12.11.1973
Sameinað þing: 17. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

92. mál, bráðabirgðasamkomulag við Bretland um veiðar breskra togara

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Í dag og í kvöld eða réttara sagt í gær, því að nýr dagur er nú að renna upp, hefur átt sér stað hér á hinu háa Alþ. mikið orðaskak, ef ég má nota það orð, um ýmis atriði, þó aðallega aukaatriði, hefur mér fundist, þess máls, sem hér er á dagskrá. Menn hafa reynt að koma höggi á hvor annars flokk í sambandi við meðferð landhelgismálsins á liðnum árum. Menn hafa leitast við að sýna fram á, hversu illa eða vel eftir atvikum hefur verið haldið á landhelgismálinu á þessu kjörtímabili eða árið 1961, allt eftir því, hver talað hefur í það og það skiptið. Ég er ekki kominn hér í ræðustól til þess að taka þátt í þessu karpi við þetta tækifæri, enda búið að segja flest, sem segja þarf um þessi efni hér í kvöld, heldur til að gera grein fyrir afstöðu minni til þeirrar þáltill., sem hér er til afgreiðslu, í örstuttu máli.

Það hefur komið hér berlega fram, að fjarri fer því, að hv. alþm. séu allir alls kostar ánægðir með það samkomulag, sem hæstv. forsrh. Ólafur Jóhannesson og forsrh. Breta gerðu og hér er óskað eftir, að Alþ. heimili ríkisstj. að staðfesta. Hér hafa verið rakin ýmis atriði, sem mæla gegn því, að slíkt samkomulag verði gert, út frá sjónarmiðum okkar Íslendinga. Ég get tekið undir margt af því, sem um þá hlið málsins hefur verið sagt. Mér finnst t. d. ákaflega erfitt að una því, að aðeins 1 af hinum 6 hólfum, sem svæðunum milli 12 og 50 mílna er skipt í, skuli lokað samtímis því, að hin 5 eru opin. Þá er ég ákaflega óánægður með þau tímabil sem svæðin eru ýmist lokuð eða opin, og alveg sérstaklega get ég illa sætt mig við, að fiskimiðin á 12–50 mílna svæðinu úti fyrir Suðvesturlandi skuli vera opin erlendum togurum yfir vetrarvertíðarmánuðina. Þá vil ég leggja ríka áherslu á nauðsyn þess, að Íslendingar gætu haldið fullum rétti til að auka friðlýsingu veiðisvæða. Ýmislegt fleira hefði mátt betur fara í þessu samkomulagi að mínum dómi, en fleira skal ekki upp talið.

Á hinn bóginn hefur komið greinilega fram hér í umr. hjá ýmsum ræðumönnum, að þótt vissulega hefði verið æskilegt, að ýmis atriði í samkomulaginu væru okkur hagstæðari en raun er á, þá sé það, sem mælir með því, að samkomulagið verði gert, þyngra á metaskálunum en hitt, sem því er andstætt. Ég er í hópi þeirra, sem eru þeirrar skoðunar. Málið hefur þannig verið lagt fyrir hér, að verði ekki samkomulag á þeim grundvelli, sem fyrir liggur, blasir við, að Bretar muni halda áfram veiðum innan 50 mílna markanna, kannske undir herskipavernd og að öðru leyti með svipuðum hætti og átt hefur sér stað. Mannslífum yrði þá áfram stofnað í hættu og skerðing fiskstofna yrði áfram lík og verið hefur og miklu meiri en verður, ef samkomulagið nær staðfestingu, ef að líkum lætur. En með því er, eins og kunnugt er, m. a. tryggt, að breskum togurum er haldið frá mikilvægustu uppeldisstöðvunum vissan tíma á ári. Það er svo mikilvægt að mínum dómi, að takast megi að semja frið við Breta í því hættulega og óæskilega stríði, sem við höfum átt í við þessa gömlu viðskiptaþjóð okkar, að ég vil fyrir mitt leyti fallast á þær óæskilegu ívilnanir þeim til handa innan 50 mílnanna til tveggja ára, sem samkomulagið gerir ráð fyrir, þó að ég eigi erfitt með að kyngja ýmsu af því, sem það gerir ráð fyrir Bretum til handa.

Deila má endalaust um það, hvort betri samningum við Breta hefði verið náð, ef öðruvísi hefði verið staðið að samningamálunum en hæstv. ríkisstj. hefur gert. Ég mun láta það liggja á milli hluta að svo komnu máli. En því er ekki að leyna, og það hefur raunar komið fram í þessum um., að það er skoðun margra, að skjótari og hagstæðari lausn þessa máls hefði fengist fram, ef staðið hefði verið að samningaviðræðunum við Breta í landhelgismálinu á annan veg en raun hefur á orðið, allt frá því að landhelgin var færð út í 50 mílur.

Kjarni þessa máls í mínum huga, eins og það liggur nú fyrir, er sá, að um áframhaldandi stríð er að ræða um ófyrirsjáanlegan tíma með öllum þeim hættulegu afleiðingum, sem því eru samfara, ef ekki verður gengið frá þessu samkomulagi, sem hér er til umræðu. Hins vegar getum við nú samið frið á þeim grundvelli, sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Hagsmunum Íslands er betur borgið með slíkum friði en vera mundi, ef deilan héldi áfram. Þess vegna greiði ég þáltill: atkv. mitt, þótt ég sjái mikla annmarka á samkomulaginu.