30.04.1974
Neðri deild: 115. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4022 í B-deild Alþingistíðinda. (3647)

335. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Undanfarnar vikur hafa staðið yfir samningar á milli ríkisins annars vegar og starfsmanna ríkisins hins vegar út af röðun í launaflokka, og er það allmikið verk, svo sem kunnugt er þeim, sem til þekkja. Nokkur veikindi hafa tafið það verk. M.a. veiktist formaður samninganefndarinnar og deildarstjórinn í launamáladeildinni, en á þeim hafa samningar mest hvílt.

Seint í gær komu að máli við mig formaður BSRB og framkvæmdastjóri Bandalagsins og óskuðu eftir því, að ég flytti hér frv. til breyt. á l. nr. 46 1973, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og efni þess frv. yrði það, að heimild yrði gefin til þess að fresta málsskoti til Kjaradóms til 15. maí n.k., þar sem þeir töldu, að verulegar líkur eru fyrir því, og mér er kunnugt um það, að vaxandi líkur eru fyrir því, að samningar náist í verulegum atriðum, þó að undantekningar kunni að verða einhverjar.

Mér tókst að ná í formenn stjórnarandstöðuflokkanna og ræða við þá að koma þessu frv. hér í gegn í dag, því að gildistaka þess þarf að verða fyrir miðnætti, til þess að málið gangi ekki sjálfkrafa til Kjaradóms. Það kom fram í samþykkt Sjálfstfl., að þeir óskuðu eftir því, að tími sá, sem Kjaradómur hefði málið til meðferðar, yrði þá styttur, til þess að málið tefðist ekki, að ég skildi á þann veg, að ríkisstarfsmenn fengju sínar launagreiðslur jafnsnemma, hvort sem málið gengi til Kjaradóms 1. maí eða 15. maí. Þetta sagðist ég skyldi athuga og gerði þegar í morgun, og að mati þeirra, sem best þekktu, var talið, að kleift væri að stytta þetta um 5 daga og það mundi nægja til þess, að launadeildin hefði tíma til að klára sín verk, þannig að laun kæmu til útborgunar jafnt eftir sem áður, þó að málið færi ekki til Kjaradóms fyrr en 15. maí.

Ég verð vegna þess, hve þetta er síðbært, að fara fram á það víð hv. d., að þetta mál megi afgreiða án þess að fara til n., enda er breyt. ekki fólgin í öðru en því að segja: „Við gerð sérkjarasamninga 1974 skal heimilt eftir ósk aðila að fresta málsskoti til Kjaradóms til 15. maí 1974. Jafnframt framlengist frestur Kjaradóms til dómsuppkvaðningar til 10. júlí 1974.“

Ég verð, eins og ég sagði, að biðja hv. d. að afgreiða þetta mál án þess að vísa því til n., enda efnisatriði veigalítil, enda þótt þau hafi sitt gildi, og taka málið fyrir á þrem fundum nú í hv. d. Þetta var gert í hv. Ed., og ég vona að það megi einnig takast í þessari hv. d., því að það er áhugi minn og þeirra, sem að þessum samningum standa, að við sem flesta verði hægt að semja, svo að til dóms þurfi ekki að fara. Og frv., þótt samþykkt verði, kemur ekki heldur í veg fyrir það, að þeir geti, látið sín mál ganga til Kjaradóms, ef þeir óska þess.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr.