14.11.1973
Efri deild: 18. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

97. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég er satt að segja hálfhissa á því, að sá misskilningur, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, skuli enn þá skjóta hér upp kollinum eftir allar þær umr., sem fram hafa farið um þetta mál, og eftir allar þær skýringar, sem hafa verið gefnar á þessu máli. Það er alger misskilningur hjá honum, að dómsmrn. þurfi að bíða eftir því með sína ákvörðun, að það liggi fyrir eitthvað frá þessu breska aðstoðarskipi, sem kallað hefur verið til. Það er alger misskilningur, að það sé skilyrði fyrir leyfissviptingu, að hann sé sekur fundinn af háðum þessum aðilum. Það er landhelgisgæslan, sem sker úr því, hvort hún telur hann sekan, hún sendir gögn sín til dómsmrn., þarf ekki að hafa þann hátt á, sem venjulega er nú á hafður, að hún leggur fram kæru fyrir dómi og þeir verða að staðfesta hana þar, eftir atvikum með eiði. Fyrir slíku er hér ekki gert ráð. Það stendur ekki í samkomulaginu, að breska aðstoðarskipið sé kallað til til þess að sannreyna, hvort hlutaðeigandi skip sé sekt. Það er kallað aðeins til, til þess að sannreyna málsatvik, til þess að gefa því kost á að sjá og vita, hvað þarna er um að ræða. Það getur ekki á neinn hátt komið í veg fyrir það, að dómsmrn. svipti skipið leyfi, þótt svo færi, að það sé á annarri skoðun, t. d. um staðarákvörðun, heldur en íslenska varðskipið. Það er því úrskurður varðskipsins, sem hér ræður. Og það er ekki fyrir hendi önnur leið en sú, sem hv. þm. taldi þá eðlilegu leið, ef breska skipið er óánægt eða telur sig rangindum beitt, að leita á eftir réttar síns efir diplómatískum leiðum, eða þá ef það vildi leita réttar síns fyrir íslenskum dómstólum, þá er það sjálfsagt heimilt. Ég held, að þessar yfirlýsingar mínar um þetta séu alveg skýrar og ótvíræðar, og ég vænti þess, að með þeim hafi ég fjarlægt úr huga hv. síðasta ræðumanns þær aths., sem hann gerði og ég tel, að hafi byggst á því, að hann hefur ekki áttað sig á því, hvernig þetta hefur verið hugsað. Þannig á þetta að vera, og þannig verður þetta framkvæmt, á meðan ég er dómsmrh. a. m. k., það er mér óhætt að segja.