22.11.1973
Sameinað þing: 23. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

35. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég er mjög ánægður með, að þessi till. skuli komin fram, og ég tek heils hugar undir með hv. flm., að þessi till. verði samþ. En einkennileg eru þau örlög hæstv. ríkisstj., að annað málið, sem ég hef fylgst með hér í dag, skuli koma hér fram, vera á dagskrá og rætt, þar sem beinlínis er ráðist að ríkisstj., og liggur í öllum flutningi og ræðum manna, að það er verið að gagnrýna og lýsa vantrausti á ríkisstj., — það er verið að lýsa vantrausti á ríkisstj. með þessu máli, brennivínsmálum núv. hæstv. ríkisstj. Og hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson sagði, að hæstv. ráðh., hæstv. ríkisstj. væru með sýnikennslu í brennivínsdrykkju fyrir almenning hér á landi. Mér finnst þetta vera svo óguðlegt, að ég legg til, að við samþykkjum þessa till. hið fyrsta. Og auðvitað tökum við undir með þessum stóra manni með sterku, miklu röddina, íþróttakennaranum á Bolungarvík, eins og togaraskipstjórinn kallaði hann, og samþykkjum þessa till. Og við eigum að samþykkja líka um leið, að það sé bannað að syngja: „Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur.“

En vegna þess, sem hefur komið hér fram hjá sumum þm., það hefur verið gripið fram í og talað um, hvaða afstöðu hv. þm. hafa til sherrydrykkju á vegum ríkisstj., mætti auðvitað spyrja um það um leið, hvaða skoðanir hæstv. ráðh. hafa á því að bera fram pönnukökur í konjaki, sem kveikt er í. Þetta fer að verða mjög alvarlegt mál í veislum hæstv. ráðh., þegar þeim verður svona skammtað, hvað þeir megi bera fram til sinna gesta. En ég get ekki ímyndað mér, að það sé nokkur maður, sem verði á móti þessari till., svo að öllu gríni sé hætt. Auðvitað samþykkja allir þetta. Ég held, að hv. stjórnarþm. muni sérstaklega samþykkja þetta. Auðvitað eru engir aðrir, sem hafa stöðvað þessa till. Það eru engir, sem eru á móti málinu, það eru ríkisstj.-flokkarnir sjálfir, sem stöðvuðu till. á síðasta þingi, þeir vildu þetta ekki. Það þýðir ekkert fyrir manninn með miklu röddina að vera að horfa út yfir salinn og lýsa eftir einhverjum andmælendum gegn till. Það eru stjórnarflokkarnir sjálfir. Ég held, að hann hefði miklu meiri áhuga á því, að þessi till. næði fram, ef hann fylgdist með þeirri sýndarmennsku, sem átt hefur sér stað hjá hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh., þegar þeir hér á Alþ. létu fella niður þann möguleika forseta þingsins og annarra til að kaupa áfengi án tolla, þegar þeir sjá, hvað brennivínsreikningar ráðuneytanna eru orðnir á síðasta fjárhagsári.