07.05.1974
Neðri deild: 121. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4256 í B-deild Alþingistíðinda. (3844)

272. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á síðasta þingi voru afgr. lög nr. 23 frá 17. apríl 1973, en þegar það frv., sem þá varð að lögum var til meðferðar hér í hv. d. og fór til allshn., var það einróma samþykkt í viðkomandi n. að bæta við það frv. svofelldu ákvæði til bráðabirgða:

„Réttarfarsnefnd skal falið að endurskoða réttarstöðu fulltrúa saksóknara ríkisins með hliðsjón af réttarstöðu og lögkjörum hliðstæðra ríkisstarfsmanna og ljúka endurskoðuninni það tímanlega, að unnt verði að leggja fram frv. um það efni í byrjun næsta þings.“

Þetta ákvæði til bráðabirgða var samþykkt og varð að lögum, eins og fyrr segir. Í framhaldi af þessu lagaákvæði var lagt fram frv. það, sem hér um ræðir og hefur fengið meðferð í hv. Ed. Af skiljanlegum ástæðum er allshn. því fyllilega sammála þessu frv. N. hefur farið yfir frv. og hefur ekkert við það að athuga eins og það liggur fyrir eftir meðferðina í Ed.