08.05.1974
Neðri deild: 128. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4352 í B-deild Alþingistíðinda. (3986)

Umræður utan dagskrár

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég hef frá skóladögum oft heyrt um véfréttina í Delfí og svörin þaðan, sem mátti túlka og skilja á marga vegu. Ég held, að svar hæstv. forseta Sþ. hafi verið nokkuð í ætt við véfrétt frá Delfí, því að engu erum við nær um það, hvað hann ætlast fyrir, heldur ætlar hann að tilkynna það á fundi Sþ. Ef svar hans verður þá neitandi, gefst væntanlega ekki tækifæri til þess að ræða það mál, því að hann mun þá veita hæstv. forsrh. þegar í stað orðið til að rjúfa þing, og eftir að hann hefur lesið boðskap sinn um þingrof með samþykki forseta Íslands, er þing þar með rofið og frekari umr. útilokaðar. Ég hefði því ætlast til þess af jafnskýrum manni, sem á jafnauðvelt með að kveða skýrt að orði og hæstv. forseti Sþ., að hann segi okkur hér skýrt og skorinort, hvað hann ætlast fyrir, og það með, að ef hann ætlar að virða að vettugi áskorun meiri hl. þings og neita að taka vantrauststill. á dagskrá, þá leyfi hann á þeim fundi Sþ., eins og venja er til, umr. utan dagskrár.