23.04.1974
Sameinað þing: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3855 í B-deild Alþingistíðinda. (3386)

423. mál, veiting prófessorsembættis við læknadeild Háskóla Íslands

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 631 leyft mér að beina eftirfarandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

„Hvenær má vænta þess, að veitt verði prófessorsembætti í handlækningafræðum við læknadeild Háskóla Íslands, er auglýst var laust til umsóknar á árinu 1973?“

Í jan. 1973 lést prófessor Snorri Hallgrímsson, eftir að hafa með landsþekktum ágætum gegnt þýðingarmiklum embættum, þ.e. prófessorsembætti í handlækningafræðum við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknisstöðu við handlækningadeild Landsspítalans. Öllum landslýð er kunn hin sérstæða hæfni prófessors Snorra heitins í starfi, og á það bæði við um lækningar hans og kennslu. Svo einkennilega var að farið, að þau embætti, er losnuðu við fráfall hans, voru ekki auglýst laus til umsóknar fyrr en hálfu ári eftir að hann lést. Þau voru auglýst 17. júlí 1973, og umsóknarfrestur rann út 18. ágúst sama ár. Síðan umsóknarfresturinn rann út eru um 8 mánuðir. 4–5 sóttu um þessi embætti, en enn þá hefur embættið ekki verið veitt, og þeim, sem ekki þekkja til, kynni að finnast, að hér gæti varla verið um veigamikið embætti að ræða, þar sem ekki er skipað í það innan venjulegs tíma. En ólíklegt er, að það sé ekki óheppilegt, bæði fyrir háskólann og Landsspítalann, að ákvörðun í þessu efni dregst svo mjög. Þess vegna er spurt, hvenær vænta megi veitingar.