18.07.1974
Sameinað þing: 1. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Forseti Íslands setur þingið

Forseti Íslands (Kristján Eldjárn):

Hinn 2. þ.m. var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hef ákveðið samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með skírskotun til 22. gr. stjskr., að Alþingi skuli koma saman til aukafundar fimmtudaginn 18. júlí 1974.

Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.

Gjört í Reykjavík, 2. júlí 1974.

Kristján Eldjárn.

Ólafur Jóhannesson.

Forsetabréf um, að Alþingi skuli koma saman til fundar, fimmtudaginn 18. júlí 1974.“

Samkvæmt bréfi því, er ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því, að Alþingi Íslendinga er sett.

Að þessu sinni er Alþingi sett við þær kringumstæður, að ekki hefur enn skapast sú samstaða milli þingflokka, sem nauðsynleg er til myndunar ríkisstjórnar, er styðjist við meirihlutafylgi á Alþingi. Beðið er eftir því, að þessi mál skipist, enda liggja fyrir Alþingi og ríkisstjórn, nú eins og jafnan, brýn verkefni, sem varða hag og heill þjóðarinnar. Slíkt liggur í hlutarins eðli, og mun ég eigi fjölyrða um það. Hins vildi ég minnast, sem nýlunda er, að þetta þing er kvatt saman á miðju hátíðarári í lífi íslensku þjóðarinnar, og fyrir því liggur innan skamms að halda fund á sjálfu Lögbergi á Þingvöllum við Öxará, þeim fornhelga stað, sem mestur svipur er yfir í sögu lands vors, þeim stað, sem marga bestu menn þjóðarinnar á fyrri öld dreymdi um, að verða mætti aðsetur hins endurreista Alþingis Íslendinga. Fyrir þetta eitt, þótt ekki væri annað, mun þetta þing eiga sér vísan sess í minningum þjóðarinnar á ókominni tíð. Og fyrir þetta mun það verða yður minnisstætt, yður öllum, en þó ef til vill ekki síst þeim alþingismönnum, sem nú taka sæti í þingsölum í fyrsta sinn sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar.

Því að þetta er nýkjörið þing, sem nú kemur saman. Bekkurinn er að þessu sinni setinn, eins og ætið, að meiri hluta af alþingismönnum. sem hafa langa þingreynslu að baki og þjóðin hefur vottað traust sitt með endurkjöri, en einnig nýjum mönnum, sem nú hafa í fyrsta sinn verið kvaddir til þess vegs og vanda, sem þingmennskunni vissulega fylgir. Nú í þingbyrjun býð ég þessa nýliða sérstaklega velkomna til starfa.

En hvort sem eru eldri eða yngri, bið ég yður öll heil til þings komin og óska yður velfarnaðar í störfum yðar. Ég óska Alþingi Íslendinga heilladrjúgra úrræða og athafna. Öllum landsins lýð, óska ég blessunar og bið þingheim að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingheimur stóð upp og forsætisráðherra Ólafur Jóhannesson mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Þingmenn tóku undir þessi orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna fundi, þar til kosning forseta sameinaðs Alþingis hefur farið fram, og bið ég aldursforseta, Guðlaug Gíslason, 3. þm. Suðurlands, að ganga til forsetastóls.