27.02.1975
Neðri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, því að ég hef áður lýst því yfir, að ég vil gjarnan stuðla að því og minn flokkur, að takist að afgreiða þetta mál í dag og enn fremur olíumálið, sem væntanlega kemur til d. frá hv. Ed. En það er ómögulegt annað en verja örfáum mínútum til að víkja að þeirri endemistölu, sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson var að enda við að halda.

Hann byrjaði sína ræðu á því að tala um einstakt talnarugl af minni hálfu um Viðlagasjóð, ég hafði tekið þessa tölu úr þessari áttinni og hina töluna úr hinni áttinni og fengið tóma vitleysu út. Og hann endurtók, að það væri um talnarugl að ræða með fádæmum. (LJós: Þetta er rétt.) Jahá, nú skulum við sjá. Á eftir mér talaði flokksbróðir hv. þm., formaður Dagsbrúnar, Eðvarð Sigurðsson. Hann hefur haft aðgang að sömu gögnum og ég um málið, og hann hóf ræðu sína á því að segja, að það, sem ég hefði sagt um fjármál Viðlagasjóðs, væri rétt, hann hefði sömu upplýsingar og hefði engu við að bæta um það mál, að öðru leyti værum við ekki sammála. Ég tel því Lúðvík Jósepsson vera að skensa Eðvarð Sigurðsson, en ekki mig. Í raun og veru tel ég Eðvarð Sigurðsson alls ekki eiga það skilið að fá slíkar glósur frá formanni þingflokks síns.

Ég tek það ekkert alvarlega, þótt okkur Lúðvík Jósepssyni greini á um tölur, okkur hefur gert það fyrr, og hann hefur alltaf haft rangt fyrir sér. Ég er því vanur, verandi í öðrum flokki, að hann beri mér á brýn talnarugl og því um líkt. En að hann skuli ekki láta Eðvarð Sigurðsson í friði, það þykja mér mikil tíðindi. Hann á ekki skilinn neinn skæting af hálfu Lúðvíks Jósepssonar. Ég tek honum með mesta jafnaðargeði og blíðu, eins og fyrr. En að Eðvarð skuli sitja undir þessu og þurfa að sitja undir því, það þykir mér einum of langt gengið. (Gripið fram í.) Þm. skal fá svolítið meira en þetta, ofboðlítið meira en þetta. Sem sagt, og vísa því heim til föðurhúsanna, að það sé um nokkurt talnarugl að ræða. Hver einasta tala, sem ég fór með, var rétt, og í því sambandi fer eins og fyrri daginn Eðvarð Sigurðsson með réttara og sannara mál en Lúðvík Jósepsson, og kemur engum á óvart.

Sannleikurinn er sá, að þær till., sem við höfum flutt, annars vegar við hv. þm. Karvel Pálmason og Lúðvík Jósepsson sem aðaltill. okkar í málinu, eru mjög svipaðar. Það sýnir, að það er hægt að leysa mál Viðlagasjóðs, þ.e.a.s. vanda Vestmannaeyja og Norðfjarðar, á annan hátt en frv. gerir ráð fyrir. En hvers vegna skyldi þessi þm. annars flytja till. sem er svo að segja eins og till. okkar þm. Karvels Pálmasonar? (Gripið fram í.) Nei, en nú kemur framhaldið. Vill þm. aðeins reyna að halda sér, — hann talaði áðan um, að það væri eitthvert kast á mér, — en hvers konar kast er á honum núna? Ég er þó í ræðustólnum, en hann í sínum stól, og það er ég, sem á að tala, og hann á að þegja meðan ég tala. Það er það, sem ég bið hann um að gera, bið forseta að sjá um að hann geri meðan ég er í stólnum. Hann getur komið hingað á eftir ef hann vill.

Ég vek athygli á því aftur, að við flytjum till. sem gefa Viðlagasjóði nokkurn veginn sömu upphæð þegar á heildina er litið. M.ö.o.: það er hægt að bjarga hag Viðlagasjóðs, gera honum kleift að sinna Vestmannaeyjavandanum og Norðfjarðarvandanum með minni upphæð en frv. gerir ráð fyrir. Af hverju skyldi þm. flytja brtt., ef hann teldi að tölur frv. væru nauðsynlegar? Hann veit, að þær eru ekki nauðsynlegar. Hann veit, að frv. leggur meiri gjöld á almenning en þörf er til að leysa fjárhagsþörf Viðlagasjóðs. Um það ber till. hans vott. Annars trúir hann ekki á hana, annars setur hann fram falstillögu, till. sem hann sjálfur trúir ekki á. Þess vegna er það, sem okkur raunverulega greinir á um, hvað á að gera að till. okkar felldum. Minn flokkur og að því er ég hygg líka SF munum greiða till. hans atkv., af því að Viðlagasjóður þarf ekki meira en þær gera ráð fyrir. Ég vona líka, að allur þingflokkur Alþb. greiði till, okkar Karvels Pálmasonar atkv., af því að sjóðurinn þarf ekki meira en þær till. gera ráð fyrir. En svo kemur annar þáttur málsins: Hvað á að gera, þegar koma til atkv. till. sem gefa Viðlagasjóði meira en hann þarf, sem leggja meira á almenning heldur en þarf til að bæta bæði tjónið í Vestmannaeyjum og Norðfirði? Þarna skilur á milli feigs og ófeigs. Það er hér sem við segjum í Alþfl. og SF: Við greiðum atkv. á móti óþarfaálögum á almenning, óþarfaverðhækkunum, óþarfahækkun á söluskatti, sem ekki er nauðsyn á vegna Vestmannaeyja og Norðfjarðar. En þarna ætlar hv. þm. af einhverjum ástæðum — og er að reyna að kúga flokksbræður sína hvern um annan þveran til að fylgja sér í þessu máli — hann ætlar að samþykkja aukaálögur, sem hann undirstrikar að séu óþarfar álögur með því að flytja brtt. Væntanlega skilur ekki aðeins þm., heldur hvert barnaskólabarn í landinu, að þetta er svona. Af einhverjum annarlegum ástæðum ætlar þm. að samþykkja till., sem hann með tillöguflutningi sínum hefur undirstrikað að séu óþarfar, að séu ofálögur, og þar með gengur hann gegn stjórn Alþýðusambandsins, gegn samninganefndinni og gegn formanni Dagsbrúnar, sem talaði hér fyrir um það bil klukkutíma og lýsti andstöðu sinni við hækkun söluskattsins, sem Lúðvík Jósepsson og Magnús Kjartansson ætla að samþykkja a.m.k. Ég vona, að það verði ekki fleiri sem lendi á svo alvarlegum villigötum.

Ef hv. þm. endar með því að greiða atkv. með frv., sem hann sjálfur er búinn að reyna að sanna eða hefur tekist að sanna í raun og veru með tillöguflutningi sínum að sé óþarflega hátt, þá er till. sýndarmennska, þá er hún fullkomin sýndarmennska. Þá er það í raun og veru meining hans, hvað sem hann segir og hvað sem hann flytur, að samþykkja 2 stig og leggja óþarfar álögur á almenning, Hann heldur ræður með brtt. sinni, segist vera andvígur söluskatti en endar með því að hann segir: Svo ætla ég að samþykkja söluskattinn. — Hann er andvígur söluskatti í ræðu, en fylgjandi honum í atkvgr. Hann er á móti söluskatti þegar hann talar, en með honum þegar hann á að rétta upp höndina. Þetta er alveg kostulegt háttalag.

Ég ætla svo að víkja örfáum orðum að hv. þm. Þórarni Þórarinssyni, sem sagðist gjarnan vilja kenna mér svolítið um landbúnaðarmál. Ég held satt að segja, að ég viti fullt eins mikið um landbúnaðarmál og hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, enda kom það fram í því, sem hann sagði, því að hann virtist halda að Búnaðarfélag Íslands væri ríkisstofnun eins og þjóðkirkjan og þess vegna væri eðlilegt að ríkið borgaði kostnaðinn við Búnaðarfélagið. En ég ætla að hafa þetta mál stutt. Ég ætla bara að biðja hann um að fletta í registri lagasafnsins og vita, hvort hann finnur einhver lög um Búnaðarfélagið. Ef það væri. þá væri Búnaðarfélagið ríkisstofnun. Það eru engin lög til um Búnaðarfélagið og hafa aldrei verið sett, Búnaðarfélagið er frjáls samtök bænda, sem að vísu voru stofnuð á sínum tíma til að efla ræktun og efla menntun og þar fram eftir götunum, en þetta eru frjáls félagasamtök, sem ríkisvaldið hefur aldrei nokkurn tíma skipt sér af. Hitt er svo — (Gripið fram í.) Já, nú ætla ég einmitt að fara að segja það. En þeim hefur tekist að komast inn á fjárlög, tekist að láta ríkið borga allan kostnaðinn. (Gripið fram í.) Ja, undir viðreisn, já, já, gegn miklum mótmælum mínum. Þetta gerir gæfumuninn í málinu. Hvað sem hver segir, þá er Búnaðarfélag Íslands einkasamtök, sem eru stofnuð í ágætum tilgangi, og það breytir engu um það þó að Alþ. hafi tekið að sér að borga kostnaðinn við það. Það breytir engu í málinu. Það gerir jafnfráleitt að borga kostnaðinn við búnaðarþing og það væri að borga kostnaðinn við iðnþing. Iðnaðarmannafélögin voru líka stofnuð á sínum tíma í mjög svipuðum tilgangi og búnaðarfélögin. Þau voru stofnuð til þess að efla menntun iðnaðarmanna. Þau ráku iðnskóla á eigin kostnað í áratugi. Svo tók ríkið þátt í því. Nú hefur ríkið yfirtekið þann þátt fyrir örfáum árum Iðnaðarmannafélagið er algerlega hliðstætt Búnaðarfélaginu í raun og veru, nema bara iðnaðarmenn hafa ekki verið jafn ýtnir og forustumenn Búnaðarfélagsins að koma öllum kostnaðinum yfir á ríkið, eins og forustunni í Búnaðarfélaginu hefur tekist. Hér opinberar ritstjóri Tímans fáfræði sína í landbúnaðarmálum á heldur leiðinlegan máta. Og svo gerði flokksbróðir hans, Páll Pétursson, hv. þm., honum hroðalegan óleik að skýra frá því, hvernig þetta umdeilda kaup búnaðarþingsmanna er ákveðið. Hver skyldi ákveða það? Landbrh.? Nei, nei, hann er alveg saklaus af því. Fjmrh. er líka algerlega saklaus. Hverjir skyldu ákveða kaup búnaðarþingsfulltrúa? Þeir sjálfir. Þeir byrja hvert búnaðarþing á því að samþykkja, hvað kaupið þeirra skuli vera. Svo senda þeir Matthíasi Á. Mathiesen reikninginn. Þetta kallar maður nú að vera flott og lífa flott og geta lifað rólegu og hóglátu lífi. En það er því aðeins að Búnaðarfélagið hefur verið með stjórn Framsfl. í áratugi. (Gripið fram í.) Já, já, það er alveg rétt, þetta er sama óstjórnin og er með þm., alveg sama, sem auðvitað ætti að breyta og flokkur minn hefur raunar lagt til að yrði breytt og að kjaradómur ákvæði kaup þm. (Gripið fram í: Kjaradómur á að ákveða kaup þm. frá 1962.) því miður held ég að þetta sé ekki rétt. Við skulum ekki blanda þessu inn í þetta mál. (Forseti: Mér finnst of mikið um frammíköll í þessari ræðu. Þó að óneitanlega hafi þetta ræðuhald yfir sér allfjörlegan blæ, þá tefur það fundarhaldið nokkuð mikið ef mjög oft er kallað fram í, og ég bið þm. að gera svo vel að bíða þar til þessari ræðu er lokið.) Ég þakka forseta fyrir að fá að ljúka ræðu minni í næði. En ég skal vera mjög stuttorður úr þessu. Ég held að þetta sé nóg fyrir hv. þm. Þórarin Þórarinsson, ég þurfi ekki að eiga meira við hann, hann sé afgreiddur.

En svo ætla ég að enda á örfáum orðum til hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, og það skulu vera síðustu orð mín. Magnús Kjartansson skrifaði í morgun gegn hækkun á söluskatti í blað sitt Þjóðviljann. Hann hélt hér áðan langa ræðu og er þungbrýnn mjög og stórorður og talar gegn söluskatti. En síðan lýkur hann ræðunni með því að segja að hann ætli að greiða atkv. með hækkun á söluskatti. M.ö.o.: Magnús Kjartansson er búinn að láta Lúðvík Jósepsson, hv. þm., berja sig til hlýðni við atkvgr. Þetta er einhver aumasta frammistaða, sem ég man eftir hér á þingi í mörg ár. Ef hv. þm. Magnús Kjartansson hefur skrifað gegn söluskatti í morgun, talað gegn honum í dag og greitt svo gegn atkv. í kvöld, þá hefði þetta veríð allt í lagi. Ef hann hefði sagt í Þjóðviljanum í morgun: Það á ekki að hækka söluskattinn, það er ranglátt, — og hefði sagt í dag: Það á ekki að hækka söluskattinn, það er ranglátt, — og greitt svo atkv. í kvöld í samræmi við skrif sín og tal, þá er ekkert við því að segja. En ég veit ekki hvaða orð ég á að nota yfir hitt, að byrja daginn á því að skrifa gegn söluskatti, að nota svo miðhluta dagsins til að tala gegn söluskatti og ætla síðan um kvöldið að samþ. söluskatt, — Það er andstyggilegt.