18.10.1973
Sameinað þing: 4. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Hlustendur góðir. Umr. þessar fara fram eftir ákvæðum þingskapa Alþ., og er gert ráð fyrir, að þær snúist um stefnuræðu, sem forsrh. semur fyrir fram og lætur útbýta í trúnaði meðal þingheims í upphafi þinghalds. Verður ekki unnt að taka til meðferðar nýjustu viðhorf í landhelgismálinu, sem um er fjallað sem trúnaðarmál í þingflokkum þessa stundina. Stofnanir míns flokks hafa ekki enn gert niðurstöðu um för forsrh. til London full skil. Ég vil ítreka meginsjónarmið okkar í málinn. Einróma stefnumörkun að leita bráðabirgðasamkomulags við ríki, sem vefengja rétt okkar til tilfærslu fiskveiðilögsögunnar, helgast af íslenskum hagsmunum í bráð og lengd og engu öðru. Við færum út landhelgina jöfnum höndum til þess að afstýra ofveiði á fiskistofnum, sem framtíð þjóðarinnar byggist á, og til að auka hlutdeild okkar sjálfra í afla á Íslandsmiðum.

Gagnvart þeim tveim ríkjum, sem bjóða útfærslu okkar beinlínis byrginn, þarf tvenns að gæta í senn: að fyrirgera í engu rétti okkar og aðstöðu til að hagnýta víðtækustu heimildir um efnahagslögsögu strandríkja, en hamla sem mest ágangi erlendu veiðiflotanna á fiskistofnana á Íslandsmiðum, meðan þeir fást ekki til að lúta útfærslu íslenskrar lögsögu. Landhelgisgæsla okkar megnar að torvelda heimildarlausar veiðar að vissu marki. En sé unnt að draga enn meira úr sókn hinna erlendu veiðiskipa með bráðabirgðasamkomulagi, sem ekki skerðir rétt okkar, ber hiklaust að velja þann kost. Við færum út landhelgina til að sjá borgið fiskveiðihagsmunum okkar sjálfra í bráð og lengd, ekki í því skyni að troða illsakir við einn né neinn degi lengur en nauðsyn ber til. Og það er mörkuð stefna okkar í fiskveiðum, að verndun fiskistofnana til frambúðar sé æðra sjónarmið en aflavon á líðandi stund.

Í landhelgismálinu má hvorki flokksleg bragðvísi né metingur blinda menn, svo að þeir kunni sér ekki hóf í málflutningi.

Ekki á þetta síður við um hitt stórmálið í skiptum við aðrar þjóðir, sem nú eru á döfinni, endurskoðun svonefnds varnarsamnings við Bandaríkin. Raun er að sjá þau niðskrif, sem dag eftir dag fylla dálka aðalmálgagns annars stjórnarandstöðuflokksins um utanrrh., hann mann, sem fengið hefur það hlutverk að framfylgja efnisbætti, sem var sameiginlegur annars ólíkri stefnu íslenskra stjórnmálaflokka á árinu 1949, þegar um það var deilt, hvort ganga skyldi í NATO eða ekki, en allir, sem að aðildinni stóðu, lýstu yfir, að viðurkenndur væri sá skilmáli Íslendinga, að erlendur her skyldi ekki dvelja í landinu á friðartímum.

Tillöguflutningur Alþfl. á síðasta þingi og aftur á hví þingi, sem nú er nýhafið, ber með sér, að mikill meiri hluti þingheims á sammerkt um að telja tímabært að taka til gagngerðrar endurskoðunar í samræmi við stefnumótunina frá 1949 það ástand, sem ríkt hefur frá 1951, þegar bandarískt lið settist öðru sinni að á Keflavíkurflugvelli. Síðustu daga er því slegið fram, að ekki séu nú friðartímar við Miðjarðarhafsbotn. Mikið rétt. En sama máli gegndi á útmánuðum 1949 og ekki bara á vígvöllum í Palestínu, heldur einnig í Indó-kína, Indónesíu, Malakkaskaga, Kasmír og víðar, þar sem nýlenduveldin byltust þá í fjörbrotum. Enginn Íslendingur heyrðist þá halda því fram, að þau vopnaviðskipti krefðust hersetu í landinu.

Vík ég þá máli mínu að viðfangsefnum á innlendum vettvangi.

Í menntamálum er það stefna ríkisstj. að búa svo um hnúta, að menntunaraðstaða sé sem jöfnust. Annars vegar þarf að haga skyldunámi svo, að unglingarnir, sem yfirgefa skyldunámsskólana, hafi notið sambærilegrar fræðslu, hvort sem þeir eru búsettir í strjálbýli eða þéttbýli. Hina vegar þarf að jafna svo metin, að búseta eða efnahagur verði þeim ekki fjötur um fót, sem fýsir að stunda framhaldsnám og hljóta sérmenntun. Síðast, en ekki síst er áríðandi, að mismunandi námsbrautum innan skólakerfisins sé gert jafnhátt undir höfði hvað allan aðbúnað snertir og tillit tekið til mismunandi þarfa hvers sérsviðs.

Frv. um grunnskóla og skólakerfi voru endurskoðuð á síðasta ári með sérstakri hliðsjón af því, að uppvaxandi kynslóð um land allt sitji við sama borð í fræðslumálum. Ekki urðu þessi mál útrædd á síðasta þingi, en hafa nú verið borin fram á ný, og verður lögð á það áhersla, að þau hljóti afgreiðslu.

Fjárframlög til jöfnunar námsaðstöðu í þágu þeirra, sem sækja verða framhaldsnám út fyrir heimabyggð sína, og til námslána hafa margfaldast, síðan núverandi stjórn tók við. Þeim mun mikilvægara er, að námsaðstoðin komi að tilætluðum notum og skiptast milli námmanna í samræmi við raunverulegar þarfir. Í því skyni að tryggja það hafa lög um námslánakerfið verið endurskoðuð, og verður frv. um nýtt og markvissara lánakerfi borið fram á næstunni.

Síðasta þing setti lög um fjölbrautarskóla, sem er nýmæli. Er þar um að ræða mismunandi framhaldsnámsbrautir innan einnar og sömu skólastofnunar. Fylgja þessu fyrirkomulagi margir kostir. Nemendur geta færst greiðlega milli námsbrauta, tekið þær í áföngum og valið saman námsþætti, allt eftir þeim markmiðum, sem hver og einn stefnir að. Sömuleiðis geta menn komið inn í nám á ýmsum stigum, og fellur fullorðinnafræðsla mjög vel að fjölbrautaskólafyrirkomulagi. Sérhæfðir kennslukraftar, kennslutæki og námsaðstaða nýtist hvergi betur en í fjölbrautaskóla. Einn höfuðkostur fjölbrautaskóla er, að þeir geta starfað með góðum árangri á stöðum, þar sem ella væri torvelt að koma við framhaldsmenntun vegna strjálbýlis. Skólastofnanir, sem standa dreift um tiltekinn landshluta, geta haglega myndað í sameiningu fjölbrautaskóla og þannig uppfyllt miklu fjölbreyttari fræðsluþarfir en ef hver ætti að starfa út af fyrir sig. Mesti ágalli fræðslukerfis okkar hefur verið og er, hversu verklegu námi er gert lægra undir höfði en bóklegu. Með fjölbrautaskólum skapast skilyrði til að koma hvoru tveggja náminu fyrir í sömu skólastofnunum á fyllsta jafnréttisgrundvelli.

Nefnd vinnur nú að endurskoðun löggjafar um iðnfræðslu.

Því má aldrei gleyma, að til þess að fé, sem varið er til fræðslumála, komi að sem fyllstum notum, þarf fræðslukerfið að vera samfellt og sjálfu sér samkvæmt.

Skattheimta hlýtur að vera tilfinnanleg af ríflegum tekjum í þjóðfélagi, þar sem ætlast er til, að opinberir aðilar haldi uppi alhliða þjónustu við þegnana á nútímavísu, og skylt þykir að sjá þeim sómasamlega farborða, sem ekki eru færir um að bjarga sér sjálfir. Sé skattheimta hér á landi borin saman við það, sem gerist með þjóðum á svipuðu lífskjarastigi, kemur í ljós, að skattbyrði Íslendinga er mun minni en til að mynda Norðurlandaþjóða og annarra nágrannaþjóða okkar í Vestur-Evrópu. Bæði er skattgjald lægri hluti af þjóðartekjum hér á landi en í öðrum og þar að auki eru beinir skattar einstaklinga minni hluti af heildarskattheimtunni hér en með nágrannaþjóðunum. Hvað sem hver segir, mun reyndin verða sú, að ekki er unnt að draga úr skattheimtunni í heild nema skerða um leið opinbera þjónustu eða draga úr ráðstöfunum til tekjujöfnunar. Annað mál er, að í þjóðfélagi eins og okkar, þar sem atvinnuþróun er ör og kjaramunur er tiltölulega lítill, er mjög hætt við, að flókið og margbrotið skattkerfi valdi mismunun í niðurjöfnun opinberra gjalda. Enginn vafi er á, að íslenska skattkerfið er flókið úr hófi fram, og ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að ríkjandi reglur um frádrátt ýmiss konar frá skattskyldum tekjum valda mestu um óréttmæta mismunun í skattheimtu.

Fyrsta skref núv. ríkisstj. til réttlátari skattheimtu var að afnema nefskatta. Varð það til þess, að skattbyrði lækkaði eða beinni skattheimtu var aflétt á lágtekjum, en hækkun varð á hærri tekjum. Nú er tími til kominn að stíga næsta skref og loka þeim leiðum, sem leyft hafa sumum að sleppa undan skatti verulegum fúlgum af tekjum sinum með þeim afleiðingum, að aðrir, sem ekki eiga kost á hliðstæðum frádrætti, bera þeim mun þyngri skatta. Ekki dettur mér í hug, að slík breyting gangi hljóðalaust, því að ýmsir eiga sérhagsmuni að verja, en í skattamálum verða heildarhagsmunir að sitja í fyrirrúmi.

Enginn verður með orðum veginn, ekki einu sinni ríkisstj. Þær standa eða falla með verkum sinum, en lifa hvorki á skjalli vina né farast fyrir bölmóði andstæðinga. Ekki gekk lítið á í fyrravetur, þegar horfið var frá því ráði eftir bestu manna yfirsýn að lækka gengi krónunnar nokkuð. Með þeirri ráðstöfun tókst að yfirstíga tímabundna erfiðleika, en jafnframt var mörkuð ný stefna um meðferð gengismála, tekið upp sveigjanlegt gengi í stað rígskorðunar og kollsteypu á víxl. Þótt ekki sé ár liðið síðan breytt var um stefnu, mun vandfundinn maður, sem ber brigður á, að sú breyting, sveigjanleg gengisstefna, hafi þegar staðist dóm reynslunnar. Gengishækkun hefur átt sér stað, ekki einu sinni, heldur nokkrum sinnum, í fyrsta sinn í hálfa öld. Gengi krónunnar gagnvart dollar og sterlingspundi er nú mun hærra en þegar núv. ríkisstj. var mynduð. Innflutningur framleiðslutækja hefur aldrei verið meiri og þó er gjaldeyrisvarasjóðurinn öflugri en nokkru sinni fyrr.

Ég læt öðrum eftir að bítast um, hvað af því, sem vel hefur tekist eða miður, sé ríkisstj. að þakka eða þá að kenna, ellegar sprottið af atvikum, sem hún fær engu um ráðið. Á hitt þykir mér þörf að benda, að einhver umdeildasta ráðstöfun ríkisstj. hefur reynst ein hin affarasælasta. Stjórnmálamaður, sem vill standa í stöðu sinni, má ekki vera uppnæmur fyrir dagdómum, heldur ætti hann að tileinka sér gamlar formannsreglur. Það skal fram, sem horfir, meðan rétt horfir. — Þökk þeim, sem hlýddu.