03.02.1975
Neðri deild: 38. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1453 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

137. mál, launajöfnunarbætur

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt hv. þm. Bjarnfríði Leósdóttur frv. um breyt. á brbl. um launajöfnunarbætur, bætur almannatrygginga og verðlagsmál frá 24. sept. í fyrra. Í þeim brbl. voru ákvæði um kaupgjald, eins og menn muna, þ. á m. um bætur almannatrygginga, og þar var uppbót til þeirra sem aðeins njóta bóta almannatrygginga, þ.e.a.s. hin svonefnda tekjutrygging, ákveðin föst upphæð, sem er miklu lægri en hún hefði átt að vera ef hún hefði breyst í samræmi við framfærsluvísitölu og raunar miklu lægri en svokallaðar láglaunabætur til verkamanna urðu.

Í frv. því, sem við flytjum, er lagt til að þessu atriði brbl. verði breytt og upphæðirnar, sem greindar eru samkv. 19. gr. l., þ.e.a.s. þær upphæðir sem kallast tekjutrygging, hækki í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar og verði sú breyting reiknuð frá 1. okt. í fyrra.

Hér er ekki um að ræða heildartekjur þessa fólks, — eins og menn vita er um að ræða almennan lífeyri, sem allir fá frá vissum aldri og öryrkjar sömuleiðis, hvað sem líður tekjum þeirra, — heldur einvörðungu uppbót sem greidd er þeim sem ekki hafa neinar aðrar tekjur en bætur almannatrygginga eða sáralitlar tekjur aðrar. Þetta er sem sé ekki frv. um að þetta fólk, sem hefur lægstu tekjur þjóðfélagsins, njóti þess réttar að þessar lágmarkstekjur, þessar þurftartekjur breytist í samræmi við vísitölu, heldur einvörðungu þessi viðbót, sem greidd er til þeirra, sem erfiðast eiga. Hér er sem sé ekki verið að fara fram á eðlilegt réttlæti fyrir þetta fólk, heldur er í þessu fólgin alger lágmarksvörn, og mér finnst þurfa ákaflega mikla ósanngirni til þess að hafna tillögugerð af þessu tagi.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég og við Alþb.-menn vekjum athygli á þessum málum hér á þingi. Við höfum gert það aftur og aftur frá því að þingstörf hófust í haust. Við höfum flutt um þetta margar till., hvenær sem tækifæri hefur gefist, og þær till. hafa allar verið felldar. Við höfum aldrei fengið neinar skýringar á því hvers vegna þessar till. eru felldar. En væntanlega á skýringin að vera það alvarlega ástand í efnahagsmálum sem sífellt er verið að mála upp fyrir okkur og sífellt er verið að klifa á. Þær hrikalegu lýsingar, sem dynja á okkur á hverjum degi, eiga væntanlega að vera almenn rök fyrir því að réttmætt sé að skerða kjör þess fólks sem býr við lélegasta afkomu í landinu.

Það er kannske ástæða til þess að fara fáeinum almennum orðum um þessi alvarlegu efnahagslegu vandamál, því að vissulega er þar um alvarleg vandamál að ræða, það hygg ég að allir íslendingar viðurkenni. En við skulum minnast þess að á þessu sviði hefur keyrt um þverbak eftir að núv. ríkisstj. tók við. Þegar hún tók við völdum skorti ekki að hún dró upp hinar svörtustu lýsingar af ástandinu. Hún sagðist ætla að taka á því af þeirri festu að strax mundi verða um úrbætur að ræða. Hún framkvæmdi gengislækkun, hún batt kaupið og gerði aðrar hliðstæðar ráðstafanir sem átti að hafa veruleg áhrif að sögn forustumanna þessarar hæstv. ríkisstj.

Þessar ráðstafanir hafa ekki haft þau áhrif sem spáð var. Þvert á móti, það hefur allt færst til aukins ófarnaðar síðan þessi hæstv. ríkisstj. tók við. Og meira að segja er það svo að hagtölur, sem eru reiknaðar út af okkar hæfustu embættismönnum og sérfræðingum, standast hreinlega ekki dag frá degi. Sú tala, sem manni er sagt að sé rétt í dag, er orðin röng á morgun. Ég las til að mynda í Morgunblaðinu í gær viðtal við Jóhannes Nordal seðlabankastjóra, og þar greinir hann frá því að viðskiptahallinn á síðasta ári sé kominn yfir 16000 millj. kr. Það er allt önnur tala sem okkur hefur verið sögð að undanförnu, hún hefur verið rúmum milljarði lægri. Þegar hæstv. forsrh. gerði grein fyrir stefnu stjórnarinnar í byrjun nóv., þá sagði hann að hinir vísdómsfullu reikningsmenn teldu að viðskiptahallinn yrði 121/2 milljarður á árinu 1974. En þetta er sem sagt komið meira en 3 milljarða fram yfir það sem þá var spáð.

Ástæðan fyrir þessu er á allra vitorði. Hún er sú, að tvo síðustu mánuði ársins í fyrra hrúguðu innflytjendur inn í landið vörum eins og farskip okkar og flugvélar gátu frekast annað. Þeir hrúguðu inn vörum langt umfram eftirspurn og langt umfram þarfir, þannig að við sitjum uppi með óhemjulegar birgðir af ýmsum þeim vörum sem síst er þörf fyrir í landinu, þ. á m. 2000 bíla, þrátt fyrir meiri bilakaup á síðasta ári en nokkru sinni fyrr, og ótaldar vörur aðrar. Það var sem sé vaðið í það þarna að sólunda því sem eftir var af gjaldeyri þjóðarinnar. Þetta hefur gerst á ákaflega skömmum tíma. Við skulum muna eftir því, að það er ekki nema ár síðan gjaldeyrisvarasjóður okkar var meiri en hann hafði nokkru sinni áður verið. Þetta er þróun, sem hefur gerst á ákaflega skömmum tíma og ekki síst eftir að núv. hæstv. ríkisstj. tók við, vegna þess að skjólstæðingar hennar hafa vaðið í þessa gjaldeyriseign vegna þess að þeir töldu sig réttilega hafa hagnaðarvon af henni, og það var ekkert skeytt um þá stefnu sem hæstv. ríkisstj. þóttist vera að boða. Og gjaldeyrissjóðurinn er raunar alveg þrotinn. Sá gjaldeyrir, sem nú er afgreiddur með semingi í bönkunum, er lánsfé sem tekið hefur verið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og erlendum bönkum. Við erum sem sé farnir að taka neyslulán, íslendingar. Það var meira að segja tekið neyslulán á síðasta ári í Sovétríkjunum til þess að standa undir notkun okkar á olíu. Slík neyslulán eru að sjálfsögðu háttur búskussa, en þau eru einnig hættuleg öryggi og sjálfstæði þjóðarinnar.

Þetta er eitt það vandamál sem nú er málað upp fyrir landsmönnum og talið mjög alvarlegt, og vissulega er það alvarlegt. En við eigum ákaflega auðvelt með að bregðast við þessu vandamáli með þeirri einföldu aðferð sem heitir sparnaður. Ég hygg t.d. að við séum eftir síðustu ár betur búnir að því er varðar bifreiðaeign en flestar, ef ekki allar aðrar þjóðir í heiminum. Við mundum sannarlega ekki finna mikið fyrir því þótt við stöðvuðum allan bilainnflutning til Íslands í hálft eða heilt ár. Og þetta á ekki aðeins við um bíla. Þetta á við um fjölmargar vörutegundir aðrar. Ég hygg að hver einasti maður geti rifjað upp í huganum sparnað sem við getum framkvæmt á þessu sviði án þess að það kæmi við okkur. Okkur er í lófa lagið að spara milljarða og aftur milljarða kr. án þess að komið sé nálægt nokkru því sem telja má til brýnna þarfa.

Menn segja, að þetta séu höft og að höft eigi ekki við í frjálsu nútímaþjóðfélagi. Vissulega er það rétt að með slíkum ráðstöfunum er að nokkru leyti verið að ráðast gegn afleiðingum, en ekki orsökum. Því hlytu slíkar ráðstafanir að vera tímabundnar meðan verið er að koma á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Þannig bregst hver skynsamur maður við þegar fjárhagsvandræði steðja að heimili hans. Þannig hlýtur þjóðarheildin einnig að verða að bregðast við. Og það er ekki eins og við þurfum að ganga nærri okkur. Við erum enn þrátt fyrir alla erfiðleika í hópi þeirra ríkja, þar sem þjóðartekjur á mann eru einhverjar hinar hæstu í heimi. Því getum við sannarlega haldið áfram að búa við öryggi og sómasamlegan efnahag, ef landinu væri stjórnað af skynsemi og fyrirhyggju. En þetta er það sem er hið almenna svar við öllum hugmyndum um skynsamleg úrræði í félagsmálum. Það er vissulega rétt, að vandi okkar er ekki aðeins á sviði gjaldeyrismála. Vandi okkar snertir einnig stöðu útflutningsatvinnuveganna. En skyldi ekki einnig vera hægt að spara á því sviði. Það er ekki aðeins einkenni á þjóðfélagi okkar að þjóðartekjunum sé misjafnlega skipt á milli manna. Ég hygg að það sé einkenni á þjóðfélagi okkar í enn þá ríkari mæli, hversu mikið fjármagn fer í súginn í tilgangslausa eyðslu sem ekki verður þjóðarheildinni til neins fagnaðar. Þetta á við um sjávarútveg, þetta á við um iðnað, þetta á við um landbúnað og þetta á í afar ríkum mæli við um þjónustu, útflutning og innflutning Þar er um að ræða mörg hundruð milliliða, sem eru forríkir ómagar á þjóðarheildinni. Það væri hægt að spara milljarða á milljarða ofan með bættu skipulagi, hagkvæmari vinnubrögðum og aukinni framleiðni. Þarna verður fyrst og fremst að taka til hendi þegar á bjátar. Við þurfum að koma betra skipulagi á þjóðarbúskap okkar.

Fyrst ég er farinn að ræða um efnahagsmálin almennt skal ég gjarnan lýsa því yfir, að ég er þeirrar skoðunar að á síðasta ári hafi verið mikil umframkaupgeta í þjóðfélaginu, heildarkaupgetan hafi verið verulega umfram það sem þjóðarbúið stóð undir. En menn mega ekki ræða um heildarkaupgetu eins og allir sitji við sama borð á Íslandi. Sú er sannarlega ekki raunin. Það er ekki of mikil kaupgeta hjá verkafólki í iðnaði eða sjávarútvegi og ýmsum öðrum greinum sem hefur tæpar 40 þús. kr. á mánuði sér til lífsframfæris fyrir fulla dagvinnu. Iðja ríkisstj. hefur fyrst og fremst beinst að því að þrýsta kaupgetu þessa fólks niður, og það er haldið uppi þeim ósanna og ósæmilega áróðri af forustumönnum stjórnarflokkanna og af stjórnarblöðunum að nú ári ekki til kauphækkana. Þetta fólk, sem ég var að tala um, hefur ekki farið fram á neina kauphækkun. Verkalýðssamtökin fara fram á það eitt að það kaup, sem um var samið á síðasta ári fyrir þetta láglaunafólk, haldi verðmæti sínu. Það er ekki um að ræða kauphækkanir, heldur að rauntekjur þessa fólks haldist óskertar.

Við megum ekki gleyma því, að fulltrúar fyrrv. ríkisstj. voru viðstaddir þá kjarasamninga, sem gerðir voru í fyrra, og bera siðferðilega ábyrgð á þeim hluta samninganna, sem snertir láglaunafólk. Við skulum ekki heldur gleyma því, að þáv. stjórnarandstaða var ekki þeirrar skoðunar þá, að þarna væri samið um of mikið handa láglaunafólki, heldur þvert á móti. Það var allt annar tónn sem þá var uppí hjá forustumönnum Sjálfstfl. og í Morgunblaðinu. Vissulega eru aðstæður á Íslandi verulega breyttar síðan þessir samningar voru gerðir í fyrra, og við verðum að taka tillit til þeirra breytinga. En ég hef hvergi séð eða heyrt nein rök fyrir því, að heildartekjur þjóðarbúsins rísi ekki undir því að fólk, sem hefur nú innan við 44 þús. kr. tekjur á mánuði, haldi óskertum kaupmætti. Ég vil auglýsa eftir þeim rökum, ef menn telja sig hafa þau. En þó tekur í hnúkana þegar kemur að öldruðu fólki og öryrkjum sem eiga afkomu sina undir bótum almannatrygginga. Það hefur ekki verið níðst jafnfreklega á nokkrum þjóðfélagshópum eins og þessum. Fólk, sem ekki hefur aðrar tekjur en almennan lífeyri að viðbættri tekjutryggingu, hefur nú 21 398 kr. á mánuði. Við fólk með slíkan tekjugrundvöll er í rauninni ekki hægt að beita venjulegum reikningsaðferðum til þess að meta kjörin. Neyslugrundvöllurinn er allur annar en í dæminu um vísitölufjölskyldu og almenna launamenn.

1 grg. með frv. okkar hv. þm. Bjarnfríðar Leósdóttur eru tekin dæmi af kaupgetu þessarar upphæðar gagnvart ýmsum mjög hversdagslegum neysluvörum og ég ætla ekki að fara að þylja þær tölur hér. Þær geta menn lesið í grg. En mig langar að minna á nokkrar viðbótarstaðreyndir.

Ársneysla vísitölufjölskyldunnar af nokkrum algengustu matvælum, þ.e.a.s. mjólk, súpukjöti, smjöri, eplum, kartöflum, sykri, kaffi og franskbrauði, kostaði fyrir stjórnarskipti 64 þús. kr. Nú er sami kostnaður 105 þús. kr. Hækkunin er 64%. Símagjöld í Reykjavík hafa í tíð núv. ríkisstj. hækkað um 58%. Hitaveitugjöldin í Reykjavík hafa í tíð núv. ríkisstj. hækkað um 60%. Þetta er allt saman vörur og þjónusta sem þetta fólk, þetta tekjulága fólk, þarf á að halda. En hækkunin á tekjum þess hefur aðeins verið 13%. Raunar var komið alveg herfilega fram við þetta fólk, þegar brbl. um svokallaðar láglaunabætur voru sett. Í viðræðum, sem ríkisstj. átti við fulltrúa verkalýðsfélaganna, kom fyrst fram hugmynd um láglaunabætur sem yrðu eins fyrir alla og ættu að nema 4500 kr., voru þá miðaðar við dagvinnuna. Í viðræðum við verkalýðsfélögin kom það fram, að þau töldu eðlilegt að slíkar bætur yrðu einnig reiknaðar af eftirvinnu og næturvinnu, og fyrir því eru að sjálfsögðu full rök af hálfu verkalýðssamtakanna. En ríkisstj. brást þannig við þessari hugmynd, að hún lækkaði dagvinnuupphæðina um 1000 kr., þ.e.a.s. sú upphæð var tekin af því fólki sem ekki hefur neina eftirvinnu, og það er býsna stór hópur fólks sem ekki hefur hana, m.a. í almennum iðnaði, og þessi upphæð var tekin af öldruðu fólki og öryrkjum sem eiga afkomu sína undir bótum almannatrygginga. Þar að auki var ekki miðað við lágmarksupphæð þegar ákvörðun var tekin um bætur almannatrygginga til þessa fólks, heldur við prósentu, sem lagðist ofan á lágan grunn. Því eru þessar láglaunabætur til aldraðs fólks og öryrkja ekki nema 1894 kr. Ég held að ég þurfi ekki að lýsa því fyrir mönnum hvernig afkoma þessa fólks hefur breyst á þessum stutta tíma.

Ég hygg að kjör aldraðs fólks og öryrkja hafi verið skert meira og tilfinnanlegar en afkoma nokkurra annarra þjóðfélagsþegna, vegna þess að þetta fólk gat ekki sparað við sig neina munaðarneyslu og vegna þess að það eru einkum matvælin og hversdagslegustu lífsnauðsynjar sem hafa hækkað mest í því óðaverðbólguflóði sem við höfum fengið að kynnast síðustu mánuðina. Hvað á þetta fólk, sem hefur rúmar 20 þús. kr. í mánaðartekjur, að spara við sig? Ég óska eftir því að fá svör við þeirri spurningu. Hæstv. trmrh. er því miður ekki viðstaddur hér, en það hefði verið fróðlegt að biðja hann að gera grein fyrir þessu máli. Hann situr hér á Alþ. og hann situr í ríkisstj. sem fulltrúi almennings í landinu. Hann á að líta á sig sem trmrh. sem fulltrúa þess fólks, sem á afkomu sína undir bótum almannatrygginga. Hann á að líta á sig sem fulltrúa fólksins gagnvart kerfinu, en ekki fulltrúa kerfisins gagnvart fólkinu. Hvað á þetta fólk að spara? Ég spyr aftur.

Hæstv. ráðh. getur að sjálfsögðu ekki notað sína eigin reynslu til þess að kenna öldruðu fólki og öryrkjum sparnað, vegna þess að hann mun fá á svo sem eins og þremur vikum svipaða upphæð í tekjur og þetta fólk á að lífa af í heilt ár. En engu að síður hljóta ákvarðanirnar um að skerða raungildi þessara tekna að styðjast við eitthvað raunsætt mat. Ég óska eftir því að það mat verði lagt fyrir okkur, að okkur verði sannað að þetta sé bæði hægt gagnvart þessu fólki og að þjóðfélag okkar risi ekki undir því að þetta fólk hafi slíkar tekjur.

Eins og ég sagði áðan, þá hef ég klifað á þessu vandamáli á þinginu í vetur. Ég hef vakið athygli á því hvenær sem tilefni hefur gefist og ég hef flutt um það fjölmargar till. Till. hafa allar verið felldar. En ég hef einnig tekið eftir öðru. Það hefur enginn þm. stjórnarliðsins, enginn ráðh. staðið upp til þess að mótmæla skoðunum mínum og röksemdum. Menn hafa setið hér óupplitsdjarfir og þagað, en greitt atkv. þungbúnir og greinilega hefur þeim ekki liðið vel, En þannig geta kjörnir fulltrúar þjóðarinnar ekki hagað sér. Þeim ber skylda til að rökstyðja afstöðu sína í áheyrn alþjóðar, að afkoma þjóðarbúsins sé nú slík að ekki sé einu sinni hægt að halda óskertum viðbótargreiðslum til þess fólks sem býr við bágasta afkomu í þjóðfélaginu. Ég vil skora á stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. og þann eina hæstv. ráðh., sem hér er viðstaddur, að taka til máls og gera grein fyrir því með hvaða rökum og samkv. hvaða siðferðismati hann telur hægt að réttlæta það að kjör þessa fólks séu skert svo mjög sem dæmin sanna. Eftir að við höfum heyrt þær röksemdir og rætt þær, þá legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.