20.11.1973
Sameinað þing: 21. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

83. mál, trúarsöfnuður Ásatrúarmanna

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Varaþm. minn hafði, þegar ég kom aftur hér til þings, skilið mér eftir fsp. til hæstv. kirkjumrh. þess efnis, af hverju Ásatrúarmönnum hafi verið veitt löggilding sem trúarsöfnuði. Ég hef ekkert á móti því að taka undir þessa fsp., því að sannast sagna hefur sú frétt vakið allmikla furðu, að þessum svokallaða söfnuði hafi verið veitt viðurkenning samkv. stjórnarskránni, þar sem gert er ráð fyrir, að heimilt sé að veita trúarsöfnuðum viðurkenningu með sérstökum hætti, þó að það sé lögboðið þar, að hin evangelísk-lútherska þjóðkirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og ríkisvaldið skuli styðja hana og vernda.

Það er einn merkasti atburður Íslandssögunnar, þegar það var ákveðið á Alþingi árið 1000 að ráði heiðinna manna, Ásatrúarmanna, en þá var sú trú ríkjandi á Íslandi, og kristinna manna, en kristin trú hafði þá borist til landsins, að til þess að forðast vandræði í landinu skyldi landslýður allur upp taka kristna trú. Þetta hygg ég óhætt að fullyrða, að sagan telji einn hinn merkasta atburð, ekki síst fyrir það, með hverjum hætti þetta bar að. Ég þarf ekki að rekja þá sögu, hana kunna allir hv. þm. sem einn þekktasta atburð Íslandssögunnar, en í elstu lögbók Íslendinga, Grágás, var upphaf hennar það, að þar segir:

„Það er upphaf laga vorra, að allir menn skulu kristnir vera á landi hér og trúa á einn föður, son og helgan anda.“

Nú er það fjarri mér að halda því fram, að alla tíð hafi allir menn verið sérstaklega kristnir í andanum a. m. k., þó að hér hafi ekki aftur upp risið Ásatrú fyrr en með þeim hætti, að sá söfnuður eða sá heiðindómur hefur aftur haldið innreið sína hér, að vísu kannske ekki með stórbrotnum hætti, en þó nokkrum, og sumum þykir nú kannske leiðast, að þeir hafa valið sér að höfuðsmanni mann, sem þeir kalla allsherjargoða, og það er mætur maður út af fyrir sig, en mönnum þykir nokkuð stórt að leggja það nafn, sem þótti mjög veglegt á sínum tíma, við þennan söfnuð eða félagsskap réttara sagt. Hvað sem því líður, er það ekki það, sem máli skiptir, heldur hitt, að það er æðimerkilegt, að þegar liðin eru 900 ár frá því, að kristin trú var lögleidd hér á Íslandi, þá skuli það gerast, að sá flokkur, sem nú hefur verið myndaður, og ég vil ekki kalla trúflokk, heldur félagsskap, því að ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því, að hann starfi hér, en tel fráleitt með öllu, að hann fái viðurkenningu samkv. þessu stjórnarskrárákvæði, enda skil ég það á þann veg, að slíkt sé ekki heimilt, heldur sé þar aðeins átt við guðs trú. Er full ástæða til að spyrja hæstv. ráðh., sem með þessi mál hefur að gera og hefur til þess heimild samkv. stjórnarskrá að veita þessa undanþágu, með hverjum hætti þetta hafi gerst og hvaða rök liggi því til grundvallar.