21.11.1973
Neðri deild: 26. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

78. mál, Seðlabanki Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. sagði, að spurningar mínar til hans væru sérkennilegar. Því fer víðs fjarri, að þær séu sérkennilegar, og enn síður voru þær ástæðulausar. Það kom greinilega fram í svörum hans. Ég vek athygli hv. þm. á því, að ég spurði ekki um það, hvort Seðlabankinn hafi leitað til hans um leyfi til byggingarinnar. Ég spurði ekki um það, hvort Seðlabankinn hefði skrifað viðskrh. bréf og beðið um heimild hans til þess að hefja byggingarframkvæmdir. Ég vissi auðvitað, að þetta hafði Seðlabankinn ekki gert. Það kom m. a. fram í svari formanns bankastjórnar Seðlabankans, Jóhannesar Nordals, í sjónvarpi við spurningu um þetta. Þar var hann spurður: Leitaði Seðlabankinn til viðskrh. um samþykki fyrir byggingarframkvæmdum? Og auðvitað svaraði bankastjórinn nei og sagði satt. Það var satt og rétt. Þetta þurfti ég ekki að spyrja um. En ráðh. svaraði eins og ég hefði spurt um þetta, svo mér virðist í raun og veru, að hann hafi ekki áttað sig á, hvað hér hangir á spýtunni, um hvað er í raun og veru að ræða. — Ég spurði um það, hvort hann hefði vitað um ákvörðun bankastjórnarinnar um að byggja á sínum tíma, hvort hann hefði vitað um það, að til stóð að hefja framkvæmdir, áður en þær hófust. Þessu svaraði hæstv. ráðh. ekki. En hann hefur talað í fjölmiðlum eins og hann hafi ekkert um þetta vitað. Það var tilefni spurningar minnar, að hann hefur talað um þetta í fjölmiðlum eins og hann hafi ekkert um þetta vitað.

Ég verð að segja, að það hefði verið gersamlega óhugsandi í tíð fyrrv. ríkisstj., að Seðlabankinn hefði tekið ákvörðun sem þessa og hafið framkvæmdir án vitneskju síns ráðh. og þar með vitneskju ríkisstj. Ef þeir siðir eru virkilega komnir á, að Seðlabankinn hefur framkvæmd mörg hundruð millj. kr. byggingar, án þess að hans ráðh. og þar með ríkisstj. hafi hugmynd um, þá er hér um varhugaverða hluti að ræða, og þetta var ástæða til fsp. minnar. Þá eru komnir hér algerlega nýir stjórnhættir, sem ég tel vera mjög varhugaverða, — og er það kannske ein skýringin á því, hve illa tekst til um stjórn efnahagsmála, — þá ber það vott um vægast sagt mjög lítið samband á milli viðskrn., þ. e. ríkisstj., annars vegar og stjórnar Seðlabankans hins vegar. Hafi slíkt getað gerst í þessu efni, í hvaða efni getur það þá ekki gerst, með leyfi að spyrja?

Þetta var ástæðan til þess, að ég spurði eins og ég spurði. Það væri algerlega einstætt og óhæfa, ef þessar framkvæmdir hafa verið ákveðnar og hafnar, án þess að ráðh. stofnunarinnar hafi haft hugmynd um það. Ég skal ekki segja, að þetta sé raunverulega svona. En hitt fullyrði ég og endurtek og legg áherslu á, að slíkt hefði aldrei getað gerst, það hefði verið óhugsandi, frá því að Seðlabankinn var stofnaður og meðan fyrrv. ríkisstj. sat að völdum. Og ef sambandið eða sambandsleysið er með þessum hætti, þá hlýtur það að teljast alvarlegt vandamál í íslenskri stjórnsýslu.

Annars fannst mér ýmislegt fleira í svari ráðh. bera vott um, að hann sé ekki algerlega með á nótunum í þessum efnum, því að hann talaði hvað eftir annað um þingkjörna stjórn Seðlabankans, — hann hefði ekki viljað breyta því, sem þingkjörin stjórn Seðlabankans var búin að ákveða. Á ég að trúa því, að sjálfum bankamrh. sé ekki kunnugt um, að æðsta stjórn Seðlabankans er bankastjórnin, en ekki bankaráðið. Bankastjórnin er skipuð af ráðh., en bankaráðið er kosið af Alþ. Æðsta stjórn Seðlabankans er í höndum bankastjórnarinnar, sem er ráðherraskipuð, en til ráðuneytis þeim er þingkjörið bankaráð. Valdskiptingin er þannig önnur í Seðlabankanum að þessu leyti heldur en hún er í viðskiptabönkunum, en ráðh. svarar eins og honum sé þetta ókunnugt.

Mergurinn málsins í þessu efni er m. ö. o. sá, og því er enn þá ósvarað, hvort ráðh. vissi um ákvörðunina, hvort ráðh. vissi um framkvæmdirnar, áður en þær hófust. Með því að svara þessu ekki heldur hann við sín fyrri svör að láta eins og hann hafi ekkert um þetta vitað. En sé þetta rétt, þá endurtek ég, að þar er um varhugaverðan hlut að ræða. Ég get líka látið það fylgja, að ég veit, að skoðun bankastjórnar Seðlabankans á hinni lögfræðilegu hlið málsins er sú sama og hæstv. dómsmrh. Bankastjórnin taldi sér og telur sér ekki skylt að leita lögformlega til bankamrh. um leyfi til slíkra athafna eins og bankabyggingarinnar.Í þessu efni vísa ég bara til hinnar lögfræðiskoðunarinnar og skal engan dóm á það mál leggja.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að segja, að ég hefði ekki ætlast til þess, ef bankinn hefði viljað byggja í tíð fyrrv., ríkisstj., að hann sækti um leyfi til slíks. En til hins hefði ég ætlast, enda var sú alltaf raunin á, að þegar byggingarframkvæmdirnar voru á döfinni, þá hafði bankastjórnin samráð við viðskrn. og þar með ríkisstj. um málið. Við vorum sammála um það alla tíð að fresta framkvæmdum. En ef hefði komið til ágreinings á milli mín og bankastjórnarinnar um, hvort hefja ætti ákveðna framkvæmd eða ekki, þá hefði ég lagt málið fyrir ríkisstj. Ef ég hefði verið byggingunni andvígur, en stjórn Seðlabankans með bankaráðið á bak við sig hefði verið henni samþykkt og ef ríkisstj. hefði haft sömu skoðun og ég, þá hefði ég látið á það reyna, hver hefði raunverulega valdið. Þá hefði ég verið þeirrar skoðunar, að endanlega valdið ætti að vera í höndum ráðh., sem hefði ríkisstj. á bak við sig, en ekki bankastjórnarinnar, þó að hún hefði ráðgefandi bankaráð á bak við sig. Þetta hefði verið mín skoðun, og ég er sannfærður um, að hún hefði, ef á hefði reynt fyrir dómstólum, dæmst vera rétt. En ég er líka viss um, að á það hefði aldrei þurft að reyna. Ef bankastjórnin hefði fengið að vita skýlausan vilja síns ráðh. og hans ríkisstj. um mál eins og byggingarframkvæmdir, þá hefði hún aldrei hafist handa um framkvæmdirnar. Þess vegna er ég sannfærður um það líka núna, og það skulu vera síðustu orð mín, að bankastjórnin hefur tekið ákvarðanir um framkvæmdirnar og hafið þær í góðri trú, í þeirri trú, að ráðh. og ríkisstj. væru þeim samþykk. Um þetta er ég fullkomlega sannfærður eftir 10 ára nána samvinnu við bankastjórn og bankaráð Seðlabankans. Þeir hafa tekið sínar ákvarðanir í þeirri trú, að ráðh. og ríkisstj. væru þeim samþykk. Samt sem áður verður bankastjórnin að láta það yfir sig ganga eftir á, að ráðh. hafi ekkert vitað um málið, og því má hver trúa, sem trúa vill.