28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Jón Árnason, sleppti því af hagkvæmnisástæðum í ræðu sinni áðan að gera grein fyrir þeirri vitneskju sem hann hefur þó til að bera um mismuninn á söluskatti og tekjuskatti. Hv. þm. Geir Gunnarsson lýsti söluskattsstiginu, sem nú á að bæta við í þessu skyni, við skattlagningu á barnafjölskyldur sérstaklega. Það er vafalaust, að þeir sem mesta hafa framfærsluþörfina, þyngstar hafa framfærsluskyldurnar núna, við þá mun a.m.k. þessi hækkun á söluskatti koma verst.

Ég verð að segja alveg eins og er, að hagur banka kemur ekki við hjartataugarnar í mér á sama hátt og hagur barnafjölskyldna. Hæstv. forsrh. gat þess áðan að bæta þyrfti hag Seðlabankans um nokkra milljarða. Það má vel vera að slíkt sé æskilegt. En það er staðföst trú min, að meir sé nú aðkallandi að bæta hag fjölskyldna, láglaunafjölskyldna, um a.m.k. 20000 kr. á mánuði, til þess að komist verði hjá því að verkalýðsforustan, verkalýðshreyfingin, verði neydd til að gera þess háttar ráðstafanir til að koma viti fyrir valdhafa sem venjulega hafa talist neyðarbrauð, neyðarúrræði. Ég er viss um að það er meiri þörf á því núna, brýnni þörf og meira aðkallandi að bæta hag barnafjölskyldna heldur en bæta hag banka.

Munurinn á söluskattsstigi nú til þess að bæta tjón á Norðfirði og í Vestmannaeyjum og söluskattsstigi sem samþ. var þegar jarðeldarnir brutust út í Vestmannaeyjum, er fyrst og fremst sá að þá var batnandi hagur alþýðu manna í þessu landi. Fólkið var aflögufært. Það er það ekki nú. Að bæta söluskattsstigi ofan á núna samsvarar ekki aðeins því að taka síðasta eyri fátæku ekkjunnar, heldur að falsa á hana víxil.