11.02.1975
Sameinað þing: 41. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

145. mál, endurskoðun laga um iðju og iðnað

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Tilefni þeirrar þáltill., sem er á þskj. 81, er eins og hér mun greint — með leyfi forseta — tilvitnun í bréf, dags. 24. okt. 1973, er Skúli Pálsson laxaræktarbóndi sendi landbn. Alþ. Ég verð að fá leyfi forseta til að vísa í nokkur bréf sitt á hvað. En eins og fram mun koma með tilvitnun í þessi bréf frá sitt hvorum aðilanum, er það einmitt ástæðan fyrir því að við hófumst handa um að fá þessa þáltill. gegnum Alþ., en hún er þannig:

Alþ. ályktar að kjósa n. 5 manna er rannsaki orsakir deilna þeirra sem risið hafa vegna starfsemi fiskeldisstöðvarinnar að Laxalóni. Skulu sérstaklega rannsakaðar ástæður þær sem til þess liggja að yfirvöld hafa neitað um nauðsynleg leyfi til frjálsrar sölu og meðferðar á afurðum stöðvarinnar, N. skal hafa lokið störfum áður en reglulegt Alþ. kemur saman á hausti komanda. Kostnaður vegna starfa n. greiðist úr ríkissjóði.“

Þetta er ályktunin eins og hún er og nokkur grg. fylgir.

En fyrsta bréf, sem ég sá um þessi mál, kom til mín sem nefndarmanns í landbn. Ed. og er dagsett, eins og ég sagði áðan, 24. okt. 1973:

„Ég leyfi mér hér með allra virðingarfyllst að senda hv. landbn. Alþ. ljósrit af bréfi mínu, dags. 11. sept. s.l. til landbn., þar sem ég hef óskað eftir því að rn. hlutist til um að fram fari opinber rannsókn á afskiptum veiðimálastjóra, Þórs Guðjónssonar, af fiskræktarstarfsemi minni allt frá upphafi til þessa dags og þeirri viðleitni sem þessi embættismaður hefur haft í frammi til þess að knésetja starfsemi mína, en með neikvæðum afskiptum sínum annars vegar og vanrækslu embættisskyldu hins vegar hefur hann þegar valdið mér og þjóðarbúinu í heild ómældu tjóni.

Jafnframt leyfi ég mér að láta fylgja ljósrit matsgerðar tveggja sérfræðinga sem dómkvaddir voru á s.l. vori til þess að meta til peningaverðs tjón það er ég varð fyrir, sakir þess að eigi reyndist unnt að fá viðeigandi vottorð um heilbrigði fisksins í eldisstöð minni.

Fisksjúkdómanefnd, en þar er veiðimálastjórinn einn nm., hefur vanrækt þau eftirlitsstörf sem veiðilöggjöfin hefur lagt henni á herðar, og vanrækt að koma á fót aðstöðu til þess að fylgjast með heilbrigðisástandi eldísfiska til þess að unnt sé að gefa vottorð um heilbrigði fisksins í samræmi við þær kröfur sem almennt eru nú gerðar erlendis í sambandi við útflutning hrogna og seiða.

Í ársbyrjun 1971, eða skömmu eftir að fisksjúkdómanefnd hafði verið skipuð, óskaði ég eftir því við form, hennar, yfirdýralækni Pál Pálsson, að framvegis yrði fylgst með því að um smitnæma sjúkdóma væri ekki að ræða í fiskræktarstöð minni vegna væntanlegs útflutnings hrogna og seiða. Vænti ég þess að nú verði bót á ráðin eftir 20 ára vanrækslu veiðimálastjórans sem fyrir stofnun fisksjúkdómanefndar hefði átt að hafa heilbrigðiseftirlit á hendi, en aldrei framkvæmt að því er varðaði eldisstöð mína. Stöðugt eftirlit dýralæknis hefur að vísu verið framkvæmt síðan og aldrei orðið vart neinna sjúkdóma nú fremur en nokkurn tíma áður. Engu að síður hefur n. eða yfirdýralæknir ekki treyst sér til þess að gefa fullkomið heilbrigðisvottorð varðandi veirusjúkdóma, og hefur synjun um slíka vottorðsgjöf verið rökstudd með því að hvorki væri hér völ sérfræðinga, tækja né aðstöðu til þess að framkvæma nauðsynlegar rannsóknir í því skyni. Ég hef bent á það að rannsóknir þessar mætti framkvæma erlendis, t.d. í Danmörku, á sýnum, sem reglulega væru tekin úr stöð minni af dýralækni. Hef ég boðist til þess að greiða allan þann kostnað sem af þessu hlytist. Jafnfimmt hef ég boðist til þess að greiða kostnað af komu sérfræðings hingað til lands sem framkvæmt gæti slíka rannsókn, svo að dýralæknir gæti gefið viðhlítandi vottorð. Ábendingar mínar hafa engan hljómgrunn fengið hjá yfirvöldum veiðimála.

Það var ekki fyrr en á s.l. vori, eftir fund minn og lögfræðings míns með hæstv. landbrh., að hann gaf yfirdýralækni fyrirmæli um að semja við sænskar eða danskar vísindastofnanir um fisksjúkdómarannsóknir á hrognum, seiðum eða fiski úr íslenskum eldisstöðvum, þar til unnt verður að annast slíkar rannsóknir hérlendis.

Eins og ég hef margsinnis bent á og raunar gert kröfu til yfirvalda veiðimála um, hefðu þessar rannsóknir getað farið fram undanfarin ár, en vegna þessa dæmalausa sinnuleysis hefur ekkert verið að gert og hef ég af þeim sökum orðið að eyðileggja nálega alla regnbogasilungshrogna framleiðslu mína undanfarin ár. Á s.l. vori aðvaraði ég sérstaklega við því yfirvofandi tjóni sem hæglega hefði mátt afstýra ef vilji heilbrigðisyfirvalda og yfirstjórnar veiðimála hefði verið fyrir hendi, en tjón mitt á þessu ári af þessum sökum er 2 millj. 573 þús. kr. skv. niðurstöðum matsmanna. Er þó ekki tekið tillit til þess að vegna þeirra afskipta sem ég hef orðið að þola af veiðimálastjóra nú á þriðja áratug, hefur mér verið meinað að efla regnbogasilungsrækt mína og annarra vegna banns við brottflutningi hrogna og seiða úr eldisstöð minni, en þrengsli eru svo mikil í stöðinni að ekki er unnt að auka við þann regnbogasilungsstofn sem þar er. Ég hef átt kost þess að selja einum aðila regnbogasilungshrogn fyrir 3 millj. kr. árlega um fimm ára skeið, auk þess sem mér berast pantanir og fsp. um mögulega sölu fyrir millj. kr. árlega sem ég hef ekki fengið að hagnýta mér vegna sinnuleysis og dæmalausrar þröngsýni þeirra aðila sem stjórn veiðamála hafa á hendi.

Eins og áður sagði skipaði hæstv. landbrh. á s.l. vori svo fyrir, að erlendum vísindastofnunum skyldi falið að annast veirurannsóknir á fiski í eldisstöðvum hér á landi meðan ekki væru tök á því hér. Ekki var þó hafist handa um þessar rannsóknir fyrr en síðla sumars. Var þá m.a. rannsakaður fiskur í eldisstöð minni. Hef ég að vísu rökstuddan grun um að fisksjúkdómanefnd hafi nú þegar fengið gögn um niðurstöður þeirrar rannsóknar, en ekki hefur n. þó séð ástæðu til þess að tilkynna mér um hana, enda mun hún hafa verið á þá leið, sem og var vitað, að veirusjúkdómar fundust ekki í fiski. Er það og í samræmi við þær rannsóknir á sýnum, sem ég hef sjálfur sent til rannsóknar í rannsóknarstöð í Danmörku, og enn fremur í samræmi við margendurteknar og stöðugar rannsóknir á eldisfiski úr stöð minni sem alinn er einangraður í Danmörku og eigandi hans bindur nú miklar vonir við, sbr. meðfylgjandi grein í dagblaðinu Tímanum.

Ég vil sérstaklega vekja athygli yðar á þeirri staðreynd að augu flestra fiskræktarstöðva um alla Evrópu, þar sem regnbogasilungur er ræktaður, einblína nú á Ísland, þar sem vitað er að unnt er að fá heilbrigðan fisk. Það ber orðið brýna nauðsyn til þess að ráða þá bót á stjórn veiðimála og framkvæmd í veiðimálum að sá, sem yfir þessu máli er skipaður, standi ekki gegn eðlilegri þróun þeirra.

Ég kemst að sjálfsögðu ekki hjá því að leita réttar míns um bætur fyrir það tjón sem ég hef orðið að þola af þessum sökum, en hefði að sjálfsögðu kosið það heldur að ekkert hefði orðið sem aldrei þurfti að verða. Ég heiti hins vegar á hv. n. að hún beiti áhrifum sínum til þess að byggja fyrir endurtekningu þeirra í framtíðinni og veiti jafnframt jákvæðan stuðning við þjóðhagslega arðbæra fiskrækt í landinu.

Ég hef nú fyrir nokkrum árum keypt mér land til fiskræktar austur í Ölfusi. Vegna þess fjárhagslega tjóns sem ég hef orðið fyrir vegna sinnuleysis þeirra stjórnvalda sem með þessi mál fara og lagt hafa stein í götu eðlilegrar þróunar á regnbogasilungsrækt minni og hindrað sölu verðmætis fyrir millj. kr. árlega, hef ég ekki haft bolmagn til að hefja þar framkvæmdir á fiskræktarstöð minni, enda má segja að til lítils væri að koma þar upp slíkri stöð ef ekki má flytja í hana fiskinn, þann sem arðvænlegastur er eins og nú standa sakir. Hefði ég að sjálfsögðu heldur kosið að unnt yrði að bæta mér það tjón, sem ég hef þegar orðið fyrir, með samningum, t.d. þar sem kveðið væri á um árlega fjárhagsfyrirgreiðslu við fiskræktarstarfsemi mína, fremur en að þurfa að leita réttar míns fyrir dómstólum sem ella er óhjákvæmilegt.

Það er nú eindregin ósk mín og von að hv. landbn. Alþ. vilji nú láta málefni þessi nokkuð til sín taka í þeim tilgangi að koma á betri og hlutlægari skipan veiðimála en hingað til hefur verið, en á því er brýn nauðsyn.

Ég hef í þessu erindi mínu ekki drepið nema á örfá atriði sem að mér hafa snúið, en sýna þó að litlu leyti hvert tjón er hægt að baka einum fiskræktarbónda með sinnuleysi og ódrenglyndi stjórnvalda þeirra sem skipuð eru til að sjá um eflingu hans. Þessi mynd sýnir hins vegar ekki það þjóðhagslega fjártjón sem sinnuleysi þetta hefur valdið.

Mér væri mikil þökk í því að eiga þess kost að fá að ræða nánar við hv. n. eða einstaka nm. fyrir hennar hönd til þess að veita nánari skýringar á því sem óskýrt kunni að vera í erindi þessu og veita annars upplýsingar um viðskipti mín við stjórn veiðimála á undanförnum áratugum og þá reynslu sem ég hef haft af fiskrækt á þeim tíma, ef það mætti stuðla að betri skipan þessara mála í framtíðinni.

Allra virðingarfyllst.

Skúli Pálsson.“

Þannig var þetta fyrsta bréf sem landbn. fékk. Skúli Pálsson hefur komið á fund n. og einnig kom Þór veiðimálastjóri á fund. Skúli bætti mjög við þau gögn sem hann sendi n. þegar í upphafi. Hins vegar lofaði veiðimálastjóri að senda okkur mörg gögn, en ég hef ekki fengið eitt einasta bréf frá hans hendi þó að ég hafi fengið bréf frá yfirdýralækni og fleiri aðilum er mætti kalla að nokkru leyti gagnaðila í málinu. Þetta verð ég að harma mjög, að sjálfur veiðimálastjóri skuli ekki sjá ástæðu til þess, þegar hann lofar því á fundi n. að senda okkur nm. margvísleg gögn um þetta mál og skýra með því viðhorf sitt. Ég vil undirstrika það mjög rækilega að till. er sett fram til þess að þetta mál fái eðlilega athugun og jafnvel þó að svo fari að ég varði hér að vitna í fleiri bréf frá Skúla, vil ég undirstrika það rækilega að tilgangur okkar er að málið fái eðlilega athugun og leitt sé í ljós hið sanna í þessu vandamáli og leiðindadeilumáli. Við flm. drögum ekki taum eins eða neins í þessu máli. Þetta er þannig vaxið að þegar einni n. í Alþ. eru send bréf og ýmiskonar gögn og harðar ásakanir, er varla hægt að þegja lengur yfir því að líta á málið nokkru nánar. Einnig hefur það skeð, að Alþ. hefur veitt ríkisábyrgð fyrir allt að 15 millj. kr. fyrir þennan laxveiðibónda og þess vegna tel ég eðlilegt að hlutlaus rannsókn fari fram á því hvernig þessi mál eru til komin og hægt verði að fá þau útkljáð og málið lagt fyrir og þar með verði því lokið á sem skemmstum tíma.

Á sínum tíma skrifaði Þór Guðjónsson nokkuð um hvað regnbogasilungur væri, og til að skýra málið og um hvaða fisk er að ræða ætla ég aðeins að lesa hér örstutta tilvitnun úr þessari grein:

„Regnbogasilungurinn hefur verið fluttur frá hinum upprunalegu heimkynnum sínum á vesturströnd Bandaríkjanna og sleppt í veiðivötn í öllum heimsálfum. Hófust þessir flutningar um 1880 og var mest flutt af hrognum og seiðum salta afbrigðisins frá ríkisklakstöðinni í McCloudánni í Kaliforníu. Til Evrópulanda fóru fyrstu flutningarnir fram 1882. Flutningur regnbogasilungs í ár og vötn í Ameríku og á Nýja-Sjálandi hefur tekist ágætlega. Hins vegar hefur árangurinn af flutningi hans í veiðivötn í Evrópu verið síður en svo góður. Er aðeins um að ræða sárafá veiðivötn þar sem komist hafa upp regnbogasilungsstofnar. Seiðaflutningar hafa mjög oft tekist vel og fyrstu árin hafa seiðin vaxíð ört, en fiskurinn tímgast ekki og hverfur því úr vötnum nema því aðeins að sleppt sé í þau regnbogasilungi árlega. Í ám hefur regnbogasilungurinn einnig horfið fáeinum árum eftir að honum hefur verið sleppt sem seiðum. Er talið að hann gangi til sjávar og skili sér ekki aftur í árnar. Eldi regnbogasilungs hefur gengið ágætlega í Evrópu eins og annars staðar. Regnbogasilungurinn hefur ýmsa kosti í eldi fram yfir t.d. urriða, því að hann þolir hærri hita, er ónæmari fyrir sjúkdómum og vex örar þegar vel er fóðrað.“

Fleira mætti taka úr þessari grein, en ég held að það verði varla tími til þess að vitna meira í þessa grein eftir veiðimálastjóra. En það kemur fram af þessu að hér er um vænlegan fiskstofn að ræða til þess að hafa af honum nokkurn arð sem búskapargrein, enda er það alkunnugt víða í Evrópu og viðar í heiminum að hann gefur allmikinn arð af sér.

Þetta mál hefur borið hér fyrir Alþ. áður og var fsp. á þskj. 379, þá flutt af Oddi Ólafssyni, til landbrh. um afskipti stjórnvalda af regnbogasilungseldi Skúla Pálssonar að Laxalóni. Um þetta urðu allmiklar umr. og fisksjúkdómanefnd gerði þá aths. í allmiklu bréfi, þar sem fisksjúkdómanefnd taldi að rangar upplýsingar hafi komið fram, og held ég að ég verði að lesa talsvert úr því bréfi til að skýra viðhorf þeirra einnig, en þeir verja afstöðu sína m.a. með þessum orðum:

„Eins og kunnugt er voru regnbogasilungshrogn flutt frá Danmörku árið 1951 að eldisstöðinni í Laxalóni við Grafarlæk. Af hálfu landbn. vorn þá sett ýmis skilyrði fyrir þessum innflutningi í varúðarskyni, svo sem varðandi heilbrigðisvottorð, sótthreinsun hrogna og einangrun þeirra. Talið er að skilyrði þessi hafi ekki verið haldin að fullu af innflytjanda, Skúla Pálssyni, Hrogn þau, sem hér um ræðir, komu frá dönskum fiskræktarmanni í Egtved. Við þann bæ er Egtvedveikin kennd, en það er banvænn veirusjúkdómur í regnbogasilungi sem valdið hefur dönskum fiskræktarmönnum þyngri búsifjum en allir aðrir fisksjúkdómar undanfarna tvo áratugi og hefur kostað danska ríkið óhemjufjárútlát. Er nú reynt að útrýma sjúkdómnum með niðurskurði og fiskskiptum í þeim eldisstöðvum þar sem hann gerir mest tjón.

Fyrstu árin eftir að regnbogasilungshrognin komu til landsins var stofninum haldið einangruðum. Síðar var sú kvöð lögð á eiganda regnbogasilungsins að lifandi fisk mætti ekki flytja frá Laxalóni nema með leyfi landbrn. Hins vegar hafa aldrei verið lagðar neinar hömlur af hálfu hins opinbera á ræktun og eldi regnbogasilungsins innan stöðvarinnar til slátrunar og sölu, en það var að sögn eiganda tilgangur hans með innflutningi og eldi regnbogasilungsins.“

Síðan kemur kafli sem varla er rétt að vera að vitna meira í, en síðar segir svo:

„Í lögum um lax- og silungsveiði, sem tóku gildi 25. júní 1970, er gert ráð fyrir að sjúkdómum vatnafiska sé sinnt sérstaklega. Í lögum þessum er gert ráð fyrir n. sérfróðra manna, fisksjúkdómanefnd, er starfi stjórnvöldum til ráðuneytis. Frá því snemma á árinu 1971 hefur héraðsdýralæknirinn í Rvík að frumkvæði fisksjúkdómanefndar haft eftirlit með eldisstöðinni að Laxalóni sem og öðrum eldisstöðvum í umdæmi hans, sbr. reglugerð er síðar var sett um það efni, reglugerð nr. 70/1972. Eftirlit þetta felst í því að dýralæknir kemur óvænt í heimsókn á stöðvarnar, skoðar fisk, seiði og hrogn sem þar er í eldi með tilliti til sjúkdómseinkenna. Ef ástæða er talin tekur hann sýni til krufningar eða frekari rannsókna.

Þar sem aðstaða til rannsókna á veirusjúkdómum í fiski hefur ekki verið fyrir hendi hér á landi, hafði landbrn. forgöngu, eins og áður var tekið fram, um það að fenginn væri danskur fisksjúkdómafræðingur til þess að rannsaka sýni úr eldísstöðvunum hér á landi með tilliti til þess hvort veirusjúkdómar kynnu að leynast þar. Þær rannsóknir hófust haustið 1973 og er gert ráð fyrir eðli málsins samkv. að þær standi yfir eitt ár hið skemmsta. Rannsóknir á einu úrtaki frá eldisstöðinni í Laxalóni hafa þegar verið gerðar og fundust ekki veirur í sýnunum. Blóðsýni, sem tekin voru á liðnu hausti úr stálpuðum regnbogasilungi frá Laxalóni, reyndust innihalda mótefni gegn svonefndri IPN-veiru. Er óvíst hvernig beri að túlka þær niðurstöður. Þó munu IPN-veirur hafa fundist í sumum þeim fiskum sem aldir voru upp í Danmörku af regnbogasilungshrognum frá Laxalóni, en á því gæti verið sú skýring að þessi silungur hafi sýkst í Danmörku þar sem slíkar veirur eru landlægar.“

Svo er ýmislegt fleira tekið fram hér, sem að mínu mati skiptir minna í þessum inngangi til að sýna viðhorf manna á tvo vegu, en síðar í bréfinu, á bls. 4, segir:

„Óþarft ætti að vera að minna hv. alþm. á þá hörmulegu og dýrkeyptu reynslu sem íslendingar hafa orðið fyrir af völdum smitsjúkdóma búfjár þrátt fyrir mikla varfærni í þeim málum oft á tíðum. Á ég þar við hina alþekktu sauðfjársjúkdóma, mæðiveiki, garnaveiki, riðuveiki, kýlapest o.s.frv. sem hingað hafa borist með innflutningi. Þess eru mörg dæmi að smitsjúkdómar í fiskum hafi borist landa á milli með hrognum og seiðum og oft valdið stórfelldu tjóni. Afleiðing þess er svo m.a. hinar ströngu hömlur á innflutningi vatnafiska og hrogna sem ýmsar þjóðir, t.d. bandaríkjamenn og danir, hafa sett hin síðari ár og bitnað hafa að nokkru á íslendingum. Þeim mun minni sem þekking manna er á fisksjúkdómum miðað við sjúkdóma annarra dýrategunda, þeim mun meiri ástæða er til þess að sýna ítrustu varfærni í þessum málum.“

Þetta bréf er dags. 18. febr. 1974.

Ég hef hér undir höndum í gögnum, sem landbn. var send, nokkur ljósrit af bréfum sem Skúli Pálsson ritaði yfirdýralækni. M.a. ritar hann 2. mars 1971 svo hljóðandi bréf:

„Hr. yfirdýralæknir Páll A. Pálsson, Keldum við Reykjavík.

Ég leyfi mér að vísa til samtals er ég átti við yður 26. febr. s.l. viðkomandi eftirlit varðandi fisksjúkdóma í fiskeldisstöð minni að Laxalóni. Ég vil hér með leyfa mér að fara þess á leit við yður, að eftirleiðis verði fylgst með því að um smitnæma fisksjúkdóma sé ekki að ræða í fiskræktarstöð minni. Þessi ósk mín er vegna þess að þeir aðilar erlendis, sem hafa hug á að kaupa hrogn eða seiði frá mér, óska að fá heilbrigðisvottorð þegar varan er afgreidd til þeirra. Þann kostnað, sem mun verða af viðkomandi eftirliti, mun ég annast greiðslu á. Ég leyfi mér að vænta svars yðar þessu viðkomandi.

Virðingarfyllst,

Skúli Pálsson.“

Því miður er þessi beiðni ekki virt svars og er enn eitt dæmi um það í embættiskerfi íslendinga að hinn almenni borgari er ekki virtur þess að bréfum sé svarað. En Skúli hættir ekki samt sem áður við þetta og skrifar annað bréf efnislega eins 12. jan. 1972 og bréfinu er ekki heldur svarað. Og hann heldur áfram að skrifa og biðja um að athugun fari fram á fiskinum svo að hann geti sinnt beiðnum, sem koma frá útlöndum, um sölu á hrognum. Og 22. maí 1973 skrifar hann landbrn. langt bréf sem ég get ekki vitnað í nema að hluta, en þar segir m.a.:

„Þrátt fyrir beiðni mína hafa ekki verið framkvæmdar þær rannsóknir á fiskstofninum sem leiði í ljós, að um vírussjúkdóma er ekki að ræða í stöðinni“ — þetta segir hann að sínu mati — „og því hefur ekki verið unnt að gefa nauðsynleg vottorð sem fylgja þurfa og krafist er við útflutning hrogna og seiða úr stöðinni til útlanda. Hefur þetta þegar leitt til ómælds tjóns fyrir mig, þar sem ég hef ekki getað tekið erlendum kauptilboðum um regnbogasilungshrogn, þar sem ég hef ekki átt þess kost að láta sendingum fylgja vottorð, þar sem fram komi að umræddrar vírusrannsóknir hefðu farið fram.“

Og afrit af þessu bréfi til landbrn. fær fisksjúkdómanefnd, hr. yfirdýralæknir Páll A. Pálsson.

Landbrn. svarar 13. júní 1973 og þar segir: „Vegna bréfa yðar, dags. 22. maí“ — sem ég var að vitna í áðan — „og 7. júní s.l. varðandi heilbrigðisrannsóknir í eldisstöð Skúla Pálssonar á Laxalóni tekur rn, eftirfarandi fram:

Yður er ljóst að á Íslandi er enn ekki aðstaða til að gera sumar þær heilbrigðisrannsóknir sem erlendir kaupendur að framleiðslu eldisstöðva krefjast. til slíks skortir bæði sérmenntaða starfsmenn og tæknibúnað. Tekin hefur verið ákvörðun um að stefna að því að koma upp aðstöðu hér á landi fyrir rannsóknir á sjúkdómum í fiskeldisstöðvum, þ. á m. veirusjúkdómum. Þangað til slík aðstaða hefur verið sköpuð er áformað að leita eftir samvinnu við erlenda sérfræðinga um fiskeldissjúkdóma og er nú unnið að því að koma á slíkri samvinnu.

Vegna fsp. í bréfi 22. maí s.l. um afstöðu rn. til ráðstöfunar á hrognum sem ekki reyndist unnt að selja þar sem enn er ekki aðstaða til veirurannsókna, skal yður tjáð að rn. er í engri aðstöðu til að hafa afskipti af hvernig þeim er ráðstafað, en mun eftir getu stuðla að því að samvinna við erlendar vísindastofnanir um sjúkdóma í eldisfiskum komist á sem fyrst.

F.h. ráðh.

Sveinbjörn Dagfinnsson

ráðuneytisstjóri.“

Síðan sendir rn. frá sér bréf 16. júlí 1973 en þar segir:

„Rn. hefur borist ljósrit af bréfi, sem barst frá P.E. Westergård Jörgensen dýralækni við Statens Veterind Laboratorium. Afdeling for Jylland, dags. 10. þ.m., varðandi töku sýna og rannsóknir veirusjúkdóma í eldisfiski. Eins og bréfið ber með sér er hinn danski sérfræðingur fáanlegur til að semja um rannsóknir á fiski úr íslenskum eldisstöðvum og hefur rn. ákveðið að leita eftir samningum um þessar rannsóknir.

Þetta tilkynnist hér með. —

F.h. ráðh.

Sveinbjörn Dagfinnsson.“

Sent lögfræðingi Skúla Pálssonar, Sveini Snorrasyni hrl.

Síðan koma niðurstöður úr þessum rannsóknum og hef ég hér fengið sendar tilvitnanir um þessar rannsóknir en þar kemur fram að ekkert finnst athugavert. Ég hef hér undir höndum niðurstöður frá 9. maí 1974, 4. okt. 1974 og 5. des. 1974. Af öllum þessum sýnum, sem þessar tilvitnanir fjalla um, kemur í ljós að þar hefur ekki fundist neitt sem bendir til að þessi IPN-vírus sé í stofni Skúla Pálssonar og því, eins og hann hefur haldið fram, má ætla að stofninn sé alheilbrigður. En í millitíðinni hefur það gerst að Skúli hefur átt kost á því að flytja út, en viðkomandi aðilar hafa ekki treyst sér til að gefa út vottorð er segi neitt af eða á um heilbrigði stofnsins vegna þess að þeir hafa ekki annast rannsóknir, og þess vegna segja þeir: Við erum ekki í aðstöðu til þess að gefa út eitt eða neitt varðandi heilbrigðina, fyrr en aðstaða er fyrir hendi eða rannsókn annars staðar frá.

Hér sendi yfirdýralæknir mér persónulega bréf eða ljósrit af bréfi, dags. 25. mars 1974, sem ég ætla að lesa kafla úr, með leyfi forseta, en þar segir:

„Eins og ég hef þrásinnis áður bent á, hefur Skúla Pálssyni aldrei verið synjað um heilbrigðisvottorð vegna útflutnings á seiðum eða hrognum úr eldisstöðinni að Laxalóni. Hafa vottorð þessi verið gefin eftir því sem efni hafa staðið til hverju sinni og afhent Skúla þegar hann hefur óskað eftir því. Til þess að unnt sé að gefa út slík heilbrigðisvottorð, þurfa auk upplýsinga um heilbrigðisástand að liggja fyrir ýmsar upplýsingar sem útflytjandi verður að láta í té, t.d. varðandi magn og tegund seiða eða hrogna, pökkun sendingar og merkinga hennar, hvaða flutningstæki er fyrirhugað að senda vöruna með og hvenær. Þá þarf upplýsingar um nafn og heimilisfang móttakanda og sendanda. Allt þetta þarf að koma fram á vottorðinu svo að móttakanda sé tryggt að heilbrigðisvottorð taki til ákveðinnar sendingar frá ákveðnum stað. Auk þessa þarf útflytjandi að upplýsa, hvort einhverjar kröfur séu gerðar af hendi kaupanda eða innflutningslands sem fram þurfi að koma á vottorði, t.d. varðandi sótthreinsun hrogna, gerð og gæði umbúða, sérstaks orðalags á heilbrigðisvottorði, númers á flutningsleyfi o.s.frv.“

Síðan segir: „Að fengnum framangreindum upplýsingum getur Skúli Pálsson eða aðrir útflytjendur nú sem fyrr eða að öllu óbreyttu fengið afhent heilbrigðisvottorð hliðstætt því sem fylgir áðurnefndu bréfi Skúla og undirritaður gaf út í byrjun þessa árs vegna sölu á 250 þús. laxahrognum til Spánar, enda hafi stöðvar þeirra verið undir eftirliti og fulltrúi yfirdýralæknis verið viðstaddur pökkun. Þetta er Skúla vel kunnugt um, enda þótt það komi ekki fram í bréfi hans, því að ég hef oftar en einu sinni skýrt Ólafi Skúlasyni fulltrúa hans frá þessu. Tilmæli Skúla til landbrh. um að hlutast til um útgáfu vottorða eru því yfirdrep eitt.“

Vegna misskilnings, sem fram kemur í áðurnefndu bréfi Skúla Pálssonar um veirurannsóknir í fiski úr eldisstöðvum hér á landi, vil ég taka fram: Þegar reyna á að kanna til hlítar, hvort veirusjúkdómar leynast í eldisfiski, hefur reynst vænlegast til árangurs að dreifa sýnatöku nokkuð eftir árstíðum. Það er skýringin á því að sýni eru tekin með alllöngu millibili, en ekki með fárra daga eða vikna millibili. Því hlýtur slík rannsókn óhjákvæmilega að taka sinn tíma. En eins og fram kom snemma í ræðu minni, hlutaðist hæstv. núv. landbrh., Halldór E. Sigurðsson, til um það — og á hann sérstaka þökk fyrir að koma þessum margumrædda rannsóknarþætti í gang, og ég verð að telja, miðað við þær upplýsingar sem ég hef, að honum sé lokið og ætla megi að stofninn sé alheilbrigður. Fyrir atbeina hæstv. ráðh. liggur nú þetta ljóst fyrir, svo að ég held að menn ættu ekki að þurfa að deila endalaust um það, hvort stofninn sé heilbrigður og þá er aðeins að fá málið sett niður með öðrum hætti, rannsakað gaumgæfilega af hlutlausri n. eins og till. gengur út á.

Það hefur farið fram mikil matsgerð í bæjarþingi Reykjavíkur sem ég ætla ekki að fara að vitna hér í. Það er langt plagg og mikið þar sem Skúla eru dæmdar ákveðnar bætur. Hann hefur sjálfur gert kröfu um miklu meiri bætur. En allt er þetta mjög mikið mál, mikið af pappírum komið í hendur mínar og margra annarra nm. sem ómögulegt er að fjalla um í framsöguræðu, þá yrði það of langt mál. En grundvallaratriðið í þessu er — það vil ég undirskrika enn einu sinni — að þetta mál fái hlutlæga athugun og við vitum hvað hefur skeð og hvernig eigi að bregðast við þessu í framtíðinni. Og ég vil ekki una því — og ég hugsa að ég sé ekki einn um það — að hvort sem það er bóndi eða bara venjulegur verkamaður eða annar atvinnurekandi í landinu sem ritar rn. eða æðstu embættismönnum landsins bréf hvað eftir annað, að þau séu ekki virt svars, eins og óumdeilanlega liggur hér fyrir. Jafnvel þó að aðstaða þessara embættismanna sé ekki fyrir hendi til þess að sinna umræddri beiðni fullkomlega, þá er það lágmarksskilyrði og kurteisi að bréfunum sé svarað af æðstu embættismönnum þjóðarinnar.

Það er mjög óvenjulegt að Alþ. taki svona mál fyrir. E.t.v. hefur það verið sofandaháttur hér á Alþ. að sinna ekki ýmsum kvörtunum sem við fáum inn á borð okkar, alþm. En þá kann þetta að reynast nokkur prófsteinn á það hvort hægt er að fá hér hlutlausa og eðlilega rannsókn og málið sé lagt fyrir í skýrslu sem þessi væntanlega n. mun þá semja.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að hafa hér um fleiri orð, en ég vona að till. nái fram. Ég geri hér hlé á ræðu minni og legg til að allshn. fái þetta mál til athugunar. Ég er reiðubúinn að afhenda þessa möppu hér með þeim gögnum sem ég hef, til þess að n. geti flett og skoðað. Auðvitað getur hún kallað þessa svonefndu deiluaðila á sinn fund og heyrt, hvað þeir segja. En ég verð að vænta þess eindregið, og við gerum það allir nm., að málið verði ekki svæft í n. Þetta er þess eðlis að það er rétt að það fái athugun og það liggi ljóst fyrir, hvernig það er vaxið, og að deilur í þessu efni verði settar niður á eðlilegan og sómasamlegan hátt.