28.11.1973
Neðri deild: 30. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

107. mál, lántökuheimild vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar 1973

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs hér á ný vegna ummæla hæstv. fjmrh., þegar hann staðhæfði, að ég hefði í fyrri ræðu minni verið að mótmæla framlögum til hafna í Þorlákshöfn, Grindavík og á Höfn í Hornafirði. Ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni, að ég mundi styðja hafnarframlög, bæði til þessara hafna og annarra hafna á landinu vegna þess að ég hef ákaflega góða aðstöðu til þess að dæma um það, hversu mikils virði það er fyrir hverja einustu fiskihöfn á landinu að hafa sem besta aðstöðu. Það, sem ég gerði aths. við, var meðferð málsins. Það er haldinn nefndarfundur í fjh.- og viðskn. í dag til þess að afgreiða þetta mál, og á þeim fundi er skotið inn þessu veigamikla atriði um ráðstöfun á því fé, ,sem Framkvæmdabankinn hyggst lána til hafnarframkvæmda á landinu. Málið er tekið fyrir með afbrigðum og ætlast til þess af hæstv. ráðh. sjáanlega, að það verði afgr. bæði við 2. og 3. umr. Ég vil benda á það, að ég er ekki einn um að gera aths. við meðferð málsins, eins og hann hefur hér borið að, og ég hygg, að það sé nokkuð fátítt, þegar um stjfrv. er að ræða, að þá skrifi allir 7 nm. undir með fyrirvara og áskilji sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Þetta eitt, sem þarna kemur fram í nál. sýnir, að nm. með tölu hafa talið þessa meðferð málsins algerlega óeðlilega og ekki viljað binda sig í afstöðu sinni, þó að þeir væru stjórnarstuðningsmenn.

Af því, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan varðandi lántökuna sjálfa og hvernig hana bar að, þá taldi hann eðlilegt, að lánum hefði verið þannig ráðstafað, eins og gert hefur verið ráð fyrir, til þeirra þriggja hafna, sem þar um ræðir. Hann taldi það eðlilegast miðað við þær aðstæður, sem hann taldi vera, þegar um þetta mál var endanlega fjallað. Ég vil bendu á, að nál. er sent samgrn. með bréfi, sem dags. er 28. júlí. Sem betur fer var gosinu í Vestmannaeyjum lokið og fyrir lá, að höfnin þar hafði ekki farið forgörðum. Ég tel því, að það hafi verið mjög eðlilegt, að hluta af því fé, sem hér er um að ræða, sem fengið er vegna þeirrar aðstöðu, sem skapaðist, hefði fyrst og fremst verið varið til endurbóta á Vestmannaeyjahöfn, sem sannarlega þarf á því að halda, að þar verði gerðar verulegar endurbætur. Það var vitað í júnílok, þegar samgrn. fékk nál. í sínar hendur, og það var sem betur fer enn þá frekar vitað, þegar þetta er lagt fyrir Alþ. nú, að bátaflotinn í Vestmannaeyjum mun komast til heimahafnar og geta stundað róðra þaðan á komandi vertíð. Því undarlegra hlýtur það að vera í okkar augum, sem þar eigum hlut að máli, að þurfa að horfa á það, að þessu mikla fjármagni skuli varið til annarra staða að fullu. Við getum ákaflega vel skilið það, þar sem um þetta mikið fjármagn er að ræða, að verði það notað til uppbyggingar hafna. Ég skal ekki fara inn á að dæma um, hvort hefði átt að dreifa því meira. Það hefur verið tekin ákvörðun um að dreifa því aðeins á þrjár hafnir. En till. mín, sem ég var að boða áðan, er ákaflega einföld. Hún er um það eitt, að inn í brtt. hv. formanns fjh.- og viðskn. verði tekið, að á undan „í Grindavík“ komi: „ í Vestmannaeyjum“, þannig að hluti af þessu fé fari einnig til uppbyggingar hafnarinnar í Eyjum. Ég tel, að þetta sé mjög eðlilegt, og ég vænti þess fastlega, að þessi hv. d. geti orðið við þessum tilmælum, sem felast í till. minni, að Vestmannaeyjum verði þó ekki alveg sleppt og þær alveg afskiptar í sambandi við úthlutun þess fjármagns, sem gert er ráð fyrir, að varið verði til uppbyggingar hafna á suðurströnd landsins.

Jafnvel þó að bátaflotinn hefði ekki komist heim fyrr en um næstu vertíð, vissu auðvitað Vestmanneyingar betur en allir aðrir um hafnarframkvæmdir a. m. k. í Þorlákshöfn, að þar er um það stóra áætlun að ræða, að það hefði ekki bjargað flotanum á næstu vertíð. En sem betur fer er það mál út úr heiminum að því leyti, að við teljum okkur sjá fram á, að flotinn muni á næstu vertíð geta stundað róðra frá sinni gömlu heimahöfn. En ég undirstrika, að það er rangt með farið hjá hæstv. fjmrh., að ég hafi verið að andmæla fjárframlögum til þeirra hafna, sem hér um ræðir, þó að ég gerði aths. við meðferð málsins, eins og ég taldi mér skylt og sjálfsagt að gera.

Ég ætlaði mér ekki að fara að ræða heimildargr. fjárl., 22. tölul. í 6. gr., þar sem rætt er um ráðstöfun á væntanlegum tollum af hinum innfluttu húsum á vegum Viðlagasjóðs. Ég ætlaði að geyma mér það, þangað til fjárlög yrðu afgreidd. En hæstv. ráðh. kom inn á þetta mál, og þess vegna hlýt ég einnig að gera við það stutta aths.

Ég vil geta þess, að í stjórn Viðlagasjóðs var þetta mál rætt þegar á fyrsta stigi þess, að var farið að flytja inn hús. Ég hélt því fram þar alveg hiklaust, að ríkisstj. Íslands gæti aldrei leyft sér það, það væri henni ekki sæmandi að ætla að taka tolltekjur af hinum innfluttu húsum, eins og það mál bar að. Það vita allir, að Norðurlöndin studdu Íslendinga, Vestmanneyinga og alla þjóðina, mjög rausnarlega í sambandi við náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum. Ég er sannfærður um það og veit reyndar, að þetta með tolltekjur eða tollheimtu af Viðlagasjóðshúsunum hefur verið rætt í blöðum á Norðurlöndum og hefur komið mönnum þar mjög einkennilega fyrir sjónir, og menn eiga ákaflega erfitt með að skilja, að það ætli að verða ríkisstj. Íslands, einasta ríkisstjórnin á Norðurlöndum, sem ætli beinlínis að taka fé í ríkiskassann í sambandi við náttúruhamfarirnar í Vestmennaeyjum, en það verður gert, ef tolltekjur verða teknar af húsunum. Fulltrúar stjórnarliðsins í stjórn Viðlagasjóðs töldu, að það væri ekki útilokað að innheimta toll af húsunum, en aðeins þá með því eina móti, að sá tollur yrði látinn ganga sem tekjur til handa Viðlagasjóði. Það má segja, að þá skeður raunverulega ekki annað en það varðandi húsin, sem eru flutt inn fyrir gjafafé frá Norðurlöndum, að það, sem þau gæfu við endursölu, rynni til Viðlagasjóðs og uppbyggingarstarfsins í Eyjum. Ég hefði talið, að hitt væri miklu eðlilegra og ég vil ekki trúa því, fyrr en ég sé það, að Alþ. Íslendinga samþykki að taka 43%, eins og almennu gjöldin eru, af gjafafé Norðurlanda, hinu rausnarlega gjafafé þeirra í sambandi við náttúruhamfarirnar, — taka 43% af því í ríkissjóð Íslands. En þetta mál kemur að sjálfsögðu til enn frekari umr., þegar fjárlög verða afgreidd, og þá þessi liður fjárl. eins og aðrir.

Hæstv. fjmrh. sýndi þó rausn sína í sambandi við þennan lið fjárl. Hann sagði, að það hefði komið til greina við nánari athugun, að Vestmannaeyjahöfn fengi kannske eitthvað af þessum fyrirhuguðu tolltekjum. En það átti ekki að vera, nema afgangur yrði, og yrði hún þá látin sitja fyrir því, sem þar kynni að verða afgangs. Ég segi: Þetta er ekki rausn, eins og aðstæður hafa þróast og eru orðnar í dag. Ef ætti að fara þessa leið, sem ég tel, að eigi ekki að fara, þá væri sjálfsagt, að Vestmannaeyjahöfn sæti þar fyrst og fremst fyrir og framlög til annarra hafna kæmu þá þar á eftir, því að hér er um það mikið fjármagn að ræða, þar sem er lánað upp á 7 millj. dollara og síðan kannske 400–500 millj., í tolltekjur. Ef allt dæmið er reiknað eins og hæstv. ráðh. ætlast til, þá er þar um það mikið fjármagn að ræða, að það mundi aldrei verða nema hluti af því, sem rynni til Vestmannaeyjahafnar til þess að gera þær framkvæmdir, sem Vestmanneyingar sjálfir telja, að nauðsynlegt sé að gera og eru þegar búnir að gera áætlun um, að verði að gera á næstunni.

Ég endurtek til að taka af öll tvímæli, að ég mótmæli því, að það hafi verið hægt að skilja orð mín þannig, að ég væri að hafa á móti hafnaframlögum til þeirra staða, sem tilgreindir eru í till. hv. formanns fjvn. Ég er aðeins að leiðrétta það og boða till. um það, að ég ætlist til þess, að hluti af fjármagninu fari til uppbyggingar hafnarinnar í Vestmannaeyjum.