12.02.1975
Neðri deild: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ein af þeim meginröksemdum sem forustulið Framsfl. beitti á s.l. sumri í þeirri varnarbaráttu, sem forusta þess flokks háði þá vegna þess axarskafts þegar formaður Framsfl., núv. hæstv. viðskrh., hljóp til og myndaði ríkisstj. fyrir form. Sjálfstfl., var sú að nú þyrfti að mynda sterka, heilsteypta ríkisstj. sem væri þess megnug að snúast gegn þeim mikla vanda sem þá hafði verið málaður á vegginn varðandi efnahagsmál þjóðarinnar. Í öllu þessu tali forustuliðs Framsfl. bar það hæst að stjórn sú, sem nú situr, væri hin eina og sanna sem til þess væri líkleg að ráða við allan þennan vanda.

Nú eftir tæplega 1/2 árs setu sjá allir íslendingar afrakstur þessarar sterku ríkisstj., stjórnvisku hennar og kænsku að því er varðar lausn þess vanda sem við hefur verið að glíma í efnahagsmálum. Ég hygg að vart finnist, þó að lengi sé leitað og vel, dæmi annars eins ráðleysis og verið hefur innan núv. hæstv. ríkisstj. og ríkisstjórnarflokkana í heild að því er varðar lausn þeirra vandamála sem upp hafa komið. Ráðh. sjálfir, skipstjórinn á skútunni, stýrimaðurinn og fleiri hafa vart vitað sitt rjúkandi ráð til hvers skyldi grípa í þessum efnum. Það er búið að taka núv. ríkisstj. á annan mánuð að koma sér saman um þær leiðir eða þá leið, hvort heldur orðalagið er notað, sem þessir ríkisstjórnarflokkar gætu hugsanlega orðið sammála um. Síðast seinni hluta dags í gær hafði hinn óbreytti þm. úr þingliði Framsfl. ekki hugmynd um til hvaða ráðstafana ætti að gripa. (Gripið fram í). Nei, því er nú verr og miður, hv. þm., að það var ekki svo. En hafi einhver eða einhverjir efast um það að Sjálfstfl. tækist að teyma forustulið Framsfl. inn á þær brautir til lausnar efnahagsvandanum sem viðreisnarstjórnin sáluga hafði að leiðarljósi, þá mega þeir nú vera um það fullvissir að það hefur tekist á tiltölulega skemmri tíma en ætla mætti, enda nú orðið svo innan þingliðs Framsfl. að fáir eru orðnir þar eftir sem eru taumskakkir að því er varðar forustuna í þeim flokki. Þeim mikið frá því sem áður var og voru þeir þó ekki margir fyrir.

Þess hefur orðið vart í umr. og þó sérstaklega nú að undanförnu, að hæstv. viðskrh., fyrrv. forsrh., ásamt fleiri forustumönnum Framsfl., hafa barið sér á brjóst og látið þau orð falla að sá vandi, sem nú er við að glíma, hefði verið minni hefði þingheimur á s.l. vori verið jafnyfirfullur ábyrgðartilfinningar og þeir að eigin sögn hafa sjálfir verið þá. Þeir framsóknarmenn hafa mikið um það .talað að þá hafi Framsóknarforustan, Framsfl. í heild, verið hinn ábyrgi aðili í íslenskum stjórnmálum, hinn eini ábyrgi aðili sem hafi þá viljað taka ábyrga afstöðu, lagt fram till. til úrlausnar sem að gagni mættu koma.

Ég held að hefði hæstv. fyrrv. forsrh. viljað hlusta á þær till. og ábendingar, sem við í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna höfðum þá uppí gagnvart þeirri stefnu sem forsrh. vildi þá beita sér fyrir, íhuga þau varnarorð og fara þær leiðir sem við bentum á, þá væri ekki komið eins og komið er, því að það hefur verið ljóst og ætti að vera ljóst öllum þeim, sem fengist hafa við stjórnmálaforustu á undanförnum árum og áratugum, að efnahagsmál verða ekki leyst í fullkominni andstöðu við verkalýðs- og launþegahreyfinguna í landinu. Það hefði fyrrv. forsrh. átt að gera sér ljóst og það ætti núv. hæstv. forsrh. og ríkisstj. í heild líka að gera sér ljóst.

Ég held að engum detti í hug að halda því fram að nú sé ekki við talsverðan vanda að glíma í efnahagsmálum þjóðarinnar, og ég veit ekki til að nein slík rödd hafi fram komið hér á Alþ. eða í fjölmiðlum af hálfu stjórnmálamanna. Hitt deila menn um og greinir á um, hvaða leiðir skuli fara til lausnar þeim vanda, til þess að þeim byrðum, sem bera verður, verði réttlátast skipt.

Ég held að það sé nauðsynlegt að rifja aðeins upp með örfáum orðum það sem gerðist í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem fram fóru á milli vinstri flokkanna á s.l. sumri, þegar reynt var, að vísu að sumra áliti af takmörkuðum áhuga og vilja sumra aðila, að koma á vinstri stjórn eftir kosningarnar sem fóru fram á s.l. sumri. Þetta er nauðsynlegt að rifja upp, vegna þess að sú leið, sem núv. ríkisstj. valdi, og þau úrræði, sem hún taldi duga í sept. s.l., hafa nú reynst æðihaldlítil þegar til þess hefur komið að ráða fram úr þeim vanda sem við var að glíma. Ég tel að sú gengisfelling, sem nú hefur verið ákveðin, sé í reynd játning á algjöru skipbroti þeirrar stefnu sem núv. ríkisstj. tók upp strax við valdatöku á s.l. sumri.

Í þeim viðræðum, sem fram fóru milli vinstri flokkanna á s l. sumri um stjórnarmyndun, gerðum við í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna ákveðnar till. um hvaða leiðir við teldum að bæri að fara varðandi þann vanda sem þá var við að glíma og við blasti. Þessi leið var fyrst og fremst niðurfærsluleiðin, og sú afstaða okkar byggðist fyrst og fremst á því að sú leið, ásamt öðrum ráðstöfunum, yrði til þess líklegust að jafna það bil sem orðið hafði í þeim samningum sem gerðir voru í febr. 1974, samningum sem ég tel að hafi nánast verið hneyksli að því leyti sem snýr að samningum sem gerðir voru umfram rammasamning Alþýðusambands Íslands. Niðurfærsluleið hefði haft það í för með sér að hún hefði verndað kjör þeirra sem minnst fengu út úr þeim samningum, en tekið til baka af hinum sem fengu langtum meira, voru hærra launaðir og fengu langtum meira en þeir lægst launuðu fengu, sem þó var yfirlýst stefna Alþýðusambands Íslands og verkalýðshreyfingarinnar í heild. Við bentum samhliða þessu á ýmsar aðrar ráðstafanir sem gera þyrfti, m.a. um aukinn skyldusparnað, t.d.í formi þess að allir, sem hefðu yfir eina millj. í útsvarsskyldar tekjur, skyldu leggja til hliðar í skyldusparnaði ákveðna upphæð af sínum tekjum, aukin yrði skattlagning á þeim gróða sem skapast við sölu fasteigna, skattaeftirlit yrði hert, verðtrygging sparifjár og fjárskuldbindingar yrði sett á.

Hér hef ég nefnt aðeins nokkur atriði af þeim sem bent var á samhliða niðurfærsluleið, eins og við lögðum þá til að væri farin. Við bentum fyrst og fremst á þessa leið til þess að það skapaðist umræðugrundvöllur, m.a. við verkalýðshreyfinguna, um leiðir út úr þeim vanda, sem við var að fást, og á þann veg væri verkalýðshreyfingin í heild gerð ábyrgari fyrir þeim axarsköftum, sem ég vil kalla, eða þeim mistökum sem gerð voru við gerð kjarasamninganna í febr. s.l. Og við vorum ekki einir um það að telja að þessi leið væri raunhæfust, miðað við það ástand sem þá var í þjóðfélaginu. Bæði þáv. hæstv. forsrh., form. Framsfl., og núv. form. þingfl. Alþfl., fyrrv. form. þess flokks, lýstu báðir yfir því að þeir teldu þessa leið vera þá raunhæfustu og til þess fallna að ná sem mestum árangri. En þá brast þessa reyndu stjórnmálaforingja kjark til þess að reyna til þrautar, láta á það reyna hvort framkvæmanlegt væri að fara slíka leið.

Ekki höfum við enn, og ég tel ástæðu til að nefna það hér, fengið þá úttekt af hálfu Þjóðhagsstofnunar, sem við óskuðum eftir á þessari leið til samanburðar við þær leiðir til lausnar vandans sem núv. ríkisstj. hefur haft að leiðarljósi og farið. Ég vil hér með eindregið mælast til þess við hæstv. forsrh. að hann hlutist til. um, að slík úttekt á niðurfærsluleið, miðað við þær aðstæður sem voru á s.l. sumri, þegar þetta var lagt til, verði gerð og við fáum hana í hendur.

Það hefur vissulega margt gerst á sviði efnahagsmála frá því að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, þótt ekki sé langur tími liðinn síðan. Þær eru margur sendingarnar sem hinn almenni launþegi í landinu hefur fengið frá núv. hæstv. ríkisstj. og þær eru flestar, ef ekki allar, heldur slæmar, vægast sagt. Ein af fyrstu ráðstöfunum stjórnarfl. var hækkun á öllu búvöruverði í landinu án þess að kaupgjald ætti að hækka, 17% gengisfelling, 2% hækkun á söluskatti, hækkun raforkuverðs; hækkun bensínsskatts, ráðstafanir í sjávarútvegi, sem færðu hundruð millj. frá sjómönnum til útgerðarmanna og þýddu í reynd a.m.k. 10–12% lækkun á umsömdum kjörum sjómanna frá því sem var. Og þrátt fyrir þær láglaunabætur, sem ákveðnar voru þá, hefur orðið stórfelld kjaraskerðing, ekki bara hjá þeim sem kannske mættu teljast til þeirra hærra launuðu, heldur líka hjá þeim lægst launuðu í hópi launþega. Það er talið að bein kjaraskerðing á mánuði yfir tímabilið okt.–des. sé tæplega 4 þús. kr. á hverjum einasta mánuði hjá manni með innan við 40 þús. kr. mánaðartekjur. Enn heggur núv. hæstv. ríkisstj. í sama knérunn.

Það var nokkuð fróðlegt að hlýða á ræðu hv. 9. þm. Reykv. hér áðan, þegar hann var að rifja upp það sem varast bæri þegar verið er að framkvæma aðgerðir til lausnar efnahagsvanda, þ.e.a.s. ef þær aðgerðir ættu að hafa einhvern tilgang. Það hefur óneitanlega minnt hv. 8. þm. Reykv. á þær leiðir sem farnar voru á 12 ára skeiði viðreisnarstjórnarinnar, því tímabili þegar þessir hv. þm. báðir tveir voru í stjórnarsamstarfi, því að hann, hv. 8. þm. Reykv., greip einmitt fram í og spurði: „Kannast þm. eitthvað við þessar leiðir?“ Enda er það svo; og það held ég að öllum hljóti að veru orðið ljóst eftir það sem nú hefur gerst, að núv. hæstv. ríkisstj. virðist ætla að fylgja dyggilega í kjölfar þeirrar efnahagsstefnu sem hér réð ríkjum um 12 ára skeið undir kjörorðinu „viðreisn“, — efnahagsstefnu sem varð þess valdandi og verður þess valdandi, verði henni beitt, að hætt er við að heilir landshlutar skaðist meina eða minna og verði eins og þeir voru í tíð viðreisnar og verði, ef fram heldur sem horfir í tíð núv. ríkisstj., gersamlega sveltir og vanræktir að því er varðar eðlilega uppbyggingu og nauðsynlega uppbyggingu sem þar þarf að vera.

Við erum þeirrar skoðunar að gengisfelling við þær aðstæður, sem nú ríkja í þjóðfélaginu, verki álíka og að olíu sé skvett á eld. Það kæmi mér ekki á óvart, eftir að hafa hugleitt þessi mál og hlýtt á forsvarsmenn þeirra atvinnugreina í landinu sem talið er að verið sé að bjarga, að það mundu ekki líða 5, ekki 6 mánuðir til næstu gengisfellingar, — það kæmi mér ekki á óvart þó að slík ráðstöfun ætti sér stað innan 3 mánaða, eins og mál standa og horfa í dag. Eftir þá stórkostlegu kjaraskerðingu sem átt hefur sér stað í tíð núv. ríkisstj. hjá láglaunafólki í landinu, þá hélt ég að það væri ekki á bætandi með áframhaldandi kjaraskerðingu og það ekkert lítilli og áfram haldið að höggva í þann knérunn sem síst skyldi, vitandi að hvert einasta verkalýðsfélag í landinu, hvort sem er um að ræða verkalýðsfélag eða sjómannafélag, er með lausa kjarasamninga og stendur nú í samningaviðræðum, bæði við vinnuveitendur og ríkisvald. Það er augljóst mál, að gengisfelling við þessar kringumstæður greiðir ekki fyrir því að eðlilegir og sanngjarnir samningar að því er varðar láglaunafólkið fyrst og fremst fáist eftir það sem nú hefur gerst. Meira að segja einn af helstu talsmönnum útgerðarmanna í landinu, form. Landssambands ísl. útvegsmanna, lýsti því yfir í dag, síðari hluta dags, að allur sá vandi sem útgerðin hefði staðið frammi fyrir áður en gengisfellingin átti sér stað verði óleystur að henni lokinni.

Það er því ljóst að einhverjar aðrar ráðstafanir hljóta að fylgja í kjölfar þess sem nú hefur gerst. Um þær ráðstafanir er að sjálfsögðu ekkert hægt að fullyrða og verður ekki gert fyrr en þær sjá dagsins ljós. En ekki kæmi mér á óvart þó að innan ekki langs tíma sæju launþegar í landinu fram á ráðstafanir sem væru þess eðlis að þær gætu leitt til styrjaldar á vinnumarkaðnum. Ég held, hvað sem öllu áliti forustuliðs Framsfl. líður og hvað sem öllu áliti hæstv. ríkisstj, líður um það að sterk ríkisstj. sé við völd á Íslandi, þá ætti hún að hafa hugað að því, sem á eftir kemur við álíka ráðstöfun sem þessa, og líka að huga að því, sem á undan er gengið af hennar eigin völdum. Það liggur ótvírætt fyrir að núv. hæstv. viðskrh. hefur lýst því yfir að sá vandi, sem nú er við að glíma, hafi stórkostlega vaxið frá því hæstv. núv. ríkisstj. tók við völdum.

Nei, öllum ætti að vera ljóst, ekki síst þeim sem fengist hafa við stjórn efnahagsmála um langt árabil, að gengisfelling eða gengisfellingar upp á 35–40% á hálfu ári geta varla leitt til neins góðs í stjórn efnahagsmála eins og málum hefur verið háttað. Mín síðustu orð, a.m.k. að þessu sinni, skulu vera þau að við í SF erum andvígir þeirri efnahagsstefnu sem núv. ríkisstj. hefur fylgt og virðist ætla að fylgja, við erum andvígir þeirri gengisfellingarstefnu sem hún virðist hafa sett sér að leiðarljósi.