22.08.1974
Efri deild: 6. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

3. mál, happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Eins og kom fram í þessu nál., hafði ég gert fyrirvara við afgreiðslu málsins og vil leyfa mér að skýra þann fyrirvara nokkrum orðum.

Ég vil byrja á að taka skýrt fram, eins og kom fram hjá hv. frsm. n., að afstaða mín er ekki af því, að ég sé ekki hlynntur eða hliðhollur þeirri framkvæmd, sem hér er um að ræða. Ég tel hana eðlilega og sjálfsagða frá þjóðfélagsins hálfu. En fyrir því, að ég gerði þennan fyrirvara, eru tvær meginástæður.

Í fyrsta lagi er það, að í þeim 1., sem samþ. voru upphaflega 16. maí 1974, í 3. gr. þeirra l., er rætt um verðtryggingu á væntanlegu láni, þegar það kemur til greiðslu. Í öðru lagi er ég algjörlega andvígur þeirri fjáröflunaraðferð, sem í ríkum mæli hefur tíðkast af hálfu hins opinbera, að taka skuldabréfalán og margs konar lán með svokölluðum vísitölu- eða verðtryggingarákvæðum. Ég tel, að það sé búið að skapa slíkan vítahring í þjóðfélaginu með þessu ákvæði, að öllu efnahagskerfi þjóðarinnar stafi stórfelld hætta af. Ég vil því ekki láta það verða fyrsta verk mitt á þingmennskuferli mínum að stuðla að framgangi slíks máls, úr því að það kom hér til umræðu. Ég hefði því talið eðlilegt eða mundi vilja freista þess að fara þess á leit, að þessari umr. yrði frestað, og vita, hvort ekki væri hægt að fá samkomulag um það í fyrsta lagi, að væntanlegt skuldabréfalán verði ekki verðtryggt. Á móti mætti koma til athugunar, að vextir af skuldabréfunum yrðu þeim mun hærri. Við lifum í þjóðfélagi, sem er ákaflega — ja, hvað á maður að segja, hér ríkir almennt geysilega mikil happdrættisvinningsgleði, þannig að það virðist vera mjög mikil ásókn í að kaupa hvers konar happdrættismiða, sem gefa von um skjótan og mikinn vinning, svo að mér er það mjög til efs, að bréf eins og þessi mundu ekki seljast, þó að þau væru ekki með verðtryggingarákvæði. Mætti hins vegar taka til athugunar að hafa vaxtakjör á þessum bréfum mun hærri, þannig að hægt væri að hafa hærri og fleiri vinninga.

Í öðru lagi, úr því að ég er farinn að taka til máls um þetta mál, vil ég einnig geta þess, að afstaða mín í sambandi við afgreiðslu þessa máls mótast einnig af því, að ég tel ákaflega vafasama þá afgreiðslu á málum eins og þessu, sem þingheimur og almenningur er sammála um, að eigi að hafa forgang í framkvæmd, að sé verið að stofna til þess að samþykkja sérstök lög um einstaka framkvæmd eins og þessa, sem hér er til umr.

Ég tel, að framkvæmdir um happdrættislánin vegna hringvegarins hafi verið algjör sérstæða, en að fara að taka einstaka stutta vegakafla, hversu þarflegir sem þeir kunna að vera, og það eigi að byggjast á harðfylgi einstakra þingmanna um framgang slíkra mála, það tel ég mjög vafasama aðferð. Ég vara við þeirri afgreiðslu, og ég gæti ímyndað mér, að hún gæti leitt þingið út í ógöngur. Ég tel, að þó að afgreiðslu þessa máls yrði frestað eitthvað og málið athugað eilítið betur, þá sé ekki hætta á ferðum. Eftir að gefin var sú yfirlýsing við umr. um frv., þegar málið var hér til 1. umr., að þegar væri búið að tryggja nauðsynlegt fjármagn til framkvæmda vegarins á yfirstandandi ári, þá hygg ég, að það sé enginn skaði skeður, þó að tækifæri gefist til að skoða þetta mál eilítið betur.