25.02.1975
Neðri deild: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég tel þó rétt að það komi hér fram, að ég hef haft samráð um þetta efni við stjórnarandstöðuna, að því er ég tel, bæði fyrst eftir að snjóflóðin urðu í Neskaupstað, síðan áður en þing kom saman, og nú síðast í gær. Hitt er svo annað mál að það náðist ekki full samstaða, eins og heyrðist á málflutningi síðasta hv. ræðumanns. Ég verð að segja eins og er, að ég átti ekki von á því hér í þingsölunum að reyna hann að því að vera ábyrgðarlausari í málflutningi en ég hef heyrt hv. 2. þm. Austf. vera. Munur var alla vega á ábyrgðartilfinningu þessara tveggja hv. þm. í þessum umr.

Það er staðreynd, að frá því að stjórn Viðlagasjóðs skrifaði bréf það er þm. vitnaði í, 11. des., hafa komið á Viðlagasjóð bótakröfur og tjónabætur sem hann verður undir að standa og skipta umtalsverðum upphæðum. Um leið og hv. þm. gagnrýnir það, að ríkissjóður hafi verið rekinn með greiðsluhalla á síðasta ári, að viðskiptabankarnir hafi dregið á Seðlabankann á síðasta ári mörg hundruð millj. kr., vill hann halda þess.ari stefnu áfram á þessu ári. Hann talaði um sukk og eyðslusemi á síðasta ári og vill halda áfram þessu sukki og þessari eyðslusemi.

Ég held, að við hv. þm. hljótum að gera okkur grein fyrir að við verðum að greiða þessar tjónabætur. Þótt illa standi á í þjóðfélaginu, viðskiptakjör hafi rýrnað um meira en 30% á einu ári og það hljóti að koma niður á öllum þjóðfélagsborgurum, verðum við undir þessum útgjöldum að standa. Það þýðir ekki að ýta þeim á undan sér lengur eða meir en þegar er orðið, þegar skuldin við Seðlabankann af hálfu Viðlagasjóðs var yfir 1.5 milljarð á síðasta ári. Það er ekki launþegum landsins til hagsbóta.

Ég vil aðeins taka það fram, að ríkisstj. hefur ekki hafnað neinum skattatill. Alþýðusambands Íslands eða launþegasamtakanna. Ríkisstj. hefur ekki viljað skuldbinda sig til að segja fyrir fram hve hárri upphæð skattalækkanirnar muni nema, en boðið samstarf sitt um að létta verulega skattabyrðina hjá almennu launafólki. Ríkisstj. mun í þeim efnum leggja fram till. sínar á næstunni.

Á þessu stigi málsins vil ég ekki fjölyrða nánar um þetta mál, en vænti þess að n. taki mál þetta til meðferðar og reyni að hraða afgreiðslu þess.