20.12.1974
Sameinað þing: 29. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

1. mál, fjárlög 1975

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Áður en ég vík að brtt. þeim sem ég flyt við afgreiðslu fjárl., langar mig að fara nokkrum orðum um brtt. á þskj. 240 um það, hverjir skuli skipa þau 3 sæti sem nú eru óskipuð í heiðurslaunaflokki listamanna. Svo sem fram kom í ræðu hv. þm. Ingvars Gíslasonar höfum við fulltrúar Alþb. í menntmn. hins háa Alþ. ekki treyst okkur til að standa að þessari till. Ég mun í örstuttu máli gera grein fyrir afstöðu okkar.

Þeirri meginreglu hefur ætíð verið fylgt að heiðurslauna skuli þeir einir njóta sem eiga að baki langan listamannsferil. Helst hafa þessir listamenn þurft að komast sem næst því að vera orðnir óumdeilanlegir, þó að það hafi raunar ekki ætið tekist. Við verðum að hafa í huga að heiðurslaun eru þrátt fyrir allt í eðli sínu annars eðlis en einstök bókmenntaverðlaun. Það hefur því ætið þótt æskilegt að eining ríkti um val manna í heiðurslaunaflokk, þar sem hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða, ekki einungis fyrir listamennina sjálfa, heldur þjóðina alla.

Meiri hluti menntmn.- manna hefur hins vegar nú vikið frá þeirri meginreglu að velja menn, sem eiga að baki langan listamannsferil, og valið listamann á miðjum aldri sem á væntanlega enn langa starfsævi fram undan. Slíka stefnubreytingu teljum við því aðeins réttlætanlega, að engir listamenn með lengri starfsaldur að baki og þá jafnframt eldri að árum komi til greina. Svo er þó ekki nú. Við teljum að með þessari till. sé gengið á rétt nokkurra listamanna, sem að öllu athuguðu hefði verið eðlilegra að veita heiðurslaun í ár.

Ég nefni í þessu sambandi sérstaklega ljóðskáldið Snorra Hjartarson, sem er fæddur 1906, gaf út sína fyrstu bók árið 1934 og allir ljóðaunnendur viðurkenna að með ljóðabók sinni Lauf og stjörnur, ef ekki fyrr, hafi verðskuldað þann fyllsta heiður sem Alþ. getur veitt. Þá vil ég einnig nefna Ólaf Jóhann Sigurðsson sem er fæddur 1918 og á óslitinn rithöfundarferil að baki allt frá árinu 1933. Ef litið er á aðrar listgreinar en ritlistina er einnig rétt að minna á Sigurjón Ólafsson myndhöggvara. Eflaust mætti nefna fleiri nöfn þó að ég geri það ekki nú.

Við Alþb.- menn teljum að með þessari stefnubreytingu sé Alþ. að fara inn á vafasama braut, ef heiðurslaun á að virða nokkuð á annað borð.

Herra forseti. Ég flyt hér nokkrar brtt. við fjárlfrv.

Fyrsta brtt., sem ég flyt ásamt hv. þm. Ragnheiði Sveinbjörnsdóttur og hv. þm. Benedikt Gröndal er á þskj. 237, í lið IV. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Til Félags ísl. myndlistarmanna og Menningar- og friðarsamtaka ísl. kvenna til að standa straum af yfirlitssýningu á list íslenskra myndlistarkvenna vegna alþjóðakvennaársins 1975.“

Á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1972 var samþ. að helga árið 1975 réttindamálum kvenna. S.l. 3 ár hefur verið unnið ötullega að því að hvetja aðildarríki til að minnast þessa árs, og minna á tilgang þess með margvíslegum hætti. Ýmis samtök hér heima hafa áform á prjónunum í þessu skyni til þess að vekja athygli á störfum kvenna, réttindamálum þeirra, framlagi þeirra á sviði lista, félagsmála og þætti þeirra í atvinnulífi. Fyrirhugað er, að efnt verði til sýningar á verkum íslenskra myndlistarkvenna í Norræna húsinu í marsmánuði á næsta ári. Frumkvæðið að sýningunni áttu Menningar- og friðarsamtök ísl. kvenna, en Félag ísl. myndlistarmanna og Norræna húsið munu einnig standa að henni. Í bréfi, sem Félag ísl. myndlistarmanna hefur sent Menningar- og friðarsamtökum ísl. kvenna, kemur þó fram, að það muni taka þátt í sýningunni án fjárhagslegra skuldbindinga. Það má geta þess að kvennasamtök á Norðurlöndum hafa látið í ljós áhuga á að fá úrtak úr slíkri yfirlitssýningu sem farandsýningu um Norðurlönd. Ég tel því að því fé sé vel varið, sem fer til að kynna listaverk íslenskra kvenna, jafnframt því sem við íslendingar með þessu móti mundum standa við skuldbindingar okkar við Sameinuðu þjóðirnar í þessu efni.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um brtt. þá sem hv. þm. Pétur Sigurðsson hefur flutt við þessa till., þar sem hann leggur til að þetta fé renni eingöngu til Félags ísl. myndlistarmanna. Í rauninni kom mér þessi brtt. hv. þm. ekkert mjög á óvart — og þó. Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að svona stór og myndarlegur þm. mundi hræðast samtök kvenna. Mér er ekki alveg ljóst hvort það er orðið menning, orðið friður eða orðið konur, sem hann hræðist mest, eða hvort honum þykir verst ef þetta þrennt kemur saman. Alla vega vil ég benda þessum hv. þm. á það, að Félag ísl. myndlistarmanna óttast ekki samfylgd víð þessar konur, og vænti ég þess að hv. þm. finni í því nokkra huggun og treysti sér því til að greiða atkv. með till. eins og hún er á þskj. 237.

Þá höfum við 3 þm. Alþb. flutt till. um fjárframlag til Rauðsokkahreyfingarinnar, og er þá till. einnig að finna á þskj. 237. Rauðsokkahreyfingin er orðin æðiþekkt og ætti að vera óþarfi að fara um hana mörgum orðum. Ef tími gæfist til væri þó sannarlega freistandi að eyða margvíslegum misskilningi, sem oft gætir í máli manna um þessi samtök. Ég vil þó aðeins minna á að Rauðsokkahreyfingin hefur nú starfað í 4 ár og hefur fyrst nú eignast fastan samastað fyrir starfsemi sína. Þessi starfsemi er margvísleg. Þær hafa gert og birt félagslegar kannanir. Þær hafa veitt upplýsingar um réttindi kvenna í þjóðfélaginu og veitt konum, sem á hafa þurft að halda og leitað til þeirra, margvíslega aðstoð. Ég hygg að það sé ekki nema sanngjarnt að þær fái framlag frá Alþingi í þessu skyni.

Mig langar að fara örfáum orðum um till., sem er á þskj. 234. Hún er raunar flutt við 2. umr. og þá mælti Kjartan Ólafsson fyrir henni mjög vel og rækilega, svo að ég þarf ekki að fara mörgum orðum um hana. Ásamt mér flytur hana nú við 3. umr. hv. þm. Gíls Guðmundsson. Við leggjum til að upphæð til íslenskra rithöfunda verði hækkuð úr 12 millj. í 18 millj. Þessi upphæð er að stofni til til komin vegna þáltill. sem samþ. var hér á Alþ. Á grundvelli þeirrar þál. var á þinginu á s.l. vetri flutt frv. um Launasjóð rithöfunda. Menntmn. mælti þá einróma með samþykkt frv., en frv. dagaði því miður uppi. Í frv. var gert ráð fyrir fjárveitingu að upphæð 21,7 millj. kr. Mér voru það því mikil vonbrigði eftir þá afgreiðslu, sem frv. um launasjóð rithöfunda hlaut í menntmn. Nd., að sjá að upphæðin hafði ekkert hækkað, var enn 12 millj. Raunar finnst mér það óverjandi, með tilliti til þess að söluskattur hefur hækkað verulega síðan, að upphæðin skuli ekki hækka jafnframt. Við höfum því leyft okkur að leggja til þessa hækkun, sem þó má segja að sé fremur hógvær, þar sem upphæðin 21,7 millj., sem nefnd var í frv., var miðuð við söluskatt á árinu 1972 og við förum þó ekki það hátt. Vænti ég þess að hv. alþm. muni taka vel í þetta mál.