03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4133 í B-deild Alþingistíðinda. (3731)

291. mál, almannatryggingar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins að það komi fram við þessar umr., að þótt frv., sem hér liggur fyrir, sé til bóta, hefur því miður farið svo í sambandi við þessa endurskoðun almannatryggingalaganna, að sú n., sem stóð að þessu frv., hefur ekki treyst sér til að taka inn í frv., að sjúkrasamlag greiddi ferðakostnað þess fólks, sem leita þarf sérfræðingsaðstoðar til Reykjavíkur. Oft er það svo, að þar er um að ræða ítrekaðar ferðir og stundum jafnvel svo að mánuðum skiptir, þannig, að þessi ferðakostnaður hefur komið mjög þungt niður í sumum tilfellum. Ég geri mér grein fyrir því, að hér er áreiðanlega um verulegar fjárhæðir að ræða. Ég geri mér einnig grein fyrir því, að það geti boðið heim misnotkun að taka upp reglur í þessa átt. En eigi að siður vildi ég, að það kæmi fram við þessa umr., að ég tel nauðsynlegt, að áfram verði að því hugað, hvort ekki sé hægt með einhverjum hætti að finna þá hlið á þessu máli, að það fullnægði þeim sjúklingum, sem oftast og tíðast þurfa að leita slíkrar sérfræðingsaðstoðar til Reykjavíkur utan af landi.

Erindi mitt í ræðustólinn var ekki annað en að vekja athygli á þessu og koma því á framfæri, að þarna er enn óuppfyllt mikið skarð í almannatryggingalögunum, sem kemur mjög illa niður á fólki, sem ekki er efnamikið.