19.12.1974
Neðri deild: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

106. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Tveir nm. sjútvn, eru sammála um að gefa út nál., það hefur verið lagt inn til prentunar og hefur ekki enn komið til útbýtingar. Við leggjum þar til, þ.e. formaður n., hv. 8. þm. Reykv., og ég, að frv. verði samþ. óhreytt eins og það kom frá Ed.

Frsm. meiri hl. ræddi þetta mál nokkuð ítarlega hér og fannst mér þar sumt skjóta nokkuð skökku við, þar sem ég hélt að það væri eilífðargangur í þessu máli hjá okkur, a.m.k. miðað við haus fyrri sjónarmið í sambandi við heimildir til erlendra aðila, um að veita undanþágu til fiskveiða hér innan fiskveiðimarkanna.

Ég vil benda á það í sambandi við þessar loðnuveiðar, að það má segja að það sé dálitið sérstakt með þær. Eins og allir eða sennilega flestir vita, sem nokkuð þekkja til sjávarútvegs, þá hagar loðnan göngu sinni á þann veg að hún kemur hér norðan úr höfum, gengur fyrir austan land suður með landinu og vestur fyrir það og norður fyrir aftur og þar segja fiskifæðingar að hún lognist út af eftir fyrstu og aðra hrygningu. Þetta frv., eins og það kom frá Ed., gerir ráð fyrir að einum tilteknum íslenskum aðila verði veitt heimild til loðnuveiða hér við land á erlendu skipin, sem hann er meðeigandi að, enda landi hann loðnunni á svæðinu frá Patreksfirði norður um til Seyðisfjarðar.

Nú hafa fiskifræðingar spáð því að í hönd fari einhver besta loðnuvertíð sem við getum átt von á, meira loðnumagn, að þeir telja heldur en við höfum áður þekkt. Mér sýnist því auðsætt að það verði ekki um það að ræða að skipin þurfi að slást um loðnuna, það verði nægilegt magn, aðeins komi til með að standa á að vinna hana í landi.

Þá er spurningin þessi. — Í þessu tilfelli er um að það að ræða að sá aðili, sem þar um ræðir, fái aðeins leyfi til að landa loðnunni á svæðinu frá Patreksfirði norður um að Seyðisfirði: Á sú loðna, sem gengur þessa leið, frekar að fá að ganga áfram norður um land og lognast þar út af og hverfa, frekar en leyfa þessum aðila að veiða hana að því marki sem hann getur á þessu eina skipi og landa henni hjá þeim stöðvum á þessu svæði sem beinlínis vantar hráefni á þessum tíma? Það er ekki von til þess, að íslensk skip landi framan af loðnuvertíð á svæðinu frá Patreksfirði og fyrir Norðurlandi. Ég vil benda á að einmitt þær verksmiðjur, sem þarna er um að ræða, og það fólk, sem á þessu landssvæði býr, vantar hráefni, fólkið vantar atvinnu, og eigum við frekar að láta loðnuna fara norður fyrir land og lognast út af eða láta verksmiðjurnar fá hana til vinnslu og fólkið fá atvinnu við að vinna hana? Ef hér væri um það að ræða að sótt væri um leyfi til að veiða loðnu og landa henni hvar sem er á landinu, eins og önnur íslensk skip gera, þá mundi ég alveg hiklaust vera á móti því því að það mundi ekki vera til annars en að taka veiðina og veiðimöguleikana frá öðrum íslenskum skipum, því að það hefur sýnt sig að þegar um mikla loðnugengd er að ræða, þá er það vinnslan í landi sem stendur á, en ekki veiði skipanna. Á þessu er sá reginmunur, að ég hygg að ekki einn einasti þm. mundi vilja standa að því að leyfa erlendu skipi, jafnvel þó að um íslenskan skipstjóra og íslenska áhöfn væri að ræða, veiðar ef ætlunin væri að leggja loðnuna á land á þeim stöðum þar sem vitað væri að verksmiðjurnar mundu ekki anna þeirri veiði sem íslensk skip leggðu þar á land.

Ég held að hv. Ed. hafi ekki gert neitt glappaskot þarna, eins og frsm. meiri hl. vildi vera láta, heldur hafi hún gert sér alveg fulla grein fyrir að þarna er verið að færa á land verðmæti, atvinnu handa fólkinu og útvegsatvinnu fyrir þjóðina í heild, aukna veiðimöguleika til löndunar á þeim stöðum þar sem hráefni vantar og fólkið vantar atvinnu. Þetta er að mínum dómi grundvallaratriði og kjarni málsins.

Ég er ekkert hræddur um að þetta þurfi að verða nokkurt fordæmi. Ég efast um það að það séu margir íslendingar sem vildu taka á leigu skip upp á þessi býti, að þurfa að sigla með allan afla norður fyrir land. Íslendingar hafa veigrað sér við að þurfa að gera það, þeir gera það í hreinum neyðartilvikum og þá aðeins stærstu skipin, svo að ég er ekkert hræddur um neitt fordæmi í því sambandi.

Ég skal taka það fram að það var alveg ákveðin skoðun okkar, sem að minnihluta nál. stöndum, að varðandi þau ákvæði eða ábendingar, sem fram koma í bréfi LÍÚ um flutningasjóð og olíuverð, aðild að vátryggingasjóði og stofnfjársjóð, kemur auðvitað ekki til mála að þetta skip njóti nokkurra þeirra fríðinda sem íslensk skip njóta. Það fær aðeins leyfi til veiðanna og verður að stunda þær án þess að það komi til greina að það fái flutningskostnað greiddan, fái olíu á því verði sem íslensk skip fá niðurgreidda olíu eða aðild að vátryggingasjóði eða stofnfjársjóði. Það liggur alveg ljóst fyrir frá okkar hendi, að við teljum að þetta komi ekki til greina, og má ekki skoða samþykkt frv. þannig að nokkurt fyrirheit sé um þetta veitt.

Hv. frsm. meiri hl. taldi þetta mál mjög fráleitt og aðalrök hans fyrir því voru þau að landhelgin væri allt annað en fiskveiðimörkin, landhelgin væri okkar eign, og vildi segja þar með að fiskveiðimörkin væru það ekki. Ég hef aldrei heyrt slíka undansláttarstefnu í okkar málum í sambandi við útfærslu fiskveiðilandhelginnar eins og þessa yfirlýsingu, að telja að fiskveiðimörkin séu ekki eign okkar íslendinga. Landgrunnið allt er samkv. l. frá 1968 okkar eign. Um það gilda íslensk lög sem hér hafa verið samþykkt og ekki mótmælt af neinum erlendum aðilum. Þau eru óvefengjanlega okkar eign. Við höfum alltaf haldið fram, sem höfum talað um fiskveiðimörkin, að öll verðmæti í hafinu fyrir ofan landgrunnið séu jafnhliða okkar yfirráðasvæði og þar með okkar eign. (Gripið fram í: Þetta er misskilningur eða ofheyrn, nema hvort tveggja sé.) Það er alveg örugglega hægt að sjá þegar það kemur á prenti, að þetta var það sem hv. þm. sagði, að landhelgin væri okkar eign, sem þýðir það auðvitað, að hann meinar að ytri fiskveiðimörkin séu ekki okkar eign. En þetta er ekki það sem skiptir máli. Ég vil segja það, að þeir aðilar sem stóðu að því og hafa staðið að því að veita erlendum aðilum, við skulum segja t.d. bretum, — þá var um að ræða 137 skip, ef ég man rétt, sem eru bresk eign með breskri áhöfn og landa aflanum í sinni heimahöfn, sækja hann hingað á Íslandsmið fyrir Vestfjörðum, Norður- og Norðausturlandi, þar sem þeir vaða í smáfiskinum, sem er á uppeldisstöðvum ungfisksins okkar, og rýra þar með meira en nokkuð annað sem gert hefur verið, þann fiskstofn sem við í framtíðinni eigum að byggja á, — þeir menn, sem hafa fylgt þeirri stefnu, ættu ekki að koma hér upp í ræðustól og halda því fram að það frv., sem hér liggur fyrir, sé einhvers sérstaks eðlis og gangi miklu lengra en þau leyfi sem erlendir menn hafa fengið.

Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi: Þetta er sérstakt mál að því leyti að þarna er um að ræða að bjarga loðnu til lands frá því að lognast út af fyrir Norðurlandi, færa hana til verksmiðjanna, sem á þessu svæði hungrar eftir hráefni, og færa því fólki, sem á því svæði er, atvinnu yfir þann tíma sem það annars hefði ekki möguleika á atvinnu við þau störf sem unnin eru í verksmiðjunum.