12.11.1974
Sameinað þing: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

1. mál, fjárlög 1975

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Við höfum nú séð fyrsta frv. hæstv. nýrrar ríkisstj. er samanstendur af Sjálfstfl. og Framsfl. Hæstv. fjmrh. hefur nú gert í stórum dráttum grein fyrir frv. um hreyfingar á tölum sem allar eru upp á við og hærri en nokkru sinni áður svo að miklum mun nemur og mætti segja um eða yfir 50%, hvernig sem reynt er að hreyfa þær til. Ég fletti upp á fyrsta frv. fyrrv. ríkisstj., vinstri stjórnar, og bar saman aths. þá og nú og það athyglisverða kemur í ljós að þar er vitnað í mikinn tímaskort við að undirbúa það frv. og segir að af eðlilegum ástæðum hafi ekki verið hægt að móta þeirra stefnu við gerð þess frv., er hér liggur fyrir, og því heitið að síðari tíma frv. muni komast niður á jörðina og minni aukning verða á hlutunum. Þáv. hæstv. fjmrh. hafði í mörg ár verið í stjórnarandstöðu og gagnrýnt mjög alla þenslu á vegum ríkisins hjá viðreisninni og maður skyldi nú ætla að til hefðu verið úrræði eins og fram kom í kosningunum um að draga úr ríkisútgjöldunum og stöðva þensluna og þar með verðbólguna, sem öllum hefur verið svo erfið í skauti.

Nú skeður hið sama, að á bls. 149 í þessu frv. er enn talað um tímaskort, tímaskort hjá hæstv. ríkisstj., tímaskort hjá hæstv. fjmrh. við að móta nýja stefnu. Þó liggur það ljóst fyrir af frv. á vegum Sjálfstfl. og þar með því, sem hann hafði sjálfur verið flm. að, að mótuð var ákveðin stefna sem var notuð í kosningunum sem stefna Sjálfstfl. Það átti að setja þak á fjárlagagerðina og hefta þar með þensluna.

Mér virðist því miður hafa orðið ketilsprenging í fjárlagagerðinni og þakið lyfst óþægilega upp, ef ekki gliðnað. Þessi tímaskortur er bagalegur og gæti ég gefið hæstv. fjmrh. eitt ráð í framhaldi af því sem hæstv. forsrh. greip til. Hann frestaði samkomudegi Alþ. um mánuð. Mætti ég benda honum á aðferðir Castros á Kúbu á sínum tíma þegar hann var í erfiðleikum með sín fjármál? Hann frestaði jólunum einfaldlega. Nú fer 3. umr. fram venjulega um 20. des. Hvernig væri nú að hæstv. fjmrh. gripi til ráða Castros og frestaði nú jólunum þar til hann hefði haft tíma til að móta sína stefnu í fjármálum ríkisins?

Það er ekkert gamanmál fyrir hæstv. fjmrh. að þurfa að standa frammi fyrir því miðað við fyrri frv., sem hann hefur flutt, að þurfa að hafa sitt fyrsta verk, sem hann hefur þegar gert, að leggja á 2% söluskatt, sem þegar er orðinn að l. á sumarþingi, og einnig nú að auka upphæð fjárl. um helming. Þetta gerir hann auðvitað ekki glaður, það fundum við á ræðu hans hér áðan. En verðbólgan og þarfir ríkisins eru það miklar, að hann má ekki spyrna við fótum. Hitt var svo undarlegt, að halda því fram allan s.l. vetur, að Sjálfstfl. hefði slík úrræði í fjármálum ríkisins að það eitt nægði til að breyta þar verulega um að koma þeim í ríkisstj. og láta þá hafa fjármálin á hendur. Og eins og síðasti ræðumaður drap á má fyrrv. hæstv. fjmrh. vel við una miðað við það sem þetta fjárlfrv. sýnir í dag.

En hvað sem því líður tel ég að enn muni nokkuð á vanta að allt sé til talið, því miður, ef ekki verður staðið við fyrri orð og dregið saman í ýmsum þáttum er Sjálfstfl. hefur sannarlega gagnrýnt hvað mest undanfarið, þ.e. stofnun nýrra ríkisstofnana á vegum vinstri stjórnar og aukningu á mannafla. Hér er þó erfitt um vik á vissum sviðum og eins og hv. síðasti ræðumaður drap á þá verður það ekki gert á vissum þjónustusviðum í heilbrigðisþjónustu og víða annars staðar, í skólunum. En e.t.v. má leita að einhverjum öðrum stofnunum sem hægt er að draga saman seglin í. Ég hef ekki tök á því að benda á það á þessu stigi meðan við höfum ekki farið rækilega í gegnum frv. í fjvn.

Ég sakna þeirrar stefnu, sem marglofað var hér á s.l. vetri af hálfu Sjálfstfl. og í kosningunum, í gerð þessa fjárlagafrv. Og enn óraunhæfara er að mínu mati að miða við það, eins og fram kemur í stefnuræðu hæstv. ríkisstj., að gera megi ráð fyrir að verðbólga hér með þeim ráðstöfunum, sem þegar hafa verið gerðar, verði um 15% á næsta ári eða jafnvel minni. Það er nákvæmlega vika síðan 3 stærstu útflutningslönd á málmgrýti tilkynntu einfaldlega um 150% hækkun á framleiðslumagni þeirra, sem er hátt í 30 millj. tonna af málmgrýti. Og þeir tilkynntu einfaldlega hækkun um 150% á þessum hráefnum. Þetta þýðir það að Bandaríkin, Vestur-Þýskaland og ýmsar fleiri þjóðir, sem eru stærstu neytendurnir á þessari vöru, horfa nú fram á stóraukinn kostnað í stálframleiðslu. Og stál er undirstaða allt atvinnulífs í dag í heiminum. Ég sá um miðjan s.l. mánuð þátt í bandaríska sjónvarpinu þar sem 6 af færustu hagfræðingum Bandaríkjanna sátu við hringborð og ræddu fjárhagsþróun og verðbólguþróun bæði í Bandaríkjunum og í heiminum, og það var öllum sameiginlegt, þótt þeir væru frá seðlabankanum þar og fleiri þekktir hagfræðingar þar, að verðbólgan hjá þeim yrði a.m.k. tveggja stafa tala, yrði örugglega tveggja stafa tala og gæti farið yfir 20% á næsta ári. Það er því afar mikil bjartsýni, ef við getum kallað það svo, og sérstök þekking sem núv. ríkisstj. hér ræður yfir þegar hún heldur því fram að hún geti stjórnað hér á Íslandi á komandi ári með að meðaltali 15% verðbólgu þegar við höfum verið þekktari að því að hafa hér forustu í verðbólgu og haft hana 35–45% meðan aðrar þjóðir hafa verið í einstafa tölu í verðbólgu undanfarna marga mánuði.

Ég hef hér fyrir framan mig úrklippu úr amerísku blaði sem sýnir 12 þjóðir, er allar hafa haft tveggja stafa verðbólgu á s.l. 12 mánuðum, og þær reikna allar með, sumar af viðskiptaþjóðum okkar, að þessi verðbólguþróun muni halda áfram, því miður. Hins vegar getur vel verið að hæstv. ríkisstj. ráði yfir slíkum töfrasprota í dag, hafi slíka þekkingu að henni takist að framkvæma þetta fyrirheit, og vel væri ef svo væri. En þar sem við þurfum nú að flytja mikið út, gætum við ekki flutt út til þeirra, sem í vandræðum eru og stefna nú á hærri verðbólgu en nokkru sinni áður, frá Íslandi þekkingu í stjórnþætti svo að verð lækkaði hressilega vel því að nú á að fara að reisa hér málmblendiverksmiðju og þar er þekkingin metin á 23% í stofnkostnaði á mörg hundruð millj. kr. Þessi þekking gæti verið okkur milljarða virði í útflutningi í hagkerfi annarra þjóða.

Ég held því þrátt fyrir allt, að með sama hætti og ég gagnrýndi fjárlagagerðina í fyrra, frv. og reyndar fjárl. sem slík í lokin, að þau væru byggð á óraunsæi, þá sé þetta frv. einnig byggt á of miklum sandi, því miður. Það væri æskilegt, sannarlega væri það æskilegt, að verðbólguhjólið hægði nú á sér og við gætum búið við jafnara verðlag hér á Íslandi en verið hefur um margra ára skeið. Að því viljum við allir vinna. En við viljum ekki vinna að því með því að fella stöðugt gengið. Ég sé ekki hvernig það er hægt á Íslandi. Það hefur margsinnis komið fram að lausnin á vandamálum útflutningsatvinnuveganna var ekki gengisfelling og því síður var lausnin að færa eingöngu á milli svo mikið fjármagn eins og nú er gert innan sjávarútvegsins. Það vantaði mjög mikið stofnfjárframlag, það vantaði eðlilega uppbyggingu fyrirtækjanna svo þau gætu haft eðlilegan rekstur við þrengri aðstæður, eins og eru í bili. Því miður get ég upplýst það að mjög víða, a.m.k. um hinn vestræna heim, hefur umsetning margra neysluvörufyrirtækja minnkað á þessum 9 mánuðum sem liðnir eru af þessu ári og upplýsingar liggja fyrir um frá 15 og upp í 20 og jafnvel 30%. Menn hafa gengið á birgðir sínar, menn gera minni innkaup en verið hefur vegna þess að peningar hafa hækkað verulega í verði. Vaxtafótur er nú orðinn mjög víða 14, 18 og jafnvel 24% og í einstaka löndum hærri. Þegar fjármagnið verður svona dýrt draga þessir aðilar, sem eru með vöruinnkaup og vörulager, verulega saman seglin sem kemur aftur framleiðendum og einmitt okkur, sem þurfum á miklum útflutningi á matvöru að halda, alveg sérstaklega illa. Þessi þróun er að ske í dag og það er ekki annað fyrirsjáanlegt en að til samdráttar í þessa átt komi á næstunni, því miður.

Það er því alveg augljóst mál að forsendan, sem fjárlagafrv. byggir á og sú stefnumörkun sem kemur fram í ræðu hæstv. forsrh., er byggð á röngum forsendum, — forsendum sem ekki munu halda út næsta ár. Ríkisstj. verður því að vera við því búin að draga saman seglin verulega eða auka skattheimtu á almenningi og stærsti þátturinn í því að draga saman seglin er, þrátt fyrir það að fjárlfrv. gerir ráð fyrir um 1230 millj. kr. minnkun framkvæmda í heild, að velja þá þætti í samdrættinum, er helst mega missa sin, til þess að tryggja okkur stöðuga atvinnu og eðlilegan útflutning. Niðurgreiðsla á vöruverði er komin í 3.6 eða nærri 3.7 milljarða á fjárlfrv. Auk þess þurfum við að flytja út landbúnaðarafurðir og með þeim eru gefnar yfir 700 millj. kr. í útflutningsuppbætur. Það er því nokkuð á 4. milljarð sem landbúnaðarframleiðslan tekur úr ríkissjóði aðeins í þessum tveimur þáttum. Þetta eru gífurlega háar tölur sem menn hljóta að staldra við og hugsa eilítið um hvort réttar eru í öllu tilliti.

Einnig eru vissir tekjuþættir í frv. hæpnir að mínu mati. Það byggir enn í stærri mæli en nokkru sinni á því, að þjóðin haldi vel á sopanum og drekki nú fyrir hærri upphæð en nokkru sinni áður eða minnst 3.5 milljarða, og verð ég að segja það hreinskilningslega að slíkt hryggir mig, hreinlega hryggir mig að sjá slíkar upphæðir í fjárlfrv., eða andvirði 12–15 nýrra skuttogara, hvorki meira né minna.

Til þess að draga úr verðbólgunni hefur ríkisstj. séð sig neydda til að taka vísitöluna úr sambandi og rjúfa um sinn, eins og hún orðaði það, víxlhækkun verðlags og launa. Með því móti kemur auðvitað þessi verðbólguþróun hart niður á launafólki. Þó að sagt sé að láglaunauppbætur eigi að bjarga slíku, þá gerir það ekki annað en draga að hluta úr þeim sárindum, sem slíkt veldur.

Gengisfellingin stuðlar enn að aukinni verðbólgu og þetta klassíska úrræði að sjá aldrei neitt annað en gengisfellingu ætti að vera búið að kenna mönnum að það hlýtur að vera réttlætanlegt að leita eftir öðrum leiðum en sífellt að hopa undan þessum þunga og fella gengið og auka með því móti á eyðslu manna heldur en hvetja til sparnaðar.

Ég hefði viljað sjá það í áætlun fjárlfrv. um útgjöld, að stuðlað væri að því að sparifé væri virt. Ég vildi bæði sjá það í stefnuræðu hæstv. forsrh. eða ríkisstj. og einnig með hliðsjón af fjárlagagerð ríkisins að nú væri tekið skref í þá átt að koma á aukinni verðtryggingu sparifjár. Í því sambandi vil ég rétt minna á þarfir Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Það mun nú koma fram, að þeir fyrir hönd sjóðsins munu sækja um allt að 600 millj. kr., meiri upphæð eða 100% hærri upphæð en fjárl. gera ráð fyrir, og vil ég minna á í því sambandi á þátt Sjálfstfl. á s.l. vori. Og ég vil vænta þess að hæstv. fjmrh. gefi sér tíma til að hlusta.

Í Ed. á vor fjölluðum við mikið um vandamál Lánasjóðsins í menntmn. Við vorum komnir að sameiginlegri niðurstöðu, þrír stjórnmálaflokkar, í vor, og töldum réttlætanlegt að hefja verðtryggingu á Lánasjóði íslenskra námsmanna. Um það voru komnar ákveðnar hugmyndir á blað, það dróst nokkuð að koma þessu frá sér og áður en við gátum skilað þessu frá okkur, þeir sem örugglega vildu að þessu standa, kom skyndilega upp kosningaskjálfti í þingliðinu og þegar á átti að herða í n. brást fylgi Sjálfstfl. við þessa hugmynd og fulltrúar Sjálfstfl. í menntmn. sögðu, að við hinir, fulltrúar vinstri aflanna í landinu, værum að ráðast á garðinn þar sem hann væri lægstur. Við vildum þó ekki ganga lengra en svo að hefja verðtryggingu eftir ákveðið árabil, 4–5 ár, og tryggja með því að íslenskir námsmenn fengju í framtíðinni það fjármagn, sem þeir þyrftu, án þess að ríkissjóður þyrfti að pumpa út innan skamms yfir 2 milljörðum í sjóðinn, því að það væri um of. Enda er komið á daginn að hæstv. fjmrh. treystir sér ekki að fara hærra, ekki að sinni, en í 660 millj., en þörfin mun vera um 1200 millj. kr. Miklu vitlegra er fyrir alla þm. að sameinast um það, í hreinskini sagt, að tryggja þessum sjóði nægilegt fjármagn í framtíðinni og verðtryggja hluta þessa fjár í framtíðinni, því að til hvers eru menn að afla sér þekkingar ef það er ekki nokkur trygging hjá manninum sjálfum fyrir verðþróun launamála í framtíðinni? Það hlýtur að vera svo. Sjóðurinn verður að skila sínu fjármagni, ákveðnum hluta, til baka aftur. Annars verður ríkissjóði ofviða að halda úti svona miklum útgjöldum og mæta þeirri þarfafullnægingu sem þessi sjóður fer fram á, a.m.k. 85%, í lánum eða styrkjum í framtíðinni. Það væri ríkissjóði um of, sérstaklega þegar við búum við slíka verðlagsþróun eins og verið hefur um mörg ár og því miður virðist vera fram undan. Ég held að hæstv. fjmrh. komist ekki hjá því að endurmeta þessa tölu og auka hana eitthvað.

Hvort kröfum formælenda sjóðsins verður mætt að fullu og farið upp í um 1.2 milljarða skal ég ekkert segja um, en þeir munu áreiðanlega sækja mál sitt mjög fast og það hefði verið betra, að við hefðum haft kjark til þess allir saman að verðtryggja, koma með nýja löggjöf um sjóðinn og byrja á verðtryggingu, segjum eftir 4–5 ár, svo að allir vissu að hverju þeir gengju gagnvart framtíðinni þegar þeir sækja um lán og styrki. Vaxtafótur gæti á móti verið lágur í þessu tilfelli.

Vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru orðnar mjög háar og mér leikur forvitni á að vita um það, það kom ekki fram í ræðu hæstv. fjmrh., hvað Seðlabanki Íslands innheimtir mikið í hreina vexti fyrir yfirdráttarskuldir ríkissjóðs. Það er ansi hart ef hann hefur í hreinar tekjur mörg hundruð millj. eða jafnvel yfir milljarð í hreina refsivexti, ef ríkissjóður þarf að vera á 24% refsivöxtum hjá Seðlabanka Íslands. Með því móti eykur Seðlabanki Íslands hreina verðbólgu á Íslandi, gagnstætt því sem hann á að stuðla að, að draga úr verðbólgu. Og ef það er rétt einnig, að Viðlagasjóður verður að borga mörg hundruð millj. í yfirdráttarvexti, þá tel ég þetta svo alvarlegt mál að það verður að athuga það alveg sérstaklega. Og ef almenningur á að borga mikið á 2. milljarð fyrir refsivexti til Seðlabanka Íslands fyrir yfirstandandi ár, þá er það mál, sem Alþ. verður að vita nákvæmlega um, engar undanbragðaleiðir í því efni, fá nákvæma skýrslu um alla slíka vexti sem Seðlabanki Íslands ætlar að innheimta vegna erfiðrar greiðslustöðu ríkissjóðs og Viðlagasjóðs. Hann má hafa refsivexti gagnvart sínum viðskiptamönnum, en það hlýtur að gilda allt annað, þegar hann beitir ríkisvaldið sjálft, sjálfan ríkissjóð, slíkum ógrynni refsivöxtum, sem ríkissjóður hlýtur að verða að velta yfir í fjárlagainnheimtu, fjárlagagerð og auknar skattaálögur á almenning í landinu. Við ríkjandi aðstæður tel ég það hreinlega sagt óverjandi þrátt fyrir það, að Seðlabankinn telji sig hafa völd sem þetta réttlæti, þá dreg ég það samt sem áður í efa þegar um sjálft ríkisvaldið er að ræða eða ríkissjóð.

Ég sé ekki annað en margar stofnanir verði að fá einhverja hækkun eins og síðasti hv. ræðumaður drap á. Við höfum ekki enn heyrt í þeim öllum, en þeir, sem hafa komið á fund fjvn., bera sig mjög illa. Sumir hafa í krónutölu sömu tölu á fjárl. og var á s.l. ári og sjá allir menn að það er óhugsandi, gersamlega óhugsandi. Ég fæ ekki séð hvernig komist verður fram hjá því fyrir hæstv. menntmrh. að gera auknar kröfur um fjármagn til skólabygginga. Ég get ekki ímyndað mér að hann sætti sig við þessa tölu sem er smávægileg hækkun frá s.l. ári. Framkvæmdamagn í skólabyggingum dregst saman með slíkum hraða, ef þetta verður raunveruleikinn eins og frv. sýnir, að það er algerlega óhugsandi og mörg önnur starfsemi, eins og íþróttastarfsemi í landinu, mun líða við það mjög illa. Það verður þá eitthvað að koma á móti, hrein lántaka, ef ekki á að fækka útgjöldum ríkissjóðs beint. Gengislækkunin enn einu sinni verkar þannig svo kröftuglega á allar kostnaðarhækkanir að það er tvíeggjað ráð að grípa alltaf til hennar og sjá enga aðra leið heldur en auka allan erlendan kostnað á Íslandi, bæði neysluvörur og rekstrarvörur, og stuðlað þannig sífellt að verðþenslu sem við ráðum ekkert við, eiginlega nákvæmlega sama hverjir hafa verið í ríkisstj.

Hv. síðasti ræðumaður minntist á fyrri ummæli hæstv. núv. fjmrh. og hæstv. núv. sjútvrh. þar sem þeir reiknuðu með að hægt væri að lækka fjárlagafrv. í fyrra um 4.5 milljarða. Það þýðir í dag a.m.k. yfir 6 milljarða. Og þetta átti að vera mætavel rétt, aðeins ef Sjálfstfl. kæmist í ríkisstj. Orðrétt — með leyfi forseta — segir á bls. 3 í grg. með frv.: „Þær tillögur, sem hér liggja fyrir um breytingar á l. um tekjuskatt og eignarskatt, eru fyllilega tímabærar.“ En nú er alls ekki tími til að móta frv. svo að nú er úr vöndu að ráða. Þetta er einum of mikið, að afsaka sig alltaf með tímaleysi, að verðþenslan í þjóðfélaginu sé svo mikil, að alltaf verði að hopa undan og ekki sjá neitt annað en hækka fjárlög ár frá ári um þriðjung eða meira og allt upp í helming, eins og nú er gert ráð fyrir. Og þó að skattvísitala sé nú allverulega hærri en hefur verið undanfarin ár, þá veit ég ekki hvað hún gefur á þessu stigi þar sem meðaltekjur þessa árs liggja nú ekki fyrir. Hjá sumum starfshópum hefur tekjuaukning orðið veruleg, kannske mun meira en 45%, svo að þeir hagnast á því, hjá öðrum mun minni aukning. Það mun koma fram að nauðsyn er, eins og hæstv. fjmrh. drap á, að hreyfa þessa tölu og minnka beina skatta, en allir flokkar standa að slíkri þróun eða hafa staðið undanfarið. Aukning á söluskatti er samþ. og er í framkvæmd á þessu ári og verður það næsta ár og er stærsti einstaki tekjuliður hjá ríkissjóði. Hæstv. ráðh. drap á það að nauðsynlegt væri að auka aðhald við innheimtu söluskatts, og vildi ég mjög mælast til þess að það væri athugað sérstaklega, að mörgum smáatvinnurekendum, sem helst hafa möguleika á að skjóta einhverju undan, væri gert skylt að hafa prentuð form fyrir sína þjónustu, tölusett og í meira en tvíriti, þannig að fjmrn. gæti sannanlega fylgst vel með öllu sem menn taka fyrir þjónustu og ríkið á að fá.

Hæstv. fjmrh. gat þess strax í upphafi ræðu sinnar að vöxtur ríkisútgjalda hafi sætt gagnrýni undanfarin ár. Hæst hafa sjálfstæðismenn gagnrýnt þennan vöxt. Maður skyldi því ætla að þetta frv. bæri virkilega þess merki að nú væru menn sestir að völdum er hefðu ráð undir hverju rifi gagnvart þessari verðþenslu sem ríkt hefur hér á Íslandi undanfarin ár. En svo er alls ekki að sjá. Hann gat um það einnig að niðurgreiðslurnar væru sérstakt íhugunarefni. Það er áformað að draga úr þeim skipulega. En hér er úr vöndu máli að ráða. Ég tel hins vegar alveg óhugsandi að auka útflutningsuppbæturnar svona jafnt og þétt í beinu hlutfalli, þrátt fyrir það að við höfum ákveðin lög um útflutningsuppbætur. Við verðum að horfast í augu við það að ef vissir þættir í landbúnaðinum eru eins óarðbærir og þessar tölur gefa tiI kynna varðandi útflutningsuppbæturnar, þá hljótum við með rólegri og blákaldri athugun að athuga um hvort hér er staðið að málum á besta veg, og einnig orsaka niðurgreiðslurnar mjög ákveðna þróun í framleiðslunni fyrir vissa menn en íþyngja öðrum um leið í landbúnaðinum, Þær stuðla þannig að óheilbrigðri þróun í framleiðslunni að mínu mati þegar þær eru orðnar svona gífurlega háar. Vissir bændur fá ekki krónu fyrir sína framleiðslu, þótt þeir selji matvöru, en aðrir stórfé. Tel ég ekki sanngjarnt þegar menn verða að búa þannig við misjöfn kjör gagnvart ríkisvaldinu hlið við hlið.

Einnig gat hæstv. fjmrh. þess að tolltekjur grundvallast á alvarlega miklum innflutningi og svo gæti farið að öfugur viðskiptahalli næmi 12.5 milljörðum, jafnvel svo miklu. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt. Þetta er alveg gífurlega alvarlegt mál, ef við þurfum enn að halda uppi svo miklum innflutningi að viðskiptahalli okkar nemi mörgum milljörðum. Þegar hafa bílar verið fluttir inn í meira magni en nokkru sinni áður, svo að vart ber að vænta þess nema sem verðbólguspekúlasjón að slíkur innflutningur eigi sér stað á næsta ári. Það er því enn einu sinni staðfesting á því, sem ég hef sagt, að tekjugrundvöllurinn fyrir fjárlagafrv. er hæpinn þegar hann byggir á sífelldri þenslu og sífellt svo mikilli eyðslu í innflutningi eins og hæstv. fjmrh. hefur viðurkennt í ræðu sinni.

Hæstv. ráðh. drap nokkuð á starfsmannafjölgun ríkisins og greindi frá því að ný lög væru væntanleg í því efni. Það er gott út af fyrir sig. En það þarf þá að framfylgja þeim lögum. Við höfum haft ýmiss konar bremsunefndir og ákveðin lög um mannaráðningar, en hæstv. ráðh. hafa ekkert gert með þau þegar á þurfti að halda, a.m.k. í vissum tilfellum. Ný lög í þessu efni geta verið góð svo langt sem þau ná, en það verður þá að treysta því að ríkisstj. framfylgi þeim lögum sem hún setur í þessu efni, annars eru þau hreinlega gagnslaus. Og oft gæti það verið þungt kerfi að fara í gegnum fyrir vissar stofnanir sem þurfa nauðsynlega á auknu starfsfólki að halda, segjum ríkisspítalana. Til hvers er að taka í notkun nýjar byggingar ef ekki kemur nægilegt starfslið fljótlega inn eða þegar í stað? En ríkisspítalana vantar nú þegar um eða yfir 204 manns til þess að hafa eðlilegt starfslið í sinni þjónustu sem ríkissjóður verður að borga að öllu leyti. Frv. gerir ráð fyrir aðeins um eða yfir 100 manna aukningu á næsta ári.

Hæstv. fjmrh. lofaði því, og það var það eina sem hann undirstrikaði sérstaklega varðandi stefnu Sjálfstfl., að fjármálastjórn ríkisins verður efld. En hann gat ekkert um það með hvaða hætti hún verði efld. Enda er langbest að geyma það atriði til síðari tíma þegar nógur tími verður til að framkvæma slík loforð.

Þessi verðlagsþróun átti að koma lítið niður á launþegum, sagði hæstv. ráðh., og efnahagsaðgerðum ríkisstj. yfirleitt að vera það mjúkar að launþegar yrðu lítið varir við þær. Ég held að það sé óskhyggja ein að halda slíku fram, gersamlega óskhyggja ein. Það sjáum við á því hvað reiknað er með að ríkissjóður þurfi að taka til sín þrátt fyrir alla tekjuaukningu, sem meðaltölur sýna að er mjög misjöfn hjá launþegum. Sumar stéttir hafa komið ár sinni vel fyrir borð í þessari verðþenslu, vissar iðnaðarstéttir hafa verið á uppsprengdum launum, en aðrir fengið rýrari kjör svo að um munar. Það þarf því að huga vel að því hvernig hægt er að koma því svo fyrir, að tekjujöfnun eigi sér stað. Þrátt fyrir að hér er lagt til, ef ég man rétt, að 500 millj. sé ráðstafað sérstaklega varðandi þennan þátt, þá get ég ekkert um hann sagt hvort sú tala er há eða lág. Ég saknaði nánari hugleiðinga um ráðstöfun á þeirri tölu í ræðu hæstv. fjmrh. E.t.v. hefur ekki unnist svigrúm — og er það vel skiljanlegt — til þess að gera grein fyrir ráðstöfun á þessari tölu, en vonandi kemur hún þeim best að gagni er mest þurfa á að halda.

Ég vil mjög vara við þeirri þróun, sem ég sé að hér er sett fram við uppbyggingu hafna á Íslandi. Hún er gersamlega óraunhæf á sama tíma og við höfum eignast það mikið af skuttogurum að á mörgum stöðum úti á landi eru þessi skip ekki með lágmarkshafnaraðstöðu, hvað þá að hún sé sómasamleg. Nú er um raunverulegan samdrátt að ræða í þeirri þróun sem mótuð var hjá síðustu ríkisstj. og var það vel gert, og ég trúi því ekki að hæstv. samgrh. eigi ekki eftir að ýta á fjármagn til hafnanna, ég trúi því ekki fyrr en ég tek á. Það er óhjákvæmilega og að mínu viti miklu skynsamlegra að leggja aukið fjármagn í þann þátt heldur en í marga aðra Við komumst ekki hjá því vegna þeirrar uppbyggingar í togaraflotanum, sem átt hefur sér stað undanfarin ár og þýðir ekki að vera með neina óskhyggju í því sambandi. Þörfin er slík, að fram hjá þeirri staðreynd verður ekki gengið. Við í fjvn. höfum ekki fengið enn heildaryfirlit hjá vitamálastjóra né hefur hann haft tök á því að mæta á fundi hjá okkur og fer ég því ekki nánar út í þennan þátt. En í næstu viku er von á því að vitamálastjóri geti gert okkur nánari grein fyrir fjármálum hafna og uppbyggingarþörf úti um allt land.

Mörg áhugamannafélög hafa sent inn beiðnir og kvarta nú mjög um að naumt sé skorið með styrki til þeirra. Það getur vel verið að það sé rétt að draga skyndilega úr fyrirgreiðslu fyrir þessi áhugamannafélög og hafa óbreytta tölu í krónum talið á fjárl. frá síðasta ári og segja: Gerið svo vel og leggið meira sjálfboðaliðsstarf fram en nokkru sinni áður til þess að hefta útgjaldaaukningu ríkisins. — En margir una þessu illa og sækja fast á og verður sjálfsagt haft uppi gamalt ráð að reyna að fá þm., ekki aðeins í fjvn., heldur til hliðar við hana, til að fallast á hærri tölur eða láta undan þeim þrýstingi sem þessi áhugamannafélög segja að sé nauðsynlegur til þess að þeirra starf haldi áfram.

Barnalífeyrir á að lækka næsta ár. Hæstv. fjmrh. drap á það, að gjöld í gegnum Tryggingastofnun ríkisins væru 43–45% af útgjöldum ríkisins, og var með vangaveltur um að ekki væri öruggt að allt kæmi að sem bestum notum. Þetta er gamalt vangaveltuatriði, sem ekki hefur tekist að ráða fram úr hér á Alþ. enn þá, og hefur sífellt verið í endurskoðun löggjöf um tryggingakerfið og er enn. Það get ég tekið undir með hæstv. ráðh. að nauðsyn sé að tryggja það að svo mikið fjármagn, sem er yfir 40% af útgjöldum ríkissjóðs, komi að sem bestum notum. Sannarlega er það mjög mikil nauðsyn og veitir ekki af að vel sé að staðið hjá Tryggingastofnuninni og einnig hjá Alþ. að hafa löggjöfina þannig mótaða hverju sinni að hún tryggi þeim, sem mest þurfa, örugga bót í þessu efni. Ég tel þó að hlutur lífeyrisþega sé nú óumdeilanlega skertur. Ég tel sérstaklega þegar vísitalan er svona fölsuð, eins og gert er, að þá bitni það einmitt á þessu fólki umfram alla aðra. Það verður að gera sérstaka athugun á því hvað þessi þróun í vísitölunni þýðir fyrir þetta fólk. Ef það er talin lífsnauðsyn að draga úr barnalífeyrisframlagi á miðju komandi ári um fjórðung, þá vil ég hafa það á hreinu hvernig afstaða til lífeyrisþeganna verður síðari hluta næsta árs. Það er fólk sem ekki á þess kost að tryggja sér miklar tekjur umfram það sem það fær frá Tryggingastofnun ríkisins.

Við þessa fjárlagagerð er því treyst um of að mínu áliti að verðlag hér heima verði það stöðugt að vísitalan sýni um 15% hreyfingu upp á við á næsta ári, en á því byggir frv. að verulegu leyti. Á því byggir efnahagsstefna ríkisstj. sem hér hefur verið boðuð með stefnuræðu forsrh. En ég tel slíkt alveg óraunhæft og við mótmælum því í Alþfl. að slík fjárlagagerð sé raunhæf. Hún er alveg eins og henti síðustu ríkisstj, eða fyrri ríkisstj., þetta er byggt á sandi. Það fjárlfrv., sem þá var afgr., hefur nú hæstv. fjmrh. mjög notað sem óraunhæft og viljað nota síðari tíma verðbreytingar sér til hjálpar í þeirri viðmiðun að fá nú þessi fjárlög sem lægst til hækkunar. Nú er svo mikill tímaskortur hjá hæstv. ráðh., að þeir geta ekki mótað eigin stefnu né stefnu flokksins þrátt fyrir mörg frumvörp á undanförnum vetrum og sérstaklega s.l. vetri og þessa þakmótun, sem átti að vera allsherjarráð þá og þeir fengu sennilega gott út úr kosningunum í vor. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh.: Hvar er stefnan, sbr. fyrri frv. fyrri orð? Hvar er hið umtalaða þak á fjárl.? Hvenær megum við eiga von á því að sjá niðurstöðutölurnar raunverulega svo að við getum treyst því að ekki stefni í sömu átt og verið hefur undanfarið, sífelld verðbólga, sífelld verðrýrnun á öllum peningum hér umfram það sem er hjá öðrum þjóðum? Ég tel að þessi þróun eigi sér enga formælendur með slíkum vinnubrögðum. Ég tel, að við eigum að muna eftir gömlu orðatiltæki sem segir einfaldlega: Þetta er ekki hægt, Matthías.