30.08.1974
Efri deild: 7. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

8. mál, söluskattur

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að maður hefði varla átt von á því, miðað við umr. um fjármál undanfarið hér á Alþ. af hálfu hæstv. núv. fjmrh., að það ætti fyrir honum að liggja að láta það verða sitt fyrsta verk að koma með auknar álögur, því að hann man það mun betur en ég, að hann hefur staðið að frv. í þá áttina, að mjög mikla nauðsyn beri til þess að draga úr útgjöldum ríkisins og öllum umsvifum og minnka þannig þensla í þjóðarbúinu, sem er eitt aðalvandamálið og hefur verið undanfarinn fjölda ára og verður áfram, ef að líkum lætur, eins og fregnir herma í dag. Sjálfur var hann fyrri flm. á s.l. þingi að frv., sem hafði hvorki meira né minna en það í för með sér, ef samþ. hefði verið, að ríkisútgjöld hefðu minnkað um á 5. milljarð kr., e.t.v. tæpa 4 milljarða, eftir því, hvernig hefði ráðist með tekjur manna, en við getum sagt rétt undir eða rétt yfir 4 milljarða kr. En nú leggur hann fram sitt fyrsta frv. og það felur í sér hækkun álagningar á almenning og sennilega án bóta í launum, því að hér fylgir mjög stuttaraleg aths., og áhrifin munu tvímælalaust vera þannig eða ný lög koma síðar meir, sem taka af þessa hækkun varðandi vísitöluhreyfinguna. Þannig er það hans fyrsta verk að bjóða heim álögum um 2 milljarða, en frv. hljóðaði um árlega minnkun um rétta 4, mismunurinn nærri 6 milljarðar, svo að ekki verður betur gert af neinum öðrum, held ég. Hann fékk líka þær árnaðaróskir í vöggugjöf af fyrrv. ráðh., að nú væri um að gera að duga, Matthías, og bregðast hvergi og leggja hraustlega á, og sannarlega hefur hann verið fljótur að læra og spýtt vel í lófana.

Fyrrv. fjmrh. og núv. landbrh. og samgrh. sagði. að þetta væri gamalt mál hér á Alþ., sem væri flutt af núv. hæstv. ríkisstj. Að hluta er það svo. Urðu miklar umr. um breytingu á EFTA- tollum í vetur, og var þá mjög deilt um tekjuþörf ríkissjóðs. Þeir, sem þá voru í stjórnarandstöðu, töldu, að vel væri í lagt um nauðsyn þess að afla tekna, og komu fram með rök í því efni, og fór svo, að ríkisstj. lét undan, eins og hæstv. landbrh. viðurkenndi áðan, og var gefið eftir söluskattsstig og málið náði fram að ganga með einu stigi minna en þeir áttu von á. Ef ég man rétt, hafði frv. um sjálfa tollabreytinguna í för með sér 650 millj. kr. þörf fyrir ríkissjóð, en við í stjórnarandstöðunni töldum þörfina þá vera minni. Við áætluðum einnig, að tekjur ríkissjóðs, miðað við allar aðstæður, sem fyrirsjáanlegar væru, yrðu verulega meiri en sérfræðingar hennar létu í veðri vaka. Viðurkenndi fyrrv. fjmrh. nú, að svo hefði farið. Hins vegar hafa útgjöld einnig verulega aukist vegna stjórnleysis í efnahagsmálum.

Í aths. við frv. er tekið fram, að þessi tekjuöflun sé fyrst og fremst vegna slæmrar aðstöðu Rafmagnsveitna ríkisins og Vegagerðar ríkisins. Frv. til að ráða bót á málefnum þessara tveggja stóru fyrirtækja á vegum ríkisins hefði auðvitað átt að fara hér í gegn og ræðast á eðlilegan hátt og gera fullkomlega grein fyrir þörfum þessara stóru fyrirtækja og nýja áætlun. Það er hið rökrétta. Við hefðum fengið að sjá, hvar þyrfti að hemla við í framkvæmd á vegum Vegagerðar ríkisins vegna erlendra kostnaðaráhrifa, og það væri rætt við þm. viðkomandi kjördæma, eins og hefur viðgengist í fjöldamörg ár, því að góð er samvinnan við vegamálaskrifstofuna og engum er betur kunnugt um þetta en núv. hæstv. fjmrh. og fyrrv. hæstv. fjmrh. Ég hefði þess vegna talið miklu rökréttara, að okkur gæfist svigrúm til þess að fjalla sameiginlega um þarfir þessara fyrirtækja, a.m.k. í samhengi við afgreiðslu þessa máls. Ég tel óvenjulegt að knýja þetta fram svo skyndilega, ef ekki fer nú eins og 1972, hæstv. fjmrh., svo sem kom fram í ræðu þinni áðan, að Alþ. verði sent heim á morgun og stjórnað verði með brbl. eftir helgi. En mér býður í grun, að það muni verða gert, og fá þá ekki allir óskir sínar uppfylltar að ræða hér mál á hv. Alþ., sem fram hafa verið lögð nú. Það skyldi þó aldrei vera, að það væri stefnt að því, að við færum heim annað kvöld, ekki síðar, og það sæti ekkert þing eftir helgi. Það getur nú hent ágæta menn, sem hefur hent áður misvitra menn.

Við í Alþfl. munum leggjast gegn þessari söluskattshækkun. Sú grg., sem hér fylgir, og rökstuðningur fyrir henni er ekki þess eðlis, að við getum án þess að sjá nokkur meiri háttar gögn fallist á þetta. Það er ekkert svigrúm, ef á að afgreiða málið þegar í stað á kannske nokkrum klukkutímann að fá þessi gögn og fjalla um þau og taka afstöðu samkvæmt því. Ég mun því leggjast gegn þessu frv. á þessum forsendum. Við höfum ekki séð framkvæmdaáætlun Rafmagnsveitna ríkisins, og við höfum ekki séð endurskoðaða framkvæmdaáætlun hjá Vegagerð ríkisins, og þess vegna tel ég ekki tök á því, þegar forsenda fyrir þessari hækkun er fyrst og fremst sögð vera fjárhagsþarfir — þó tímabundnar — hjá ríkissjóði til þess að hjálpa þessum ríkisfyrirtækjum.

Ég skal ekki deila um þarfir sveitarfélaganna. Ég vil þó taka undir orð hv. 10. landsk., að þarfir sveitarfélaga eru verulega miklar, og það er hér skýrt tekið fram, að sveitarfélögin muni fá sinn hluta af þessari aukningu. En það er stærra mál en hér verði rakið, öll sú hreyfing á milli ríkis og sveitarfélaga, sem gerð var hér á sínum tíma og við andmæltum þá ýmsir og hefur komið í ljós, því miður, að reyndist ekki eins vel og var sagt af þáv. hæstv. stjórnarliðum. En ég vil ekki blanda mér í þær deilur á milli núv. samherja.

Ég hef séð drög af svokölluðum vinstri viðræðum, þótt ég tæki ekki þátt í þeim, hef ljósrit af þeim, og ég sé ekki þessa söluskattshækkun fram setta í þeim drögum, sem ég hef hér. Eru þar upp taldir 14 liðir. Og ég minnist þess ekki, að það kæmi fram á þingflokksfundi, sem ég sat. Það getur vel verið, að það hafi komið fram á síðustu stundu, en í þessu ljósriti, sem ég hef nú fyrir framan mig í ræðustóli, er þetta ekki fram sett. Þetta mun því vera áreiðanlega pressa frá fyrrv. fjmrh., að fá þetta nú knúið í gegn með hinum nýju liðsmönnum, og ber hann þess vegna sennilega siðferðilega mesta ábyrgð á því, enda kom það fram í ræðu hans, að hér væri hann enn að leggja fram gamalt mál og gladdist nú mjög yfir stuðningi hinna nýju liðsmanna við það.