27.01.1975
Sameinað þing: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

Umræður utan dagskrár

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég verð að standa hér upp aftur og gera smáathugasemd við orð hv. 2. þm. Austf. Hann virðist ekki hafa tekið eftir byrjun ræðu minnar, en þar einmitt drap ég á það að hér væri hreyft mikilvægu máli. Það má kannske kalla það einfalt mál eins og hann orðaði það, en málið er mikilvægt vegna þess, eins og ég tók, held ég, mjög skýrt fram í ræðu minni, að lögin frá 1922 hafa alltaf verið túlkuð þröngt bæði af honum sem hæstv. ráðh. og þegar ég var í þjónustu hans hér áður fyrr, þá gerði hann það, og einnig benti ég á að aðrir ráðh. úr öðrum flokkum hefðu jafnan túlkað lögin þröngt. Þess vegna er þetta mikilvægt mál, eins og hann drap á, ef breyting hefur hér átt sér stað.

En það má kannske kalla það einfalt mál varðandi framkvæmd og mat á aðstæðum, en það er allt annar skilningur, og ég vona að enginn þm. hafi lagt þann skilning í orð mín. Hann gaf mér þann skilning, að ég segði: Jú, það er mikil nauðsyn á að fá þetta skip — og þar fram eftir götunum. Um þetta hafa menn skiptar skoðanir eins og ályktanir þeirra bera með sér. Hæstv. sjútvrh. hefur einmitt undirstrikað að það er lýsið í dag sem gefur loðnuveiðunum mest gildi, og er það gagnstætt því sem verið hefur undanfarin 3 ár. Þess vegna liggur málið ljósara fyrir, að það þurfa að fást um það skjót svör hvort taka á skipið á leigu, strax eða ekki. En ég vil að þeir leigusamningar séu lagðir fyrir Alþ. Afdráttarlaust er það mín persónulega skoðun, byggð á margra ára reynslu og túlkun á þessum lögum. Ég vil þá fá viljayfirlýsingu Alþ. um það hvort við eigum að taka slíkt skref. Og þó að hv. þm. segi, að ekki hafi gerst svo mikið fyrir aðstöðu til vinnslu og veiða, eins og ég held að ég hafi skrifað orðrétt eftir honum, þá tel ég einmitt að mikið hafi gerst, því miður, til þess að þyngja alla aðstöðu. Og það veit hann manna best innan þessara veggja, að Neskaupstaður hefur gegnt alveg sérstöku hlutverki framan af loðnuvertíð. Nú geta menn ekki tekið loðnu og haft hana utan tanka, vegna þess að það er lýsið sem gefur loðnunni svo mikið gildi að það hefur enginn efni á því að láta óeðlilega rýrnun eiga sér stað og hirða mjölíð. Slík vinnsla er alveg út í hött og kemur ekki til greina. Þess vegna eru móttökuskilyrði nú raunverulega enn rýrari en ella af því að tankvæðing er það þröng hjá verksmiðjunum. Eitthvað af skipum, jafnvel kannske 20–30 skip, mun ekki fara á loðnuveiðar. En hvaða skip eru það sem ekki fara á loðnuveiðar? Það eru litlu skipin. Ég sagði á sínum tíma og þótti ansi hart sagt: Þessi skip áttu aldrei á loðnu að fara, aldrei, sem eru innan við 150 tonn og minna. Þau áttu að halda sér við bolfiskveiði heldur en að efna til útgerðar sem kostaði margar millj. á hvert skip og hafa aldrei aflað fyrir framlögðum brúttókostnaði, hvað þá haft einhvern árangur sem erfiði. Það er því eilítið jákvætt til í þessu enn þá, og þau munu þess vegna fiska miklu meiri bolfisk fyrir bragðið. En bað má ekki hafa stjórn á nokkrum hlutum á Íslandi, heldur á allt að sigla og reka á reiðanum stjórnlaust, þrátt fyrir Framkvæmdastofnun og ýmiss konar átök sem þar eiga sér stað.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að því miður hafa óviðráðanleg atvik komið fyrir sem geta leitt til þess að rök séu fyrir því að taka svona skip á leigu, og þá tel ég eðlilegt að fyrirhugaður leigusamningur sé lagður fyrir Alþ. og Alþ. lýsi yfir vilja í því efni, hliðstætt og gert var um veiðiheimildir. Ég veit að hæstv. fyrrv. sjútvrh. var það mætavel ljóst og utanrrh. einnig, að þó að þeir semdu við þessar þjóðir um veiðiréttindi, þá datt þeim ekki í hug — ég er viss um það — annað en að fá staðfestingu hjá Alþ. á gjörðum sínum í þessu efni. Ég veit að þeir báðir hljóta að hafa hugsað þannig. Og ég tel einnig að það eigi að gerast í þessu tilviki, þó að ég efnislega telji rök fyrir þessari framkvæmd eins og ástatt er, og þar finnst mér vera eini ágreiningurinn við 2. þm. Austf. Mér finnst vera sá eini ágreiningur milli okkar, að mér finnst vera efnisleg rök fyrir því að sjá hvort ekki eru tök á því að hafa þetta skip í notkun nú vegna þeirra atburða sem átt hafa sér stað og þrengt alla móttöku og vinnslu á loðnunni. Til viðbótar er verðmæti hennar mest núna í nærri tvo mánuði og líkur eru fyrir því að engin loðna verði veidd eftir miðjan mars. Fari svo, þá sýna veiðiskýrslur að við missum um eða yfir 100 þús. tonn og það er allmikill afli.

Ég ætla svo, herra forseti, ekki að tefja þessar umr. lengur, en ég vona að afstaða mín sé ljós. Ég tel að þessi samningur eigi að koma fyrir Alþ. og þá gefst okkur tækifæri til að fjalla um málið og túlka þessi lög frá 1922, nr. 33. En ég er þeirrar skoðunar að halda eigi áfram að túlka þau þröngt, eins og fyrrv. sjútvrh. úr öllum flokkum hafa gert.