25.02.1975
Efri deild: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég get þakkað hv. ræðumönnum, sem hér hafa tekið til máls, fyrir að þeir hafa allir tekið undir meginefni frv. og vilja styðja framlengingu þessara laga, sem í gildi hafa verið um eins árs skeið, og það er auðvitað aðalatriðið. Eins og ég tók fram í minni framsöguræðu, þá gerði ég ráð fyrir að það gætu orðið skiptar skoðanir um það nýmæli sem felst í e-lið 2. gr., og það er ekkert við því að segja að menn hafi skiptar skoðanir um það efni.

Það er í sjálfu sér lítið, sem ég þarf að segja í tilefni af þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar. Það er að sjálfsögðu svo, að það getur enginn sagt með fullri vissu um það, hvað söluskattsstig gefur, en í frv. er byggt á áætlun, sem fengin hefur verið frá Þjóðhagsstofnun um það að söluskattsstig muni gefa 960 millj. kr. Það getur gefið eitthvað meira. Það getur gefið eitthvað minna. Það fer eftir því hvernig þróunin verður.

Hv. þm. Jón Árm. Héðinsson þarf ekki að tala nm það í neinum undrunartón, að það geti komið fyrir að eitthvað dragist hér saman. Ég held að það geti ekki dulist neinum hv. þm., að það verður að stefna að því að það eigi sér stað nokkur samdráttur. Við getum ekki lifað á þessu ári eins og við lifðum á því næsta á undan, með þeim viðskiptahalla sem þá var og með þeirri gjaldeyriseyðslu umfram efni sem þá átti sér stað. Það er ekkert óeðlilegt við það, þó að það sé líka tekið með í reikninginn, að þrátt fyrir verðhækkanir, sem ég skal játa að eiga sér stað og þess vegna gætu í fljótri svipan bent til þess að söluskattsstigið gæfi meira, — þá er ekkert ólíklegt að það verði að reikna með einhverjum magnsamdrætti.

Ég hef ekki handbærar tölur um samanburð á upphitun með olíu og hitaveitu. Ég dreg ekki í efa að það hafi raskast olíunotendum í óhag, þrátt fyrir það að hitaveitugjöld hafi verið hækkuð. Gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur var hækkuð um 56% á a.l. ári. Það er augljóst, að það er minni hækkun en átt hefur sér stað á olíuverði á sama tíma. Ég hef að vísu ekki tölur um hvað olíuverðið var þegar þessi lög voru sett. Hitt er jafnvíst, að þá óx mönnum olíuhækkunin í augum, og það er ekkert óeðlilegt, vegna þess að þá var vitað um þá miklu hækkun sem hafði átt sér stað á olíu erlendis og var væntanleg. En eins og menn e.t.v. vita, þá er olíuviðskiptum þannig háttað að þau fara öll fram á 3. mánaða gjaldfresti. Þess vegna getum við lengur notið lægra olíuverðs þegar þannig horfir við að olíuverð er að hækka, og hefur sjálfsagt gert það í þessu tilfelli. Ég dreg ekki í efa, að á þeim mánuðum þegar verið var að setja þessi lög, þá var ljóst að hverju mundi draga í olíuhækkunum og sú mikla hækkun, sem var orðin þá á heimsmarkaðinum, hafi komið þarna til greina. Þetta verður öfugt, því miður, ef olían skyldi einhvern tíma lækka, þá tekur það sinn tíma að lækkunin komi fram hér.

Ég dreg það út af fyrir sig ekki í efa, að byrði þeirra, sem hita upp með olíu, hafi að þessu leyti þyngst, og þá er það ekkert óeðlilegt að mönnum sýnist það skjóta nokkuð skökku við að hafa þennan hátt á hér. Ég vil benda á það, að hér hefur aldrei verið um og getur aldrei verið um annað að ræða að óbreyttri skipan en styrk upp í þann mismun sem þarna er um að tefla. Það dettur engum í hug, að það sé hægt að jafna þetta út. Það er alveg sama þó að öllu þessu söluskattsstigi sé varið í olíustyrkinn, að þá verður mismunurinn ekki jafnaður út. Það verður aðeins örlítið hærri styrkur sem hver olíunotandi fær, en misræmið verður eftir sem áður fyrir hendi. Ef menn vildu hugsa sér að leiðrétta þetta misræmi að fullu, þá verða menn að vera við því búnir að segja öllu heldur A á undan B, þ.e.a.s. þeir verða að afla tekna til þess, og það þyrfti sennilega 3 fremur en í söluskattsstig ef þau ætti að nota í þessu skyni. Eru menn reiðubúnir til þess? Það verða menn að gera upp og meta, og því geta menn einnig velt fyrir sér í hv. n. En með þessu frv. er ekki stefnt að því fremur en í fyrra frv. og þeim lögum, sem gilt hafa, að jafna að öllu mismuninn. Það hefur öllum verið ljóst, að það var ekki hægt, heldur aðeins að draga nokkuð úr þessum mismun og veita þannig nokkurn styrk. Auðvitað getur það skipt einhverju máli, hvort sá styrkur er 2 kr. hærri eða lægri sem hér er um að ræða. En það verður ekki með því fé, sem er til umráða í þessu skyni, hægt að leiðrétta misræmið eða rétta hlut þeirra sem við olíukyndingu búa, þannig að þeir sitji við sama borð og hinir. Munurinn er sá, að ef úthlutað er öllu því fé, sem til ráðstöfunar verður og fæst með þessu eina söluskattsstigi, þá er það um 10 þús. kr. á einstakling í staðinn fyrir 7 200 kr. Það er sú staðreynd sem við verðum að horfast í augu við og gera upp og meta.

Ég skal ekki gera neitt veður út af því, þó að menn að athuguðu máli telji rétt að breyta þessu ákvæði í þessa átt, sem mundu þá í raun og veru þýða það, að lögin yrðu alveg í sama horfi og þau voru. En ég geri ráð fyrir að þetta ákvæði sé komið inn, auk þess sem menn vilja gjarnan styðja að þeirri miklu þörf sem er fyrir hendi til þess að ýta undir rannsóknir og hitaveituframkvæmdir, þá sé það e.t.v. líka eitthvað komið inn fyrir þá gagnrýni sem hefur verið höfð uppi á þessu kerfi. Það er ekki hægt að neita því, að það hefur dálítið borið á gagnrýni á þessu kerfi og framkvæmd þess kannske líka. En það verður að segja eins og er, að það er erfitt að framkvæma þetta og áreiðanlega erfitt að framkvæma það svo að öllum líkl. Það er lögð kvöð á sveitarstjórnir í sambandi við þetta. Þær hafa verið misjafnlega ánægðar yfir því hlutverki sem þeim er falið samkv. þessum lögum.

Viðvíkjandi þeirri fyrirspurn sem sérstaklega var beint til mín varðandi skilning á ákvæði í 2. gr., b-liðnum, þá er ég ekki alveg viss um að ég hafi skilið fyrirspurnina alveg rétt. En ég verð að segja það, að ég tel að það sé nú ekki hægt að skilja þetta ákvæði öðruvísi en það hefur verið framkvæmt, Ég tel að þetta ákvæði sé alveg skýrt eftir orðanna hljóðan. Hvað sem líður yfirlýsingu fyrirrennara míns, þá sá hann um hálft ár um framkvæmd þessara laga, og hann gat ekki hagað henni á aðra vegu og sjálfsagt af þeirri ástæðu að hann hefur ekki talið fært að skilja það eða skýra á annan hátt. Ef menn vilja koma einhverju öðru inn í þetta ákvæði, þá verða þeir að orða það og setja það inn í ákvæðið og gera það þannig að skiljanlegt sé hvað menn eiga við. Ég held, að eins og þetta ákvæði er, þá sé ekki hægt að hafa þetta öðruvísi.

Ég leiði nú svo hjá mér annað, sem fram kom í ræðunum, eins og um stjórnleysi og því um líkt. Það er eins og þegar Kató gamli talaði, að hann lauk ræðu sinni á því sama. Sumir hv. þm. verða að hafa víss orð í ræðum sínum. Það er engin ástæða til að taka það alvarlega.