20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

1. mál, fjárlög 1975

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Þegar núv. ríkisstj. var mynduð var oft komist svo að orði í málgögnum hennar fyrstu dagana á eftir, að þetta væri sterk ríkisstj., hún hefði á bak við sig 42 þm. af 60, og það væri nú einhver munur að stjórna landinu með þvílíkan þingstyrk að baki eða vera í sömu aðstöðu og vinstri stjórnin var, þar sem ekki mátti muna einum manni svo að allt snaraðist, eins og raunar gerðist að lokum. En reynslan hefur sýnt að þessi ríkisstj. er ekki eins sterk og þessi atkvæðatala bendir til. Þvert á móti Ég held að þessi fjárlög séu til marks um það, að þessi ríkisstj. er ákaflega veik. Hún er veik vegna þess að það skortir samstöðu, skortir gagnkvæman trúnað milli þeirra flokka sem að henni standa. Þeir þykjast að vísu ætla að framfylgja tiltekinni stefnu, en þeir koma sér ekki saman um nein vinnubrögð í því sambandi. Í stað þess kemur samkeppni um að klófesta fé, um að verja fé í ýmsar þarfir eftir áhugamálum manna og í ýmis kjördæmi eftir áhugamálum manna. Það er ekki síst þetta, sem hefur blásið fjárl. svo út, að þau eru orðin að algjörri ófreskju sem enginn tekur mark á og allra síst fylgismenn núv. hæstv. ríkisstj.

Eðli þessara fjárlaga var glögglega rakið í ræðu hv. þm. Geirs Gunnarssonar í dag og get ég vísað til hennar um þau atriði og ætla ekki að fjölyrða meira um þessi fjárlög sem eru, eins og ég gat um áðan, til marks um innri veikleika þessarar ríkisstj. þó að hún þykist vera sterk á hinu ytra borði.

Ég er sammála hv. þm. Geir Gunnarssyni um það, sem hann lagði áherslu á í dag, að ljótasti smánarbletturinn á þessu fjárlagafrv. er sú hlið, sem snýr að öldruðu fólki og öryrkjum á sviði almannatrygginga og þá sérstaklega að því fólki sem ekki hefur neinar aðrar tekjur en þær sem það fær frá tryggingunum. Þegar frv. lá hér fyrir til 2. umr. var ljóst, að ekki var gert ráð fyrir neinni hækkun til þessara hópa. Till. hæstv. heilbr: og trmrh. voru meira að segja þannig, að það var ekki gert ráð fyrir því að sú 3% almenna kauphækkun, sem tók gildi 1. des., færi til aldraðs fólks og öryrkja. Hæstv, ráðh. fékk þessi 3%, en hann gerði ekki till. um það til Alþ. að aldrað fólk og öryrkjar fengju þessa hækkun. Sama máli gegndi um 3% hækkun, sem allir eiga að fá frá 1. júní á næsta ári. Það var ekki fyrr en nú, þegar búið var að gagnrýna þetta við 2. umr. fjárlaga, að það er leiðrétt. En þetta er eina leiðréttingin, sem fram hefur fengist. Það hefur ekki fengist nein önnur leiðrétting á þeim þáttum fjárlagafrv. sem snúa að þessu fólki sem á afkomu sína undir greiðslum frá almannatryggingum.

Hv. þm. Geir Gunnarsson tók í dag ákaflega athyglisverð dæmi um það hvað kaupmáttur tryggingabóta hefði skerst gagnvart algengustu neysluvörum almennings. Þær tölur, sem hann nefndi, sýna hversu ótrúlega mikið kjörin hafa verið skert á aðeins 31/2 mánuði, sem liðið hefur síðan núv. ríkisstj. tók við. Mér er spurn, og mér er spurn í fullri alvöru: Telja hv. þm. stjórnarflokkanna að ástand íslenska þjóðfélagsins sé orðið slíkt, að við verðum að leysa vandamálið á kostnað fólks, sem hefur ekki nem 20 þús. kr. rétt rúmlega í allar tekjur á mánuði? Enda þótt allar lýsingar hæstv. ríkisstj. og sérfræðinga hennar á efnahagsvandamálum þjóðfélagsins séu réttar, þá hygg ég að það verði hvergi fundnar neinar röksemdir fyrir því að við séum svo illa settir að við verðum að ganga á kjör þessa fólks, sem hefur tekjur sem ég nefndi áðan, 20 þús. kr. á mánuði. Mér finnst vera algerlega ósæmilegt að ráðast á þetta fólk, eins og gert er í þessu frv., og ég var satt að segja ákaflega undrandi að enginn þm. stjórnarflokkanna skyldi greiða atkv. með þeirri till., sem ég flutti hér fyrir hönd Alþb. við 2. umr., um sérstaka fjárveitingu til að tryggja að aldrað fólk og öryrkjar fengju bætur í samræmi við verðbólguna. Við höfum séð síðustu dagana, að það eru þm. úr stjórnarliðinu sem hafa flutt hér frv. um breyt. á almannatryggingakerfinu, breytingar sem ég hef síst af öllu nokkuð á móti. En mér finnst undarlegt ef þeir sömu menn geta varið það fyrir samvisku sinni að greiða atkv. gegn því að réttur sé hlutur þeirra viðskiptavina trygginganna sem eru verr settir en nokkrir aðrir. Menn eru sem betur fer mismunandi settir. Það eru ekki allir á þessu stigi, sem ég var að lýsa hér áðan. En við verðum fyrst að leysa vanda þess fólks, sem býr við verst kjör, og ef við erum ekki menn til að taka á því, þá getum við ekki gert till. um breytingar á kjörum annarra, sem eru þó skár settir.

Ég vil vekja athygli á því, að í brtt. þeirri, sem ég flyt á þskj. 236, er prentvilla, þar sem stendur að lagt sé til að 800 millj. verði veittar til að greiða uppbót á tekjutryggingu til aldraðs fólks og öryrkja skv. framfærsluvísitölu, þar eiga að standa 500 millj. Ég flutti við 2. umr. till. um 800 millj. Hún var felld, og ég get ekki skv. þingsköpum flutt sömu till. aftur, auk þess sem ég vildi láta á það reyna hvort hv. þm. væru tilbúnir að taka eitthvað undir dálítið lægri upphæð.

Eins og ég gerði grein fyrir við 2. umr. fjárlaga er upphæð sú, sem á að renna til tekjutryggingar í þessum lið sem till. fjallar um, um 1100 millj. kr. á næsta ári skv. fjárlagafrv. Miðað við þá verðbólgu, sem sérfræðingar ríkisstj. segja að nú sé fyrirsjáanleg, eru þessar 500 millj. einvörðungu nægilegar til þess að greiða uppbót skv. vísitölu ofan á tekjutrygginguna sjálfa, þ.e.a.s. við þá viðbót, sem það fólk fær sem hefur ekki neinar aðrar tekjur en tekjurnar frá almannatryggingum eða mjög litlar tekjur aðrar. Till. er aðeins um að þessi viðbót verði verðbætt, ekki heildarupphæð einu sinni, þannig að það er ekki hægt að komast öllu lægra í tillögugerð af þessu tagi. Og ef menn líta á þessa upphæð, 500 millj., og segja: „Ja, hún er nú nokkuð stór þrátt fyrir allt,“ þá vil ég biðja menn að minnast þess, að þetta er ekki nema 1% af fjárlagaupphæðinni. Og skyldi nú ekki vera hægt að spara 1% af æðimörgum liðum þessa frv.? Ef vilji væri fyrir hendi til að sinna þessu réttlætismáli, þessu félagslega réttlætismáli, þá væri enginn vandi að leysa þá hlið málsins, ekki nokkur vandi.

Hér á þingi eru m.a. menn sem telja sig vera fulltrúa verkalýðssamtaka, en greiddu samt atkv. gegn þeirri till. sem flutt var. Ég vil minna þá menn sérstaklega á það, að í ályktun, sem Alþýðusambandið gerði um kjaramál nú nýlega, var fjallað um kjör aldraðs fólks og öryrkja sem hluta af kjaramálavanda alþýðusamtakanna. Alþýðusamtökin lýstu því yfir þar, að þau teldu að það væri einnig þeirra verkefni að reyna að rétta hlut aldraðs fólks og öryrkja. En það verður að gerast hér á þingi. Við, sem hér erum, eigum að gæta þessa verkefnis. Þetta fólk hefur engin samtök. Það getur ekki beitt afli samtaka til að ná rétti sínum. Við vorum kjörnir á þing til að gæta þessa réttar, og ef við bregðumst honum tel ég að við séum að setja á okkur alvarlegan blett.

Ég hef komið með varatill. við þessa till., ef svo skyldi fara að hún yrði felld, ef menn væru svo kaldrifjaðir að þeir felldu þessa till. rétt fyrir jól. Varatill. er á sama þskj., 236 VIII. Þar er lagt til að í heimildarákvæðum verði nýr liður, heimild handa ríkisstj. til að greiða uppbót á tekjutryggingu til aldraðs fólks og öryrkja skv. framfærsluvísitölu. Þarna er farið fram á það eitt, að ríkisstj. verði heimilað að gera þetta. Mér þykir satt að segja ákaflega forvitnilegt að sjá hvort slík till. verði einnig felld, hvort meiri hluti Alþm. vill ekki heimila ríkisstj. að greiða slíkar uppbætur á tekjur þeirra sem búa við skarðastan hlut í þjóðfélaginu. Það eru slíkar heimildartill. til annarra hópa í 6. gr. fjárl. og þær heimildir hafa verið notaðar. Þar er um að ræða embættismenn t.d., þannig að það er vissulega fordæmi fyrir því, að slíkar greiðslur séu í heimildagr. Fari svo að beina till. um ákveðna upphæð verði felld, þá mun ég leggja mikla áherslu á að þessi heimildartill. verði alla vega samþ.

Önnur till, sem ég vil gera grein fyrir, er á sama þskj., 236, VII, 2. tl. Þar er lagt til að inn verði tekinn nýr liður:

„Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka allt að 1000 millj. kr. lán innanlands eða utan til þess að hraða nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu, m.a. með lagningu á stofnlínum og endurbótum á dreifikerfum.“

Nú er ég vissulega í hópi þeirra manna, sem telja að núv. ríkisstj. seilist æðilangt í þessum fjárlögum til lántöku bæði innanlands og utan, og ekki aðeins í þessum fjárl., heldur í ýmsum lagabálkum sem liggja fyrir þessu þingi. Ég er í þessum hópi. En ég er þeirrar skoðunar að þessar heimildir, sem ríkisstj. er að leita eftir, séu fyrst og fremst til marks um glundroðann innan stjórnarliðsins, til marks um það að ríkisstj. og hennar flokkar hafa ekki komið sér niður á neina röðun verkefna. Þeir eru ekki búnir að gera það upp við sig hvað eigi að ganga fyrir og hvað eigi að sitja á hakanum, því að ekki er hægt að gera allt í senn. (Gripið fram í.) Já, ég vil gera það. Ég vil gefa hæstv. ríkisstj. heimild til þess að taka sérstakt lán til að hraða nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíu, vegna þess að ég tel að það eigi að vera algert forgangsverkefni á Íslandi næstu árin. Það er það ekki skv. frv., en ég vil að ríkisstj. verði heimilað að gera það. Skv. frv. á að leggja linu frá Andakílsárvirkjun að Laxárvatni í Austur-Húnavatnssýslu. Það var þessi lina, sem hæstv. iðnrh. stöðvaði í haust þegar búíð var að undirbúa lagningu hennar, hægt var að hefjast handa 15. sept. Hann stöðvaði hana, en nú leggur hann til að hún verði lögð, þ.e.a.s. þessi kafli hennar, á næsta ári, veik lína frá Andakílsárvirkjun að Laxárvatni.

Nú skulum við minnast þess, að Sigölduvirkjun á að koma í gagnið 1976, og þá ríður á að komin sé lína sem tryggi norðlendingum raforku frá Sigölduvirkjun og geti flutt fullt orkumagn. Ef það á að nást, þessu marki verði náð á sama tíma og Sigölduvirkjun hefur vinnslu, verður að gera miklu meira á næsta ári en að leggja þessa línu sem gert er ráð fyrir í frv. Hæstv. ráðh. gerði grein fyrir því að kostnaður við línuna, eins og hún á að verða endanlega, sé rúmar 1000 millj. En þessi lína verður ekki tilbúin til þess að flytja þá orku sem hún getur flutt, nema lagt verði meira í þetta á næsta ári, þannig að það er alger fásinna að gera ekki ráð fyrir því, að ríkisstj. verji meiri fjármunum til þessara þarfa, ef mönnum er nokkur alvara með það að við reynum að nýta okkar eigin orkulindir í stað innfluttrar olíu.

Ég minntist á það hér fyrir nokkrum dögum, að ég teldi alveg nauðsynlegt að hefjast handa á næsta ári um að hanna línuna frá Kröflu og til Austurlands. Það eru allar horfur á því að Kröfluvirkjun geti tekið til starfa jafnvel fyrr en bjartsýnustu vonir voru um, og það er ekkert vit í öðru en slík stofnlína sé þá tiltæk. Það var ákaflega undarleg kenning, sem hæstv. iðnrh. flutti hér á dögunum þegar hann sagði að hann væri ekkert að mótmæla þeirri skoðun minni að það þyrfti að tengja saman orkuveitusvæðin, en hann væri hins vegar þeirrar skoðunar að það ætti að virkja fyrst og tengja saman á eftir. Þetta er speki, sem ég get ekki skilið. Ég held að hver virkjun þurfi markað, og það þýðir ekkert að virkja ef ekki er markaður. Forsenda þess, að hægt sé að virkja, t.d. fyrir norðan, er að það tengist við markað fyrir sunnan. Var það alltaf ætlun okkar í fyrrv. ríkisstj. að Sigöldur virkjun fengi markað hjá sem allra stærstum hluta þjóðarinnar, en til þess að þetta geti gerst verða stofnlínuframkvæmdirnar að haldast í hendur við virkjunarframkvæmdirnar, alveg á sama hátt og við tengdum saman Búrfellsvirkjun og Reykjavík á sama tíma að sjálfsögðu. Hvað þýðir að hafa virkjun sem ekki er tengd markaði?

Ég er líka þeirrar skoðunar, að það hljóti að koma til þess og ætti að koma til þess á næsta ári að tekið verði að kanna línustæði til Vestfjarða frá þessari línu um Vesturland til Norðurlands. Ég held það sé alveg óhjákvæmileg nauðsyn. Það er alveg rétt, eins og sagt var hér í dag, að Vestfirðir eru lakast settir að því leyti til, að þar hafa farið fram minni virkjunarrannsóknir en á nokkrum öðrum stað á landinu og þar er ekki völ á neinum umtalsverðum jarðhita. Auk þess skulum við minnast þess, að stofnlinur einar nægja ekki. Dreifikerfin eru alls staðar of veik. Það verður að styrkja þau og endurnýja. Það er mjög kostnaðarsamt, en það er forsenda þess að við getum tekið upp rafhitun húsa. (Gripið fram í.) Vissulega, það er allt fullt af vandamálum í orkumálum og þess vegna flyt ég þessa till. um að ríkisstj. fái heimild til þess að afla fjár til nauðsynlegra framkvæmda á þessum sviðum. Ég vænti þess að þeir þm., sem hafa undanfarin 3 ár haldið æðimargar ræður um orkumál af ýmsum tilefnum, manni sig nú upp í að fylgja svona till. Þetta er ekki nema heimild, og þeir treysta væntanlega ríkisstj. að fara vel með þær heimildir sem henni eru veittar hér á þingi.

Á þskj. 236 er enn ein till. sem ég flyt við 4. gr., þann kafla sem fjallar um utanrrn. Þar legg ég til að sendiráð Íslands í Brüssel og fastanefnd Íslands hjá NATO, sá liður verði lagður niður. Nú er ég ekki með þessu að gera neina till. um að íslendingar segi sig úr NATO. Það á ekki við að koma með slíkar till. í sambandi við afgreiðslu á fjárl. Þá till. er ég hvenær sem er reiðubúinn til að flytja með öðrum hætti. En ég er þeirrar skoðunar og hef verið alla tíð, að þótt við séum aðilar að þessu hernaðarbandalagi, þá höfum við ekki nokkurn skapaðan hlut að gera við þetta sendiráð í Brüssel. Þetta er ekkert annað en prjál og yfirlæti. Þetta sendiráð gerir ekkert gagn, nákvæmlega ekkert gagn, og það er ekki nokkur minnsti vandi fyrir þau sendiráð, sem þarna eru í kring, í Frakklandi, Vestur-Þýskalandi og Englandi, að rækja þau tengsl sem við þurfum að hafa við þetta hernaðarbandalag meðan við erum illu heilli í því. Það er flottræfilsháttur að halda uppi slíku sendiráði, sem ekki gerir nokkurt gagn; og það er þess vegna sem ég legg til að þetta sendiráð verði lagt niður. En það er ekki bara þess vegna, það er líka vegna þess að við eigum ennþá í stríði við eitt af forusturíkjum Atlantshafsbandalagsins. Vestur-Þjóðverjar halda áfram að beita okkur efnahagslegum þvingunum til að reyna að neyða okkur til að láta af landsréttindum okkar.

Við höfum áður rætt um það mál að loka þessu sendiráði í sambandi við erlent ofbeldi, sem við vorum beittir til þess að reyna að hafa af okkur þessi réttindi, og ég tel að við höfum fulla ástæðu til þess að bregðast við á þennan hátt núna. Það var lögð fram á þingi fyrir mánuði eða svo þáltill. frá tveimur þm. Framsfl. um það, að vörur frá Vestur-Þýskalandi skyldu sæta sérstakri meðferð í bönkum á meðan vestur-þjóðverjar setja á okkur viðskiptabann eða neita að taka við fiski frá okkur. Þessari till. var vísað til utanrmn. fyrir að ég hygg hálfum mánuði, og ég átti satt að segja von á því að n. mundi afgr. þessa till. strax og mæla með henni og við mundum ákveða þetta fyrir jól. Þetta voru alveg sjálfsögð viðbrögð. En það hefur ekki einu sinni verið haldinn fundur í n. Ég spurði formann n. um það í dag, hvenær þeir ætluðu að afgr. málið, og hann sagði: „Hvað, er þetta mál hjá okkur?“ Form. n. vissi ekki að till. var til umr, hjá sér einu sinni. Þess vegna held ég að það væru eðlileg viðbrögð líka vegna landhelgismálsins að við tækjum þessa ákvörðun, að loka þessu algerlega tilgangslausa sendiráði, og gæfum það upp sem ástæðu.

Ég vil gera grein fyrir einni till. enn, sem ég hef leyft mér að flytja, þó að ég haldi að henni hafi ekki verið dreift prentaðri. Við 2. umr. flutti ég till. um framlög til Gæsluvistarsjóðs, 68 millj. til þeirra þarfa. Ég sundurliðaði nákvæmlega hvernig sú tala væri fundin. Þarna var um að ræða skuldir við ríkissjóð vegna hælisins á Vífilstöðum, sem er verið að ljúka við þessa dagana, og tvær skuldir aðrar. Önnur var vegna Kleppsspítala og hin vegna Gunnarsholts. Þessar skuldir námu um 20 millj. kr. sem hafa verið árlegar tekjur sjóðsins. Nú hefur mér verið tjáð að það muni vera lítið á þessar skuldir sem aukafjárveitingu hjá ríkissjóði, þannig að ég sé ekki ástæðu til að flytja neina till. um það. En ég flyt í staðinn till. um að Gæsluvistarsjóður fái 48 millj., sem hann þarf óumdeilanlega, þó að þessar skuldir séu strikaðar út. Þar er um að ræða búnað vegna hælisins á Vífilsstöðum sem mun kosta um 15 millj., en hælið byrjar að sjálfsögðu ekki að starfa nema keyptur sé húsbúnaður. Þar er um að ræða framkvæmdir í Gunnarsholti, sem búið er að ákveða og undirbúa fyrir löngu. Þar er um að ræða byggingu í Víðinesi, sem á sama hátt er búið að ákveða og undirbúa fyrir löngu. Auk þess legg ég til að sjóðurinn hafi til annarra verkefna, til rannsókna, til styrkja og annarra slíkra hluta, 5 millj. kr.

Gæsluvistarsjóður er öflugasta tækið sem ríkisvaldið hefur til raunhæfra aðgerða til þess að taka á ofdrykkjuvandamálinu, og því miður hefur þessi sjóður vaxið miklu hægar en skyldi. Stærsta átakið, sem hann hefur gert, er bygging þessa lokaða drykkjumannahælis á Vífilsstöðum sem vonandi tekur til starfa á næsta ári. En verkefnin á þessu sviði eru ákaflega mörg og ákaflega stór, eins og þm. hafa sjálfir minnt á margsinnis hér í vetur, þannig að ég fæ ekki skilið að þm. ætli sér að svelta Gæsluvistarsjóð, gera honum ókleift að sinna verkefnum sem búið er að undirbúa að fullu og ekki stendur á neinu nema fjárveitingum. Þess vegna vil ég mjög eindregið mælast til þess við hv. þm., að þeir hugleiði hvort þeir treysti sér ekki til að ljá þessari till. atkv.