19.12.1974
Neðri deild: 30. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Frsm. meiri hl. (Pétur Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér er ekki ástæða til þess að vera orðmargur um þetta frv. Það hefur þegar verið rætt mjög ítarlega hér í d. við 1. umr. málsins. Víð höfum haft það til meðferðar í sjútvn. d. og eins og kemur fram í nál. okkar leggjum við til, að frv. verði samþ. með tveimur breytingum.

Hér hefur verið, eins og ég sagði, ekki aðeins mikið rætt um þetta á hv. Alþ., heldur hafa blaðaskrif orðið nokkuð mikil um þetta mál, og það hefur verið gert á nokkurn hátt að tilfinningamáli ákveðinna aðila, um leið og það er að sjálfsögðu hagsmunamál, og hinir furðulegustu aðilar í þjóðfélaginu hafa risið upp til þess að verja hinn óbrenglaða Wallstreet-kapítalisma sem virðist koma fram í þeirri aðgerð sem hefur verið gerð á Blönduósi.

Það, sem ég undrast persónulega hvað helst og er kannske það sem fyrst og fremst ákveður mína afstöðu, eru önnur lög sem koma inn á þetta svið og hafa gífurlega þýðingu fyrir þá sem að vinna. Ég á þar að sjálfsögðu við lög um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Við skulum ekki gleyma því, að annað aðalákvæði þeirra laga í sambandi við verðlagningu til sjómanna og útgerðarmanna er um framleiðslukostnað, ekki aðeins erlenda verðið, heldur og framleiðslukostnað. Ég held að það hljóti að segja sig sjálft að þegar ákveðið magn er gefið sem má vinna en bætt er við verksmiðjum, þá er líka verið að gefa undir fótinn með það að það sé verið að leggja meira til þeirrar framleiðslu, sem þarna á að vinna, heldur en ástæða væri til ella. Þetta er önnur meginröksemd mín fyrir því að samþykkja þetta frv., að við þurfum að hafa nokkurt eftirlit með, hvernig slíkar verksmiðjur séu staðsettar hér á landi, m.a. vegna þessa.

Í öðru lagi skulum við taka fullt tillit — eða ég legg það a.m.k. til og því mæli ég með samþykkt frv., að við tökum fullt tillit til þeirra vandræða sem verið hafa á þessu landssvæði, og þar á ég við atvinnuleysið. Ég er búinn að vera um nokkuð langt árabil í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, og ég minnist þess ekki að það hafi verið neitt í líkum mæli erfiðleikar á því sviði á Blönduósi og á öðrum byggðasvæðum, öðrum kauptúnum við Húnaflóa. Það hafa hins vegar verið miklir erfiðleikar þar, og þegar rækjuveiðar og rækjuframleiðsla hófst á sínum tíma við Húnaflóa var það eins og guðsgjöf fyrir þá staði sem bjuggu við árlegt og reyndar vaxandi atvinnuleysi, Ég vitna til orða, sem hafa komið fram frá áhrifamönnum úr nágrannabyggðum Blönduóss sem segja, eins og hlýtur auðvitað að vera rétt og er rétt, að þegar fleiri koma til þess að veiða og vinna ákveðið magn sem má veiða, þýðir það auðvitað styttri atvinnutíma hjá þeim sem fyrir voru. Ég held þess vegna að það, sem þarna sé verið að gera, eigi fullan rétt á sér, þótt ég hins vegar taki undir það sem komið hefur fram hjá hinum nýju baráttumönnum einstaklingsfrelsis og kapítalisma, að það er auðvitað hálfleiðigjarnt að þurfa að standa að slíkri löggjöf. En ég bendi þó hins vegar á það, að ég minnist þess ekki að í neinu í okkar þjóðfélagi, neinu atriði, neinu máli séu ekki vissar takmarkanir settar á frelsi einstaklingsins til framkvæmda og jafnvel fjárfestingar líka.

Meiri hl. n., 6 aðilar í n., 5 auk mín, Sverrir Hermannsson, Tómas Árnason, Garðar Sigurðsson og Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, mæla með að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem koma fram í nál, okkar á þskj. 195.