19.12.1974
Efri deild: 35. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Enda þótt mér sé ljóst að það sé ýmislegt í þessu frv. sem hér um ræðir sem orkar tvímælis, þá sýnist mér að í öllum meginatriðum séu farnar troðnar slóðir, og þess vegna hef ég mælt með frv. óbreyttu. Hér er um viðkvæmt vandamál að ræða, og ég gat ekki séð að við gætum komið á breytingum sem yrðu til batnaðar.

Ég kom hér fyrst og fremst til þess að segja nokkur orð vegna ummæla hv. 5. þm. Norðurl. e. á þann veg að útgerðin á Suðurnesjum væri verst rekna útgerð í landinu. Nú er svolítið erfitt að sanna að svo sé ekki, en mér finnst þetta svo mikið öfugmæli að þótt ég sé nú ekki mikið fyrir að fara í pontuna, þá komst ég ekki hjá því að segja örfá orð um þetta.

Mér sýnist nefnilega að þingkjörnar stjórnir undanfarinna ára hafi lítið svo á að útgerðin á Suðurnesjum væri svo vel rekin að hún þyrfti alls ekki að sitja við sama borð og útgerð annars staðar á landinu. Með þessu tel ég í raun og veru því fullsvarað sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði. Ein af þeim ástæðum, sem valda því að útgerðin á Suðurnesjum er núna í öngþveiti, er að sjálfsögðu sú að hún hefur í mörg ár ekki notið sömu lánafyrirgreiðslu og sama fjármagns og útgerð annars staðar á landinu. Þetta veldur m. a. því að þessi útgerð verður nú að sætta sig við 24% refsivexti í stórum stíl. og ég veit að fjármálamenn a.m.k. hafa hugmynd um hvað það þýðir. En það eru fleiri ástæður sem valda erfiðleikum, m.a. sú ástæðan að afli á Suðurnesjum á vetrarvertíð nú 1974 muni vera á milli 40 og 50% minni en á árinu á undan, og ég held að jafnvel hv. þm., sem hér talaði síðast, fallist á að þetta hafi einhverja þýðingu, einkum þar sem um mörg undanfarin ár hefur þetta verið svo, eins og ég sagði áður, að útgerðin hafi átt við lakari kjör að búa en aðrir útgerðaraðilar í landinu. Hann taldi mikið til fyrirmyndar útgerðina á Húsavík og einkum að þar ættu menn sína báta sjálfir og hefðu þess vegna persónulegra hagsmuna að gæta og allt gengi þar vel. Þetta er nákvæmlega það sem segja má um alla Suðurnesjaútgerð. Þar er ekki einu sinni til ein einasta bæjarútgerð. Þar eiga sjómennirnir bátana sína sjálfir, og það er ekki neitt smáræði, því að þessi útgerð færir að landi milli 20 og 30% af öllum bolfiskafla í landinu og hefur komist yfir 30%. En hins vegar er það svo, að ég býst við að framtíðin muni verða heldur dekkri á þessu svæði en verið hefur, og hef ég þar einkum í huga að ég býst við því að hið gengdarlausa smáfiskadráp fyrir Norður- og Austurlandi, bæði erlendra og innlendra aðila, á undanförnum árum, sé farið að segja til sín og gotfiskurinn og netafiskurinn, eins og getið var um áðan að væri ekki góð vara, fer nú hraðminnkandi, — þetta sé ein orsökin til þess og við eigum eftir að finna fyrir minnkandi afla á komandi árum.

Ég vil einnig gera aðeins skil því sem hv. þm. sagði um olíunotkun skuttogara. Hann vildi ekki fallast á það, að afkoma skuttogaranna væri slæm, og gat um togara, sem græddu, en sagði samt að þeir eyddu kg af olíu á móti kg af veiddum fiski. Hann sagði margt annað fróðlegt. En ég skal nú leiðrétta þetta aðeins, því að ég get ekki hugsað mér hvernig í ósköpunum hægt væri að láta það skip bera sig sem þannig væri ástatt um. Hins vegar er ástandið ekki alveg svona slæmt. Eftir þeim heimildum, sem ég hef fengið annars staðar að, er það svo, að til þess að veiða 9 þús. kg af fiski, sem er meðaldagsveiði skuttogara núna, þá eyða þeir ,5 þús. kg af olíu. Hvort tveggja er slæmt, en þetta er þó mun skárra. Ég vil leggja áherslu á að það er að því leyti rétt, sem hv. þm. sagði um þá skiptingu sem nú er verið að gera. Við vitum að þeir fjármunir, sem hér er verið að skipta, eru í rauninni að langmestu leyti fjármunir bátaútvegsins og fiskvinnslunnar. Skuttogararnir — og togaraflotinn — eiga þar ekki stóran hlut. Hann verður stærri síðar meir, en á árinu 1974 er hann enn ekki nema ca. 1/4 af þeim bolfiskafla sem á land kemur.

Suðurnesjamenn hafa farið varhluta af þessari nýtísku útgerð. Það er ekki Keflavíkurflugvelli eða Straumsvík að kenna. En það er fyrst og fremst því að kenna að þeir fá ekki sömu fyrirgreiðslu og aðrir landsmenn. Ég held að það verði ekki fyrst og fremst mannaflaskortur sem veldur því, að bátarnir á Suðurnesjum komast ekki út, en það gæti orðið fjármagnsskortur. Og því er ekki að leyna, að það er mikil óánægja einmitt með þetta atriði í okkar kjördæmi. Það er vitað mál, að áratugum saman hafa Suðurnesin verið ásamt Vestfjörðum afkastamesta veiðisvæði landsins, fiskur þar sjaldan brugðist og útgerðin lengst af staðið með blóma. En af ýmsum ástæðum, bæði ástæðum sem ég hef getið um og ástæðum, sem við vitum ekki um, þá virðist svo sem fiskimagn við Suðurnes sé að ganga til þurrðar, og það er að sjálfsögðu ein aðalskýringin á erfiðri afkomu í ár.