega, og Hannes Jónsson dýralæknir taldi, að það hefði verið bráðapest, sem varð kálfunum að fjörtjóni. Einn kálfurinn lifði fram á síðari hluta vetrar, en drapst þá, að talið var úr sullaveiki.

Árið eftir, í nóvembermánuði 1930, voru fluttir inn 7 kálfar frá Noregi, 5 af þeim voru á vegum hins opinbera, en 2 voru keyptir af einstaklingum. 5 kálfarnir voru fluttir eins og hinir fyrri að Gunnarsholti, en hinir 2 voru fluttir að Stóru-Drageyri í Skorradal. Annar þeirra kálfa, sem þangað fóru, drapst af slysförum, en hinn var þá fluttur að Gunnarsholti, og þar drápust allir kálfarnir sumarið eftir. Ekki liggur ljóst fyrir, hvað varð þessum kálfum að fjörtjóni, því að þeir voru allir bólusettir við bráðapest, enda kom í ljós, að það var annað, sem varð þeim að fjörtjóni. Dýralæknar telja nú, að það hafi verið einhvers konar ormaveiki, og telja að a.m.k. nú hefði verið hægt að bjarga þessum kálfum öllum.

Á undanförnum árum hafa margir áhugamenn þrýst á bæði Búnaðarþing og aðra að hrinda nú þessari hugmynd fram aftur að gera tilraun til að flytja sauðnaut hingað til lands. Sumum hefur dottið í hug, að það væri mjög gott að hafa þá t.d. á Vestfjörðum, í Norður-Ísafjarðarsýslu, aðrir hafa bent á önnur landsvæði, sem mundu vera ákjósanlegur staður fyrir þessar skepnur. Ef ætti að sleppa þessum dýrum lausum, yrðu náttúrlega litlar nytjar af þeim, en ullin er talin ákaflega verðmæt. Það er sagt í þeim gögnum, sem mér hafa verið send, að í Noregi fáist um 700 kr. norskar, milli 9 og 10 þús. ísl. kr., fyrir kílóið. Í Bandaríkjunum er talið, að ullarkílóið kosti um 100 dollara, sem er líkt. Talið er, að af fullorðnum tarfi fáist tæp 3 kg af ull á ári hverju eða 2.7 kg, eitthvað minna af yngri dýrum og kúnum.

Það er líka ráðgáta og verður að sýna sig, hvort þessi dýr taka í sig velki úr okkar búpeningi, og ef það reynist svo, þá verður náttúrlega ekki hægt að sleppa þeim lausum, heldur hafa þessi dýr sem hálfvilltar hjarðir í afmörkuðum girðingum. Þannig eru rekin bú bæði í Bandaríkjunum, Kanada, Alaska og Norður-Noregi.

Það er komin reynsla af því að flytja þessi dýr og sleppa þeim lausum. Norðmenn gerðu það. Þeir slepptu þeim í Dofrafjöllum rétt sunnan við Þrándheim, og mér er tjáð, að sú tilraun hafi gefist vel. Það voru líka flutt dýr til Vestur-Grænlands frá Austur-Grænlandi, í námunda við Straumfjörð, og þar hafa þau dafnað mjög vel. Þau eru stærri og virðast dafna þar enn þá betur en í Norðaustur-Grænlandi, þannig að skilyrðin virðast vera þar betri. Menn marka það líka á því, að kýrnar eiga þar miklu frekar tvo kálfa heldur en norður frá.

Ég vil vekja athygli á því, að hér er aðeins um að ræða heimildarlög, þar sem landbrh. er gefin heimild til að veita Búnaðarfélagi Íslands leyfi til að flytja sauðnaut til landsins með þeim skilyrðum, sem eru svo sett í þessum lögum. Það þarf að fá leyfi danskra yfirvalda og íslenskra og leyfi yfirdýralæknis, og að þessum leyfum fengnum er mér tjáð, að það séu áhugamannafélög, sem muni vera tilbúin til að leggja fram verulegt fjármagn til að gera slíka tilraun. Mörgum hefur dottið í hug að byrja með að setja dýrin einhvers staðar í ey, t.d. í Flatey á Skjálfanda eða Grímsey, meðan er verið að athuga um, hvort einhverjir sjúkdómar eru með dýrunum, og enn fremur að setja þau þar með íslensku búfé til þess að sjá, hvort íslenskt búfé smitast af þessum dýrum og svo öfugt. Fleiri staðir hafa verið nefndir, en það verða sérfræðingar og yfirdýralæknir að fjalla um, ef Alþingi verður við þessari beiðni stjórnar Búnaðarfélagsins og áskorun Búnaðarþings um að samþ. þessi lög.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar við þessa umr., en þegar hv. landbn. varð við því að flytja þetta frv., var þess óskað, að n. fengi frv. aftur til athugunar, og óska ég því eftir að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og landbn.