15.11.1973
Neðri deild: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni, hefur verið samið af sérstakri þingmannanefnd, fiskveiðilaganefnd, sem kölluð hefur verið. Frv. þetta er í öllum aðalatriðum shlj. frv., sem lagt var fram á síðasta þingi og einnig var samið af fiskveiðilaganefnd, en þá vannst ekki tími til þess að afgreiða málið hér á hv. Alþ. Þá var málinu fylgt úr hlaði af formanni fiskveiðilaganefndar, hv. þm. Gils Guðmundssyni, og allmiklar umr. urðu þá um málið hér í Nd. Alþ.

Eins og fram kemur í grg. þessa frv., þá er hér að þessu sinni flutt svo til shlj. frv. hinu fyrra frv., en þó gerðar nokkrar minni háttar breytingar, sem sérstök grein er gerð fyrir í grg. frv., en segja má, að þær breytingar séu ekki mjög veigamiklar eða breyti ekki á neinn hátt um meginstefnuna í því frv., sem hér var til umr. á síðasta þingi.

Fiskveiðilaganefndin hefur, eins og öllum hv. þm, er kunnugt, starfað alllengi að gerð þessa frv. Í n. voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþ. eða nánar tiltekið Gils Guðmundsson, formaður, Guðlaugur Gíslason, fyrri hlutann af starfi n. Ingvar Gíslason og síðan tók við af honum Steingrímur Hermannsson, Jón Árm. Héðinsson og Karvel Pálmason. Þessi n. byrjaði að vinna að þessu máli strax í okt. 1971, en hún komst þá að raun um, að undirbúningur málsins yrði svo tímafrekur, að óhjákvæmilegt yrði að framlengja þær veiðiheimildir, sem þá voru í l., en áttu að falla úr gildi um næstu áramót. Það varð síðan að ráði að framlengja eldri ákvæði um togveiðiheimildir í fiskveiðilandhelginni til ársloka 1972, þannig að n. fengi nægan tíma til sinna starfa. Á árinu 1972 vann n. síðan allmikið starf. Eins og hefur komið fram í umr. á Alþ., ferðuðust nm. til margra staða á landinu, héldu marga almenna fundi um málið, ræddu við ýmis félagssamtök eða forustumenn þeirra, og allítarlega var einnig rætt við flestalla þm., svo að það er enginn vafi á því, að mál þetta hefur verið undirbúið allvel og rækilega og lögð í þann undirbúning óvenjumikil vinna. En þrátt fyrir allan þennan mikla undirbúning fór svo, eins og allir hv. þm. muna, að það þótti ekki fært að ganga frá l. um málið á s. l. vori, vegna þess að ýmsir þm. óskuðu eftir því að fá málinu enn frestað til frekari athugunar og samþykktir bárust úr ýmsum landshlutum, þar sem óskað var eftir því, að þeim gæfist frekari tími til að skoða málið í þeim búningi, sem það lá orðið fyrir, þegar frv. hafði verið flutt um málið á Alþ.

Nú stendur svo á, að það þarf í rauninni að ljúka lagasetningu um þetta mál fyrir næstu áramót, því að það eru næstu tímamörk. Þá renna út gildandi lagaákvæði varðandi þetta efni. Það er því ekki of langur tími til starfa til þess að ljúka þessu verkefni fyrir þennan tíma, því að hér er um slíkt mál að ræða, að það er eðlilegt, að þm. vilji hafa fullan tíma til að skoða málið og ræða það sín á milli, og eðlilega þurfa nú n. þær, sem fjalla um málið af þingsins hálfu, að hafa einnig tækifæri til að kalla fyrir sig ýmsa aðila og ræða við þá. En það verður að gera ráð fyrir því, að þegar hafi bæði þm. og þeir aðilar í þjóðfélaginu, sem þetta mál varðar alveg sérstaklega, haft alllangan tíma til að kynna sér málið, og því ætti að vera hægt að afgreiða málið á þingi fyrir áramót.

Ég tel í rauninni ekki þörf á að ræða hér í ítarlegu máli um efni þessa frv., því að það er búið að tala hér fyrir frv. áður á Alþ., eins og ég hef sagt, en vil þó segja það, að meginstefnan í þessu frv. er sú, að gert er ráð fyrir allmiklu minni heimildum til togveiða í fiskveiðilandhelginni en verið hefur til þessa. Þær heimildir, sem veittar hafa verið, eru nú þrengdar til muna. Enn er haldið áfram þeirri stefnu að skipa veiðiflotanum í þrjá stærðarhópa. Fyrst eru fiskibátar undir 105 rúmlestum að stærð. Veiðiheimildum þeirra er ekki breytt mikið frá gildandi reglum, en þó eru þær veiðiheimildir þrengdar talsvert, m. a. tekin upp sú regla að heimila slíkum bátum hvergi veiðar innan við þriggja mílna mörkin frá landi. En í núgildandi heimildum mega skip af þessari stærð veiða alveg upp að landssteinum á nokkrum stöðum við landið á tilteknum tímum.

Annar stærðarflokkur skipa eru svo skip frá 106 rúmlestum og upp í 350 rúmlestir. Veiðiheimildir þessara skipa eru takmarkaðar talsvert mikið frá núgildandi reglum, svo að segja allt í kringum landið á flestum veiðisvæðum, og það hefur auðvitað komið fram í sambandi við þessar till., að ýmsir aðilar, sem eiga skip af þessari stærð, kveinka sér nokkuð undan þeim þrengingum veiðiheimilda, sem gert er ráð fyrir í frv. fyrir þessi skip.

Þá er þriðji stærðarflokkur skipa. Það eru 350 rúmlesta skip og stærri. Það er yfirleitt togaraflotinn. Er einnig gert ráð fyrir verulega minnkuðum heimildum þessara skipa til veiða innan gömlu 12 mílna markanna. Þær veiðiheimildir, sem í gildi voru, eru nú minnkaðar, og má segja, að aðalreglan sé sú, að skip af þessari stærð verði að veiða fyrir utan 12 mílna mörkin. Þó eru heimildir á nokkrum stöðum við landið upp að 9 mílna mörkum. En það er ekkert um að villast, að það er dregið mjög verulega úr veiðiheimildum innan fiskveiðilandhelginnar fyrir þessi skip.

Þá er einnig að finna í frv. ýmsar almennar heimildir fyrir sjútvrn. til að fyrirskipa friðun, eftir því sem þörf reynist, og allt miðað við það, að samráð hafi verið haft við okkar vísindamenn á þessu sviði eða við Hafrannsóknastofnunina.

Það má lengi um það deila að sjálfsögðu, hvað langt er talið fært að ganga í fiskverndar- eða fiskfriðunarmálum og hvort nægilega langt er gengið í þessu frv. eða hvort of langt er gengið í vissum tilvikum. Um þetta sýnist sitt hverjum, eins og við þekkjum, og það verður auðvitað að vera hlutverk Alþ. að ákveða endanlega, hvaða reglur skuli gilda í þessum efnum. En á hitt verður auðvitað að leggja áherslu, að það er erfitt að koma við fullnægjandi stjórn á veiðunum við landið, á meðan við höfum ekki losað okkur að fullu og öllu við hina miklu sókn útlendinga á fiskimið okkar. Þó að nokkuð hafi náðst fram í þeim efnum, vitum við þó hitt, að enn er um að ræða og verður um að ræða næstu árin allmikla sókn af hendi útlendinga á miðin. Það vitanlega torveldar okkur að gera ráðstafanir til verulegrar fiskfriðunar, þegar svo standa sakir, að sú friðun getur orðið að verulegu leyti til þess aðeins að bæta stöðu útlendinganna, sem hingað sækja, og meira að segja nokkur vafi leikur á því, hvað hægt er að láta slíkar friðunarráðstafanir mikið ná til þeirra. Auðvitað væri langsamlega þýðingarmesta friðunin fyrir okkur á okkar fiskimiðum að losa okkur að fullu og öllu við ásókn hinna erlendu veiðiskipa. Það liggur fyrir alveg óumdeilanlega samkv. opinberum skýrslum, að erlendu veiðiskipin veiða á okkar fiskimiðum mun fleiri fiska, séu þeir taldir, en við Íslendingar gerum, þegar við ræðum um botnfiska. Við veiðum að vísu álíka mikið og kannske meira að þunga til, en þeir veiða hér fleiri fiska, og það er það, sem skiptir í rauninni öllu máli, þegar um er að ræða fiskverndunarmál. Við þessar aðstæður er auðvitað miklu erfiðara að taka róttækt á fiskfriðunarmálum en ef við byggjum hér einir að þessum miðum og nýtingu fiskstofnanna. Eigi að síður verðum við að reyna að skipa veiðunum á þann hátt, sem við sjáum, að er viturlegast og kemur okkur að mestu gagni, þegar á heildina er litið og til lengri tíma.

Eins og ég sagði fyrr, sé ég ekki ástæðu til að ræða um þetta mál í löngu máli að þessu sinni. Málið hefur verið ítarlega rætt á Alþ. áður. Ég vil því mega vænta þess, að það gæti orðið um það samkomulag, að það þyrfti ekki að fara fram mjög miklar umr. hér um þetta mál nú við 1. umr. málsins. Það er nauðsynlegt að koma þessu frv. sem allra fyrst í þn., sem síðan fær sinn tíma til að fjalla um málið og hafa samráð við þá aðila, bæði einstaka þm. og forsvarsmenn sjávarútvegsins á ýmsum sviðum. Að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir því, að ítarlegar umr. fari fram um málið við 2. umr., þegar það kemur úr n. En vegna þess, hvernig málið ber nú að, það er unnið á þennan hátt, af þm.- nefnd í nánu samráði svo að segja við alla þm., það hefur verið lagt hér fyrir þingið áður og fyrir því verið talað, þá vil ég sem sagt mega vænta þess, að það verði a. m. k. hægt að koma málinu í dag til n., þannig að tíminn verði nýttur eins og tök eru á til þess að koma málinu á raunhæfan hátt áfram í þinginu og stefna að því að afgreiða það fyrir jól.

Herra forseti. Ég vil svo leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. til fyrirgreiðslu.