24.02.1975
Neðri deild: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég hefi litlu við að bæta. Það, sem fram hefur komið, eru aðallega endurtekningar, eins og hjá hv. síðasta ræðumanni. Það er þó allmikill munur á að línubætur hækki um 50% eða viðkomandi ráðh. standi gersamlega eins og hundur á beini að vilja engu hreyfa, eins og hann gerði í tvö eða þrjú ár, hvernig sem var farið fram á það við hann og honum bent á að þessi veiðigrein væri að dragast saman. Þá hafði hann ekki hátt hérna, hana „stóri-hávaði úr Bolungarvík“, þegar hann var í flatsæng með Lúðvík Jósepssyni. Þá lét hann sér nægja að hafa sömu uppbætur á línufisk ár eftir ár. Þá var ekki áhuginn fyrir því.

En hver er áhuginn? Hvað er á bak við það sem er hér að gerast. Það er fyrst og fremst að reyna koma eitthvað við bakið á mér af því að ég er þm. Vestf. Þetta er ákaflega stórbrotinn maður og virðulegur og þykir gaman að tala, og það væri auðvitað sjálfsagt að nota gamla ræðustólinn, sem var lagður hér af, og lofa þessum þm. að tala í honum einhvers staðar annars staðar en hérna, því að manninum þykir svo gaman að tala og hann heldur að hann sé algerlega ómissandi. Hann er búinn að fá svar við fsp. sínum, sem hann kom fram með í upphafi. Svo kemur hann og belgir sig upp og það heyrist alla leið til Bolungarvíkur,að hann hafi spurt þessarar spurningar, sem ég var búinn að svara, og hann vildi fá áð vita þetta og hitt, sem ég var búinn að svara. Þetta er að þykja vænt um sjálfan sig og vera hrifinn af sjálfum sér. Ég veit að það er ekkert á bak við það, það er enginn áhugi, því að hann veit að sjómenn koma til með að fá þetta verð fyrir steinbít sem er vinnsluhæfur. Það er búið að fallast á það, ég er búinn að taka það fram. Fiskvinnslustöðvarnar geta greitt þetta eftir gengisbreytinguna sem Karvel Pálmason var á móti og öllum umbótum til þess að hækka fiskverð. Þetta liggur alveg hreint fyrir. Ef við breytum útflutningsgjöldum á þann hátt, sem ég er að hugsa um, þá held ég að komi ekki til með að standa neitt á því að fiskvinnslustöðvarnar almennt greiði það verð fyrir fisk sem er vinnsluhæfur eftir 1. mars eins og áður. En svo má þessi hv. þm. halda áfram að skemmta sjálfum sér og sínu innræti fyrir mér.