04.09.1974
Neðri deild: 14. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

6. mál, fjáröflun til vegagerðar

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að lengja þessar umr. verulega, heldur hafði ég hugsað mér að mæla hér fyrir þeirri brtt., sem ég er 1. flm. að og er á þskj. 28, en meðflm. mínir að þessari till. eru hv. 5. þm. Vestf., Karvel Pálmason, og hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundsson. En það verður ekki komist hjá því að víkja örfáum orðum í leiðinni að því, sem hér hefur komið fram frá tveimur hv. þm. Sjálfstfl., þar sem þeir hafa verið að ræða um vegamál og vandamál Vegagerðarinnar nú að undanförnu.

Það var út af fyrir sig gaman að heyra hv. 1. þm. Sunnl., Ingólf Jónsson, segja mönnum hér frá því, hvað hann hefði sagt við Halldór E. Sigurðsson, þegar þeir voru að koma sér saman um það, að hækka ætti bensínverðið um 7 kr. á lítra, og þegar hann skýrði frá því, að þetta hefði tekist þannig til hjá þeim, að Halldór hefði misskilið allt, sem hann hefði sagt, Ingólfur, og svo rösklega, að hann hefði búið til frv., lagt það fram hér á Alþ., og reyndar bætti hann því svo við, að það hefði verið misskilningur að leggja frv.fram, það hefði aldrei átt að flytja.

Nú vita, hygg ég, allir þm. hér, hvað hafði verið að gerast í þessum efnum. Þessir tveir verðandi stjórnarflokkar nú fyrir nokkrum dögum, Sjálfstfl. og Framsfl., tilnefndu hvor sinn mann til þess að bræða sig saman um það, hvað skyldi hækka bensínverðið mikið, og það voru þessir tveir hv. þm. Þeir skrúfuðu sig upp stall af stalli til þess að hækka verðið, af því að málið stóð þannig, að báðir héldu, að þeir mundu verða samgrh. Ingólfur trúði því, að hann yrði samgrh., og Halldór hélt, að hann yrði samgrh., og þannig hækkuðu þeir sig og fóru upp í 7 kr. Áður höfðu menn verið að láta sér nægja að tala um 4 kr. og mest upp í 5 kr., en þeir komust eftir þessum leiðum upp í 7 kr. Svo fór þetta þannig, að þegar niðurstaðan af þessu samkomulagi þeirra birtist hér á Alþ., þá gerðist það með þessum eindæmum, að allt varð misskilningur og menn þurftu að fara að þurrka sér um hendur og segja, að enginn vildi að þessu standa. Hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, segir þó a.m.k., að Sjálfstfl. hafi aldrei viljað á þetta fallast, og bætir því við, að hann hafi ekki fallist á þetta nema að tilskildu samþykki Sjálfstfl. Hann þurfti varla að segja okkur frá því, að hann þyrfti á atkv. fleiri manna að halda en bara eigin atkv. til að fá þetta í gegn. Hitt er alveg ljóst, að þeir Ingólfur Jónsson í þessu tilfelli og Halldór E. Sigurðsson hafa komið sér saman um þessa niðurstöðu, og þannig verður það úr, að frv. er flutt hér. Og það vil ég segja við hæstv. sjútvrh., sem hér var að enda við að tala, að hann á að viðurkenna það eins og það er, að þetta frv., sem hér liggur nú fyrir til afgreiðslu, er ekki flutt af fyrrv. ríkisstj. Til þess hafði hæstv. fjmrh. í fyrrv. ríkisstj. enga heimild og leitaði ekki eftir neinu slíku samþykki. Þetta var því ekki flutt á vegum fyrrv. stjórnar, eins og hann lét hér liggja orð að. Þetta var eitt fyrsta frv., sem þeir fluttu sameiginlega, þessir verðandi stjórnarflokkar, Framsfl. og Sjálfstfl., á þennan sérkennilega hátt, sem þm. þeirra urðu svo hræddir við á eftir, þegar það var komið hér á þingborðin.

Þeir töluðu hér allmikið um það, hv. 1. þm. Sunnl. og hæstv. sjútvrh.; að viðskilnaður fyrrv. ríkisstj. við Vegasjóð hefði verið slæmur, framkvæmdakostnaður við vegagerð hefði hækkað um 100% á tilteknu tímabili, og auðvitað átti það allt að vera ríkisstj, að kenna, rétt eins og þessir hv. þm. viti ekki, að það hefur átt sér stað á þessu tímabili gífurleg hækkun á öllum byggingarvörum og framkvæmdavörum. Skyldi timburhækkunin í heiminum vera fyrrv. ríkisstj. að kenna? Skyldi járnhækkunin vera henni að kenna? Skyldi rekstrarkostnaður bifreiða vera henni að kenna, að bensín og aðrar olíur hækkuðu í verði? En þetta eru einmitt meginþættirnir í framkvæmdakostnaði við vega- og mannvirkjagerð, t.d. við brúargerð og vegagerð. Hins vegar voru tekjur Vegasjóðs með þeim hætti samkv. l. frá þeirri stjórn, sem þessir hv. þm. studdu, að þær voru föst upphæð í skatt á hvern innfluttan bensínlitra án tillits til verðs á bensíninu. Tekjurnar stóðu því tiltölulega fastar, nema aðeins í hlutfalli við aukna umsetningu, en útgjöldin fóru auðvitað stórvaxandi. Þegar fyrrv. ríkisstj. gerði tilraun til þess að fá þessar tekjur hækkaðar, náði það ekki fram að ganga hér á Alþ., hvað svo sem þessir hv. þm. segja. Þeir hljóta að sjá sjálfir, hvað það er fjarstæðukennt að halda því fram, að sú ríkisstj., sem flutti frv. um þetta á þinginu, hafi ekki viljað koma með frv. fram. Það vissu allir, að sjálfstæðismenn voru þeir, sem stóðu hér á móti, enda varð hæstv. sjútvrh. að viðurkenna þetta hér í sínu máli, því að hann sagði, að það hefði verið stefna Sjálfstfl., að ríkisstj. yrði að víkja, fyrrv. stjórn yrði að víkja, áður en tekin yrði afstaða til afgreiðslu á þýðingarmiklum málum. Það var þessi afstaða Sjálfstfl., sem gerði það, að hér var allt neglt fast, einnig að fá lausn á aðkallandi vandamálum eins og fjármálum Vegasjóðs. Af þessum ástæðum ber auðvitað Sjálfstfl. fyrst og fremst ábyrgð á því, að það hefur vantað fé í vegasjóð, og það er alveg þýðingarlaust fyrir þessa hv. þm. að reyna að skjóta sér undan þessari ábyrgð. Hitt er svo annað mál, að þrátt fyrir allt þetta hafa framkvæmdir, t.d. á s.l. ári og þessu ári, verið meiri en nokkru sinni áður í vegagerðarmálum og brúargerðarmálum á Íslandi, því að aflað hefur verið tekna til þessara viðbótarframkvæmda með ýmsum öðrum hætti. En eins og ég sagði, ég ætlaði ekki að fara hér í almennar umr. um þessi mál og skal því ekki fara frekar út í það að sinni, en vildi þó gera þessar aths. við það, sem fram hafði komið hjá þessum tveimur hv. þm. Sjálfstfl.

En ég ætlaði að mæla fyrir þeirri brtt., sem ég flyt hér ásamt tveimur öðrum hv. þm. á þskj. 28. Þessi till. gerir ráð fyrir því, að bætt verði við 3. gr. frv., þar sem segir um það, hvernig skuli verja þeim tekjuauka, sem felst í ákvæðum þessa frv. Till. okkar er sú, að við þá gr. bætist, eins og segir í till. orðrétt:

„Þó skal verja fjárhæð sem nemur 2 kr. af hverjum lítra af gjaldi samkv. 1. gr. til þess að leggja bundið slitlag á vegi í þéttbýli samkv. nánari ákvæðum þar um, sem sett skulu í reglugerð.“

Þær tekjur, sem um er að ræða samkv. 1. gr., eru hækkunin á bensíngjaldinu, og gert er ráð fyrir að hækka það um 7 kr. Það, sem í okkar till. felst, er því fyrst og fremst það, að við erum að leggja til, að verði farið í svona mikla hækkun, eins og við töldum mjög líklegt að yrði ofan á, þar sem þessir tveir stóru flokkar höfðu staðið að flutningi þessa frv., þá verði 2 kr. af þessum 7, sem hækka á um, varið til þessara sérstöku framkvæmda. Hverjar eru svo þessar framkvæmdir? Þær eru að veita viðbótarfjárhagsstuðning þeim aðilum, sem nú glíma við það mikla verkefni að koma bundnu slitlagi á vegi í öllum þorpum og kaupstöðum landsins. Við gerum hér ráð fyrir, að þær breytingar nái fram að ganga á vegal., þar sem gert er ráð fyrir því, að þessir þéttbýlisstaðir verði miðaðir við íbúatöluna 200 íbúa á stað. En ég efast ekkert um það, að allir hv. alþm. þekkja það, að það er orðið þannig nú, að eitt mesta vandamálið í öllum þéttbýlisstöðum á landinu, þorpum og kaupstöðum landsins, er einmitt að búa við þá vegi, sem þar eru nú algengastir. Þar er ástandið að verða þannig, að það er ekki líft í þessum bæjum eða þorpum, hvorki þegar þurrkar ganga yfir né heldur þegar votviðrasamt er. Af þessum ástæðum hafa forustumenn í þessum sveitarfélögum gert allmikið til þess að hefja framkvæmdir í þessum efnum, en þeim hefur miðað mjög lítið áfram vegna fjárskorts. En einmitt á þessum stöðum fer fram aðalbílaaksturinn í landinu. Það er á þessum stöðum, þar sem fólkið í landinu er flest, og það er þarna einmitt, sem aksturinn fer fyrst og fremst fram innan um fólkið og innan um alla þá starfsemi, sem þarna á sér stað.

Ég efast ekkert um, að allir hv. alþm. viðurkenna, að framkvæmdir í þessum efnum séu einhverjar þær brýnustu, sem um er að ræða í vegamálum landsmanna, og þá er aðeins spurningin, hvort hér sé lagt til, að of mikið af þeirri sérstöku skatthækkun, sem hér er um að ræða, 2 kr. af 7 kr. hækkun, verði varið í þessu skyni og ákvæði um, hvernig þessu skuli varið, skuli sett í reglugerð. Það er sem sagt opið fyrir samgrh. og samgöngumálayfirvöld landsins að setja reglur um það, hvernig þessu fé skuli varið. Ég geri ráð fyrir því, að ef 2 kr. á bensínlítra yrðu teknar í þessu skyni, mundi það gefa á ársgrundvelli í kringum 200 millj. kr. En augljóst er, að ef frv. yrði samþ. óbreytt, mundu tekjur Vegasjóðs á ársgrundvelli hækka um 700 –800 millj. kr.

Nú hefur komið fram í þessum umr., að þeir, sem að frv. standa, leggja til, að hækkunin á bensíngjaldinu verði nokkru minni, verði 6 kr., en ekki 7. Við, sem flytjum þessa till., værum alveg til samkomulags um að lækka þá þessa tölu okkar eitthvað, ef samkomulag gæti orðið um, að það yrðu ekki teknar 2 kr. af 6, heldur t.d. 1.50 kr. eða þess háttar eða eitthvað aðeins minna og varið í þessu skyni. Ég vil þó taka fram, að ég tel síður en svo, að það sé óeðlilegt, að 2 kr. af 6 kr. hækkun verði varið í þessu skyni. Við munum ekki breyta þessari till. okkar frá því, sem hún er nú, nema við fáum einhverjar undirtektir um, að það væri hægt að ná meginefninu fram með breiðara samkomulagi, ef sú upphæð yrði eitthvað lækkuð, sem í till. felst.

Eins og hefur komið fram í þessum umr. áður, var það svo, að það var lagt til í tíð fyrrv. ríkisstj. að hækka bensíngjaldið um 4 kr. á lítra, og það hefur einnig komið fram hér í umr., að við stjórnarmyndunartilraunir höfðum við Alþb.- menn fallist á, að farið yrði upp í 5 kr. á lítra, en hér er lagt til að hækka bensínið enn meira, og því þykir okkur full ástæða til þess að koma fram með till. um það, að verulegum hluta af þessari hækkun verði varið í þessu skyni. Afstaða okkar til frv. mun mjög fara eftir því, hvernig afgreiðslu þessi till. fær. Hitt er svo aðeins uppgerð karlmennska hjá hæstv. sjútvrh. að tala um, að þessi till. sé full af blekkingum og hún sé ósanngjörn og hún miði að því að draga úr viðhaldi vega og gerð brúa í landinu. Auðvitað veit hann mætavel, að hér er um það að ræða að afla viðbótarfjár í Vegasjóð til vegaframkvæmda, en þessar framkvæmdir, sem hér er um að ræða, eru ekki síður nauðsynlegar en aðrar. Spurningin er þá, hvort vegagerð, þar sem mest er umferðin, á að njóta þess að einhverju verulegu leyti eða ekki.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar. En ég vil samt vænta þess, að þeir, sem standa að þessu frv., taki það rækilega til athugunar, hvort þeir geti ekki fallist á þessa till. eins og hún er eða þá með einhverjum minni háttar breytingum.