24.02.1975
Neðri deild: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég tel að að það sé nauðsynlegt að ég fái að segja hér örfá orð vegna einmitt þess illskukasts sem hæstv. sjútvrh. er vissulega kominn i. Ég tel að ég sé borinn sökum þegar það er sagt, að ég noti þetta tækifæri til að koma í bakið á hæstv. ráðh. En það þurfti ekki mig til að koma í bakið á honum og það er ekki gert vegna þess. Hann hefur líklega ekki heyrt raddir vestfirskra sjómanna núna alls staðar að á Vestfjörðum. Það hefur aldrei gerst fyrr, að ég man eftir og hef ég fylgst með málum sjómanna á Vestfjörðum í langan tíma, að hver og einn einasti sjómaður á línubátum hafi sagt upp starfi vegna aðgerða ríkisvaldsins og þar skuli vera í fararbroddi 1. þm. Vestf. Það er það hlálegasta. (Sjútvrh.: Varstu ekki að kynda undir?) Var ástæða til þess? (Sjútvrh.: Ertu ekki alltaf að því?)

Hæstv. ráðh. sagði að línuuppbót hefði staðið í stað í tíð vinstri stjórnarinnar. Þetta er rangt. Hún var hækkuð, en hún stóð í stað í tvö ár í tíð víðreisnar. Tvö næstsíðustu ár viðreisnarstjórnarinnar stóð hún í stað, en hún var hækkuð á árinu 1972, í tíð vinstri stjórnarinnar, þannig að þetta er rangt líka.

Ég fullvissa hæstv. ráðh. um það, að ég er ekki að koma í bakið á honum. Hér eru aðeins fluttar inn á Alþ. þær háværu kröfur vestfirskra sjómanna sem hann veit sjálfur að hafa verið uppi undanfarna daga og geta leitt til þess að vestfirski bátaflotinn stöðvist, og það er vegna aðgerða ríkisvaldsins sem þessi hæstv. ráðh. ber kannske höfuðábyrgð á í þessum efnum.