28.07.1974
Sameinað þing: 4. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

1. mál, landgræðslu- og gróðurverndaráætlun

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti, góðir áheyrendur. Það er óumdeilanlegt, að Íslendingar eiga tilveru sína sem þjóð landinu að þakka. Það er landinu að þakka, að hér hefur varðveist hrein tunga í ellefu aldir, meðan fjölmörg tungumál smárra þjóða hafa liðið undir lok vegna samskipta við öfluga nábúa. Fjærlægð Íslands frá öðrum löndum hefur ekki aðeins stuðlað að því að verja þá menningu, sem hér dafnaði í upphafi, heldur hefur hjálpað til að þroska hana og tryggt Íslendingum þannig menningararf, sem þeir geta verið stoltir af. Landið hefur átt sinn ríka þátt í því að skapa merkilega þjóðarsögu, þar sem þjóðin hefur þurft á fyrirhyggju og atorku og þrautseigju að halda til þess að geta notið gæða þess. Þegar Íslendingar risu úr áþján eftir margar aldir, var það ástin á landinn og trúin á landið, sem veitti þeim mestan styrk til að berjast fyrir rétti sínum. Í sjálfstæðisbaráttunni var það Ísland ögrum skorið, Eldgamla Ísafold og Ísland farsælda frón, sem skóp skáldum þjóðarinnar og stjórnmálamönnum eldmóð og úthald til að ná hinu langsótta marki, að hér byggi frjáls þjóð í frjálsu landi. Ef til vill sýnir það þó best hin sterku tengsl lands og þjóðar, að þegar íslenskri æsku brann mestur eldur í brjósti í frelsisbaráttunni í upphafi þessarar aldar, valdi hún sér hið stolta kjörorð: Íslandi allt.

Þegar ákveðið var, að Alþingi héldi sérstakan fund á Þingvöllum í tilefni ellefu alda afmælis fastrar byggðar á Íslandi, var ekkert sjálfsagðra en að sá þingfundur væri helgaður landinu. Þetta mátti gera með ýmsum hætti. Þó var brátt komist að þeirri niðurstöðu, að þetta yrði best gert í formi aukinnar landgræðslu og gróðurverndar. Svo vel hagaði til, að Halldór E. Sigurðsson landbrh. hafði 30. nóv. 1971 skipað nefnd undir forustu Eysteins Jónssonar, fyrrum ráðherra, til að gera heildaráætlun um alhliða landgræðslu, og skyldi miða við, eins og segir í skipunarbréfi nefndarinnar, „að hægt væri að minnast 11 alda byggðar á landinu með heildarátaki um landgræðslu og gróðurvernd.“ Nefndin var skipuð mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum og frá mörgum samtökum og stofnunum, sem helst fjalla um landgræðslumál. Nefndin leitaði álits fjölda aðila um allt land og vann mikið starf undir forustu hins ötula formanns síns. Þegar fulltrúar þingflokkanna fóru að kynna sér starf hennar og tillögur, var það fljótt sameiginlegt álit þeirra, að sú landgræðslu- og gróðurverndaráætlun, sem nefndin hafði samið og koma skyldi til framkvæmda á fimm árum, yrði tilvalið mál til meðferðar og afgreiðslu á þjóðhátíðarfundi Alþingis.

Hér er ekki tími til að gera þessari áætlun skil. Aðeins skal á það bent, að með henni er landinu aðeins greidd lítil afborgun af stórri skuld. Á liðnum öldum hefur verið gengið svo nærri gróðri landsins, jafnt af gáleysi og illri nauðsyn, að gróið land er nú talið helmingi minna en á landnámsöld. Þótt margt hafi verið gert vel á síðari áratugum, hefur enn ekki tekist að snúa vörn í sókn. Enn gengur á hið gróna land, og enn eru stór svæði í mikilli hættu. Tilgangur þessarar áætlunar er fyrst og fremst að styrkja vörnina og undirbúa sóknina. Framtíðarmarkið hlýtur að vera það, að aftur stækki gróið land á Íslandi, að þjóðin sýni þannig tryggð sína og ræktarsemi við landið, jafnframt því sem hún fegrar það og bætir sjálfri sér og niðjum sínum til gleði og gagns.

Vér Íslendingar minnumst oft þeirrar réttmætu kröfu vorrar, að Ísland verði aðeins fyrir Íslendinga. Um þá kröfu verður sannarlega að standa traustan vörð á allan hátt. En því aðeins getum við borið þá kröfu fram með fullum rétti, að við sýnum landinu fyllstu ræktarsemi, að við byggjum það vel og byggjum það allt. Það er líka skylda, sem þessi krafa leggur okkur á herðar, að við höldum landinu sem hreinustu og ómenguðustu, andrúmsloftið verði eins hreint og heilnæmt og var fyrir 1100 árum og ár og vötn landsins og hafið umhverfis það haldi sem líkustum hreinleika og þá. Það er lögmál, sem aldrei má gleymast, að tryggðin við landið og trúin á landið er frumskilyrði þess, að íslensk þjóð haldi áfram að vera til.

Þessum orðum mínum vil ég ljúka með því að vitna til kvæðis vestfirska bóndans og skáldsins Guðmundar Inga Kristjánssonar, sem flutt var á Hrafnseyri 17. júní 1944:

Í hillingum bíður Ísland enn

með ögur og núp og sand.

Það leggur með draum og sögu í senn

á sál þína tryggðaband.

Og nú er það vort að vera menn

og verðskulda þetta land.