27.02.1975
Neðri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kveð mér hljóðs í þessu máli, er aðallega sú að láta ánægju mína í ljós yfir því, að hér er flutt brtt. á þskj 315, þ.e. breyting við 6. gr. Í okkar landi hafa orðið tjón á mörgum stöðum á þessum vetri. Það eru ekki aðeins snjóflóðin, það eru einnig tjón vegna foks. Ég veit að hv. alþm. kannast við tjónin undir Eyjafjöllum, bæði Austur- og Vestur-Eyjafjöllum. Á mörgum bæjum varð stórtjón, margra millj., ef ekki tugmillj. Sumir bændurnir voru það heppnir að þeir höfðu tryggt sig fyrir slíku tjóni, en aðrir ekki. Það mætti ætla að Bjargráðasjóður gæti staðið undir bótum af þessum tjónum. Ég hef talað við forstjóra þess sjóðs, og hann taldi að sjóðurinn hefði nú nokkur fjárráð vegna þess að síðustu árin hafa ekki verið harðindi eða miklar tjónabætur af öðrum ástæðum, eins og var á tímabili. Sjóðurinn hefur eigi að síður alltof takmörkuð fjárráð og hefur aðstoðað með því að veita vaxtalaus lán, en ekki óafturkræf framlög.

Það fer vel á því, eins og stendur í þessari till., að Viðlagasjóði sé heimilað að bæta tjón annars staðar á landinu í samráði við Bjargráðasjóð. Er ég þá sannfærður um, að eyfellingar fá tjónabætur eins og þeim ber í samræmi við aðra, sem hafa orðið fyrir tjónum víðs vegar um landið. Það, sem þarf að gera, er að hafa samræmi í tjónabótum hvar sem er. Það er nú orðið svo, að þjóðfélaginu finnst orðið skylda að bæta tjón hvar sem þau verða. Sem betur fer hafa tjón vegna náttúruhamfara sjaldan eða aldrei orðið eins mikil og í Vestmannaeyjum og sjaldan eins mikil og á Norðfirði í vetur. Tjón verða öðru hverju víðs vegar um landið og enginn veit hver verður næst fyrir tjóni vegna náttúruhamfara. Þess vegna þykir sjálfsagt, að þjóðfélagið sé í samábyrgð fyrir slíku, og það er í samræmi við okkar stjórnarfar og uppbyggingu þjóðfélagsins. Þess vegna var það ánægjulegt þegar Viðlagasjóður var stofnaður og allir voru sammála.

Nú eru menn ekki alveg sammála um hvernig eigi að afla fjár til þess að bæta tjónið á Norðfirði og til þess að bæta tjónið að fullu í Vestmannaeyjum, því að þar hefur lokauppgjör ekki enn farið fram og þar er mikið eftir óbætt. Það er áreiðanlega eftir að endurmeta ýmislegt í Vestmannaeyjum, bæði hjá einstaklingum og eins hjá bæjarfélaginu. Á þeim verðbólgutímum sem nú eru, þegar verðlagið hækkar um 100% á tveimur árum, eru þær hugmyndir, sem voru uppi í byrjun, orðnar úreltar, t.d. bætur vegna vatnsins í Vestmannaeyjum, rafmagns o.fl. framkvæmda. Það er einnig viðurkennt, að frystihúsin og fiskvinnslustöðvarnar í Vestmannaeyjum hafa orðið hart úti, og hefur verið talið nauðsynlegt að endurmeta það tjón, sem þær hafa orðið fyrir, bæði á eignum og rekstrarlega séð. Hefur verið unnið að því nú síðustu vikurnar að fá réttar niðurstöður.

Allir alþm. eru sammála um að standa við gefin fyrirheit og það er vitanlega mikils virði. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson segir á þskj. 316, með leyfi hæstv. forseta.

„Ég harma, að ríkisstj. skuli ekki hafa fengist til að fallast á hyggilegri leiðir til fjáröflunar fyrir Viðlagasjóð en raun er á, en tel hins vegar algerlega ábyrgðarlaust að taka þá afstöðu til afgreiðslu málsins sem Alþfl. hefur tekið og augljóslega mundi koma í veg fyrir að staðið yrði við þau fyrirheit sem vestmanneyingum og norðfirðingum hafa verið gefin.“

Þetta er aðalatriði málsins, að það sé hægt að standa við gefin fyrirheit, og æskilegast væri þegar rætt er um þetta mál. að það væri ekki farið langt út fyrir málið, heldur rætt um lausnina á því, heppilegustu lausnina, og helst að menn létu brigslyrði falla niður við þessar umr., þar sem er um að ræða alveg sérstætt mál.

Hv. þm. Eðvarð Sigurðsson sagði hér áðan ég veit ekki hvort hann heyrir — að í tíð viðreisnarstjórnarinnar hefði verkalýðnum verið sýndur sérstakur fjandskapur, og þótti honum nauðsynlegt að fullyrða það vegna ummæla hv. þm, Gylfa Þ. Gíslasonar. Ég minnist þess, að hv. þm. Eðvarð Sigurðsson hefur sagt, svo að ég heyrði og fleiri, að á þessum tíma hafi forsrh. Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson lagt sig fram um að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna. Það var farið viðurkenningarorðum um það, hvað þessir menn hefðu lagt sig fram um að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna og láta verkalýðinn njóta þess sem unnt væri og fá eins mikið og unnt væri af arði atvinnuveganna til sín. En þetta er annað mál, sem ekki á heima við þessa umr.

Hér er lagt til að hækka söluskattinn um 1 stig, og vissulega væri æskilegt að það væri hægt að afla fjárins með öðrum hætti. Það er vitanlega aldrei nein ánægja að hækka skatta, og það má segja að það muni alltaf um hvert stigið sem lagt er á, hvort sem það heitir söluskattur eða eitthvað annað. Ég tel að hæstv. ríkisstj. hafi nokkra afsökun þegar hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir, að ríkisstj. ætli að lækka útgjöld fjárl. um 2500 –3 704 millj. Hvers vegna ætlar ríkisstj. að lækka fjárl.? Hún ætlar að gera það til þess að lækka skattana á þeim sem hafa lágar tekjur. Hún ætlar að gera það til þess að hækka tryggingabætur og ellilaun og til þess að koma til móts við þá sem verst eru settir. Mér finnst það vera nokkur afsökun þegar fyrir liggur yfirlýsing um. að það eigi að lækka útgjöld fjárl. eins og mögulegt er. Þegar sagt er 2 504 millj. til 3 700 millj., þá held ég að sé ekki nokkur vafi á því, að það er stefnt að því að lækka útgjöldin eins og unnt er og láta það sem inn kemur koma í öðru formi til hagnaðar fyrir þá sem verst eru settir Það er þess vegna sem bein útgjöld úr ríkissjóði til þess að bæta tjónið á Norðfirði eru ekki eins sjálfsögð og annars hefði verið. En það, sem skiptir máli, er að menn vilja bæta tjónið, og það verður vitanlega ekki gert nema fjármunir séu fyrir hendi.

Ég held nú satt að segja, að eins og menn eru sammála um að standa við gefin fyrirheit í þessu efni, þá hljóti alþm. einnig að vera sammála um að létta byrðarnar á þeim sem verst eru settir tekjulega séð. Að vísu er lagt til að hækka söluskatt um 1%. En verði aftur á móti lækkaðir skattar í öðru formi meira en þessu söluskattsstigi nemur, þá þarf ekki útkoman að verða þannig, að þeim, sem verst eru launaðir, verði íþyngt þótt eitt söluskattsstig verði lagt á. Ég held, að það sé ákaflega erfitt að fella þungan dóm yfir þessari till. hæstv. ríkisstj. fyrr en séð verður hvað kemur þarna á móti,

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég gæti sagt eitthvað svipað og hv. 2. þm. Austf. sagði: Ef ekki koma fram heppilegri till. en felast í frv., þá greiði ég því atkv. Ég er sömu skoðunar og sá hv. þm., að það kemur ekki til mála annað en að standa við gefin fyrirheit um að bæta norðfirðingum á sama hátt og vestmanneyingum og öðrum þeim landsmönnum sem hafa orðið fyrir tjóni vegna náttúruhamfara.