27.11.1973
Sameinað þing: 24. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

374. mál, ferðamál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að benda á það, sem raunar kom fram af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að það, sem stundum er kallað áætlun um ferðamál á Íslandi og gert er af ameríska fyrirtækinu, sem hann greindi frá, er ekki heildaráætlun um ferðamál á Íslandi, heldur eingöngu áætlun um einstaka þætti. Þar er eingöngu fjallað um einstaka þætti og fyrst og fremst miðað við erlenda ferðamenn og ráðstafanir til þess að fá þá til landsins.

Frá mínu sjónarmiði getur ekki komið til greina að ákvarða verkefnaröðun í ferðamálum, fyrr en allir þættir þessara mála hafa verið skoðaðir og þeim raðað upp og þeir bornir saman, þ. á m. aðstaða og möguleikar víðs vegar um landið til þess að koma upp ferðaþjónustu fyrir innlent ferðafólk og erlent. Ég tel, að gætilega og hóflega verði að fara í að fjölga erlendum ferðamönnum, en vinna sem allra mest að því, að Íslendingar geti ferðast um sitt eigið land og dreift sér um það.

Ég vil fara þess á leit við hæstv. samgrh., að hann beiti sér fyrir heildarathugun ferðamálanna á þann veg, að sem flest sjónarmið komi þar til, ekki bara þeir þættir, sem amerísku fyrirtækin skoðuðu, heldur einnig t. d. byggðasjónarmið, umhverfissjónarmið og hin mikla nauðsyn þess að dreifa ferðalögunum um landið. Ég skora sem sé á hæstv. ráðh. að beita sér fyrir því, að ferðamálaáætlun verði gerð, þar sem stefnan verði mörkuð, eftir að allir þættir hafa verið raktir. Ég vænti þess og treysti því, að engar meiri háttar ákvarðanir verði teknar í þessum málum án samþykkis Alþ., og án þess að hæstv. ráðh. hafi undirbúið það á þessa lund og að erlendar lántökur verði alls ekki undirbúnar í einstaka þætti þessara mála, fyrr en stefnan hefur verið mótuð af ríkisstj. og Alþ. um það, hvað eigi að sitja fyrir.

Við erum, eins og hér hefur komið fram í umr., mjög sennilega stödd á vegamótum í þessum málum og afar þýðingarmikið, hvað verður tekið fram fyrir. Ég bendi aðeins á það, hvernig farið gæti, ef þetta væri ekki skoðað vel í heild.

Í þessari áætlun um einstaka þætti er gert ráð fyrir 2200 millj. kr. fjárfestingu, en þar af eru 2000 millj., í Reykjavík og næsta nágrenni, en aðeins 200 millj. úti um land. Sjá allir, að það þarf að taka þessi mál mjög myndarlegum tökum, og ég treysti samgrh. mjög vel til að gangast fyrir því.